Færsluflokkur: Lífstíll

Oh, sætt :)

  Þetta kom með póstmanninum í dag. Jeminn hvað hafa orðið miklar framfarir á rúmum 9 árum í bleyjubransanum. Vonandi bíður gormurinn eftir þessu ;)  Verður í flottustu undirfötunum á Akureyri!

001_806459.jpg


Nýr íbúi á svölunum

Það hefur fyrirferðamikill einstaklingur byggt sér aðsetur á svölunum hjá okkur.

crablike%20spiny%20orb%20weaver%20cbsp%2062307 Þetta er víst Spiny (backed) orb spider (Jorrit fann og myndin er af netinu). Þær virðast ekki vera hættulegar en vefurinn er agalega stór og auðvitað hurðarmegin á svölunum. Gott fyrir hana að við notum svalirnar lítið og erum ekki köngulóa óvinir.


Hugleiðingar á leiðinni heim

Ég fór í könnunarferð á bókasafnið í dag. Þetta bókasafn er í Miramar-borg en eins og Pembroke Pines-borg er hún eiginlega bara hverfi og ekki nokkur leið að sjá nein borgarmörk á milli hennar og td Pembroke. Miramar byrjar nefnilega hinum megin við götuna. Pembroke Road til að vera nákvæmari.

Bókasafnið er í hinni nýju borgarmiðju (City Center) Miramar sem samanstendur af menntasetri (sem bókasafnið er í), skrifstofubyggingu með líkamsrækt, og bílastæðahúsi. Restin af svæðinu er óbyggt enn. Þetta er þó meiri uppbygging en  í miðbæ Pembroke þar sem núna eru bílastæði og klukkuturn, og já, merkið að þarna sé miðbær.

Annars er tún með nautgripum hinum megin við götuna hjá miðbæ Miramar.

En allavega þegar ég labbaði fram hjá leikskóla á leiðinni heyrði ég klapp og mjóróma raddir kyrja "Obama, Obama" og þá mundi ég eftir deginum. Ég fór passlega út til að vera örugglega ekki við tölvuna þegar forsetaskiptin yrðu. Oh, fjárans.

Ansi var það því gaman að ganga inn í bókasafnið og að sjónvarpinu þar inni alveg passlega til að sjá manninn svarinn inn á afskaplega amerískan hátt. Sjónvarpinu hafði verið komið fyrir sérstaklega fyrir í lesaðstöðunni fyrir tilefnið.

Mér sýndist Obama vera pínu trektur þegar hann var að svara prestinum en kannski gat hann bara ekki beðið með að byrja skítmoksturinn. Því það er það sem hann verður að gera næstu árin.

Svo steig maðurinn í pontu. Alveg afskaplega er hann með mikla útgeislun, maðurinn. Þegar hann talar langar manni bara að lygna aftur augum og hlusta. Ræðan var auðvitað góð. Full af "We Americans" og guði eins og búast má við. Það sem ég sá af henni fjallaði um efnahagsvandann. Obama sagði einfaldlega: Seinustu ár höfum við verið löt og værukær og það er að koma í bakið á okkur. Við höfum leyft óprútnum mönnum að leika sér án hafta og við höfum ekki verið að taka þátt í heimsmálunum eins og við ættum að gera. En nú er kominn tími til að standa á fætur, bretta upp ermar og vinna. Laga það sem þarf að laga og vera skynsöm. "Yes we can" andinn sveif þarna yfir vötnum. "Við getum og gerum og gerum það saman".

Ef Íslendingar eru þjóðin sem eru sokkin í kúk upp að nefi þá eru bandaríkamenn með hann upp að öxlum. Þeim veitir ekki af hughreystingu og að heyra að það sé eitthvað verið að gera til að redda málum. Þetta verður ekkert grín hjá Obama en hann er allavega nýr og það gefur fólki hér smá von.

Fréttirnar að heiman eru ekki eins skemmtilegar. Mótmæli og piparúðar aðra hverja viku núna. Ráðherrar sem virðast vera óhagganlegir og ákveða bara sín á milli hvernig hlutirnir eiga að vera. "Ég og Geir ákváðum...". Viðskiptaforkólfar sem segja "Þetta eru ekkert óeðlileg viðskipti" um eignatilfærslur sem í augum venjulegs fólks virðast vera hrein og klár svik og þjófnaður. 

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve samfélagið var geðveikt. Og það gengur illa að vinda ofan af geðveikinni.

Íslendingar hafa í langan tíma haft það svo gott að við höfum ekki séð ástæðu til að vera með vesen. Ástæðan fyrir að sjálfsmorðssprengingar hafa ekki ennþá gerst heima, er einfaldlega sú að enginn nennir að sprengja sig í loft upp ef viðkomandi getur komið viðhorfi sínu á framfæri á auðveldari hátt. Það er svo langt síðan að við höfum haft alvöru ástæðu til óánægju, að sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið sú að við kunnum bara að nöldra. Að kasta grjóti í lögguna hefur verið einstaklingsframtak í drykkjuæði í hugum okkar. Mæta niður á Austurvöll með bílhlass af hrossaskít hefur verið óhugsandi lengi vel. Og afskaplega ókurteist í ofanálag. Ómálefnalegt. Óíslenskt.

 Það er líka óíslenskt að vera á hvínandi kúpunni, sem þjóð altso. Að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og húsnæði. Að upplifa sig sem valdalausan lýð sem fáir útvaldir aðilar ráðskast með að vild. 

Valdaleysið er líklega verst. Og hættulegast. Það er sennilega vegna þessa valdaleysistilfinningar sem umræðan hefur snúist frá almenni kröfu um afsagnir ráðherra og upptöku eigna auðmanna, yfir í breytingu á stjórnaskránni og uppstokkun lýðræðisins (og líka afsagnir og upptökueigna).

Það er líka líklega vegna þess sem mótmælum fjölgar og löggan þarf að panta meiri byrgðir af piparúða.

Í mínum huga er augljóst að það þarf að kjósa sem fyrst. Og það þarf að endurskoða stjórnarskránna því svo virðist vera að lýðræðið á Íslandi þurfi hressingar við. Því lýðræði er ekki eitthvað sem hægt er að geyma upp í hillu.

Fólki verður að finnast það hafa einhverja stjórn á aðstæðunum. Það verður að hafa á tilfinningunni að það sé verið að gera eitthvað fyrir það.  Annars vex bara reiðin. Það hjálpar svo ekki ef fólki fjölgar sem hefur engu eða litlu að tapa.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Hlutir geta alveg farið fjandans til á Íslandi eins og annars staðar. Það er ekkert rótfast í eðli Íslendinga að nöldra bara og gera svo ekkert alveg sama hvað gengur á. Suma hluti er bara ekki hægt að humma fram af sér. Ég vona bara að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því fyrr en seinna.


Oh, við erum svo náttúruleg núna...

Við fórum í búðarferð á laugadaginn. Að þessu sinni var það ekki Wal-Mart sem varð fyrir valinu heldur kringla sem heitir Sawgrass Mills Mall og svo prófuðum við Whole Foods Market.

Sawgrass Mills Mall er þvílíkt bákn. Greinilega sérhönnuð fyrir túrhesta, sérstaklega evrópska. Þar var td söluvagn sem hét "Taste of Europe" og þar var hægt að fá Kinderegg, og Rittersport súkkulaði, og Malterses. Oh hvað það var erfitt að ganga þar framhjá. En það var samt enginn lakkrís þarna eða sterkir molar, hrf.

Svo fórum við og gerðum vikuinnkaupin í Whole Foods sem ku vera nr 1 í lífrænt ræktuðum vörum hér á landi.  Eiginlega er búðin andhverfa Wal-Mart (fyrir utan að vera keðjuverslun, auðvitað). Þar má fá furðuvörur eins og vanillustangir, rúgmjöl og múslí. En hins vegar fundum við ekki frosna hamborgara eða hamborgarabrauð. En það var hægt að fá ýmiskonar "meat patties" í kjötborðinu. Hver della (pattie) var örugglega 500 gr.

Magni vildi nú ekki viðurkenna eftir á að hann hafi haft gaman af ferðinni í WF en á meðan við vorum þar leið mér smá eins og ég væri með mun yngri Magna Stein með í för. Það var nefnilega nánast ómögulegt fyrir hann að láta vörurnar í friði. Þurfti að snerta á öllu sem fyrir varð. Skoða og spá. Ég ljái honum það varla, vörurnar voru mun girnilegri en í W-M. En reikningurinn fyrir þær var líka eftir því.

Við Jorrit vorum sammála um að næst verði farið í þessa búð fyrir jólin.

Núna eigum við sem sagt lífrænt hveit, lífrænan púðursykur, lífræna mjólk og þannig fram eftir götunum. Það verðu nú að viðurkennast að hingað til hafa þessar vörur reynst agalega góðar.

Og svo er þetta allt merkt Fair Trade, sem lætur manni líða svo vel á innan. Ef ég væri rík myndi ég versla alltaf þarna. Eða amk ekki svona blönk.

Í dag og gær hreinsaði Jorrit upp úr Froskabúrinu og endurinnréttaði, froskunum til lítillar ánægju. Nú er komið þykkara undirlag fyrir plönturnar og mosi í staðinn fyrir kurlið sem var. Það á að vera hollara fyrir froska sem kunna ekki sitt magamál og eiga það til að gleypa pöddurnar sem og annað í kringum þær. Korkurinn og fossinn var tekið niður. Helmingurinn af korkinum var komið fyrir á einni skammhlið búrsins. Vatnsdælan sem var fyrir fossinn áður er núna stungið upp í hálfa kókushnetuskel og dælir vatni upp úr henni.

Okkur finnst þetta allt voða sætt en mér sýnist að froskarnir séu ekki á sama máli. Þeir vilja held ég fá fleiri felustaði upp undir rjáfri fyrir fegurðarblundinn sinn. Það er verið að vinna í þeim málum. Svo gæti verið að froskar lifi mun flóknara vitsmunalífi en virðist vera í fyrstu. Kannski eru þeir bara agalega vanafastir og þola ekki svona vesen. Þeir tróðu sér alla vega hið snarasta upp í horn og bak við korkinn. Núna er búið að smala þeim sem fóru bak við korkinn fram og laga svo þeir komast ekki til baka. Þá er bara hangið í einum hnapp upp í horni. Ég vona að þeir jafni sig. Ég tók nokkrar myndir af lystaverkinu en á eftir að hlaða þeim inn. Kannski geri ég það á morgun.


Af baráttu hins hreina kynstofns við ókunnugar hitabeltisskepnur og óblíð náttúruöfl!

Hehe, kannski svolítil damatískt en ég er einu sinni að lesa um "hvíttun" Ástralíu og maður litast stundum af lestrarefninu hverju sinni. Þarf að klára bókina en hún er áhugaverð enn sem komið er.

En það er helst í fréttum hjá okkur að við fórum á föstudaginn til Barefoot landing sem er svona svipaður staður og Broadway on the Beach nema meiri búðir og minni söfn og slíkt. Þar borðuðum við hamborgara og með því á alveg eins hamborgarastað og við fengum okkur sjake á um daginn. Og svo fórum við inn í nammibúð sem selur svona saltwater taffy, í pundavís! Við ákváðum að kaupa eitt pund Það voru til svon 15 til 20 mismunandi bragðtegundir  og alveg risastórir pokar til að setja þær í. Á meðan við vorum í búðinni fór einhver gaur að búa til meira svona taffy. Það var svona taffy tegingarvél á staðnum og alveg rosalega forn pökkunarvél.  Maðurinn tók svona 10 kg massa af karamellu og rúllaði honum upp í risa vöndul sem var síðan settur í vélina. Þegar vélin var búin að pakka inn smá hrúgu af nammi tók maðurinn handfylli og henti til áhorfenda. Ef maður var ekki tilbúinn fékk maður bara nammið í hausinn!Magni og Jorrit í myndatöku

En pundið sem við keyptum er búið þannig að ég mæli alveg með svona taffy Smile

Í gær fórum við í smá göngutúr. Hann átti að vera mun lengri en við féllum á survival og ösnuðumst út um miðjan dag en þá er alltof heitt fyrir svona erfiði. Við ætluðum að ganga meðfram flugvallargirðingunni sem ætti að taka svona klukkustund. Þegar við vorum komin nokkur hundruð metra var Magni orðinn eins og eldhnöttur og kvartaði agalega undan svita og hita. Plastföt eru ekki hentug til gönguferða hér um slóðir (fall 1). Svo komum við að stað þar sem skógurinn er rétt við girðinguna. Voða notalegt að ganga í skugganum ef væri ekki fyrir þessar risa moskítóflugur sem risu upp og réðust á okkur, alveg agalega ánægðar með þessa óvæntu máltíð. Við forðuðum okkur snarlega heim.

Ég dreymdi í alla nótt að það væru flugur að bíta mig og seinni part nætur gat ég varla sofið fyrir kláða á bakinu. Jorrit taldi stungurnar á bakinu á mér. 4 á vinstra herðablaði og 3 á því hægra. Og þetta er fyrir utan stunguna á upphandleggnum sem ég var búin að sjá.

Sem betur fer virðast kvikindin hafa ráðist á þessa stóru fyrst því Magni er stungulaus sem fyrr.

Og já, ég er búin að versla Civ4 Cool

Jorrit segir að hann sé tölvuekkill því að konan og barnið eru bæði upptekin af tölvuleikjum. 


Ethnic

Í gær skemmti Jorrit sér og okkur við að að skoða Hollenska þjóðarbrotið (the Dutch Ethnic group) á Wikipedia. Honum finnst pínu skrítið að tilheyra þjóðarbroti þar sem hollendingar eru aldir upp við að vera normið og þar af leiðandi ekki etnískir. Pínu áhugavert þar sem Jorrit er nú líka Frísi og er alveg til í að vera etnískur þannig. En Frísar eru náttúrulega frekar undarlegir í augum hinna "eðlilegu" hollendinga; tala skrítið, haga sér furðulega og eru undalega uppteknir af kúm.

Ég, frumbygginn, afkomandi víkinda og þræla og villikonan, hló að honum og sagði að auðvitað væru allir etnískir á sinn hátt. Afskaplega mannfræðilegt svar.

En ég fór að pæla meira um þessi samskipti okkar núna áðan þegar ég var að mála mig fyrir framan spegilinn (margar djúpar pælingar fæðast þannig). Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að finna augnháralit í Walmart. Það fæst allt í Walmart sem leiðir af sér að það er erfitt að finna suma hluti þar. Til dæmis lentum við í merkilega miklum hremmingum við að finna sjampó um daginn. Í þeirri leit fann ég allskonar hárvörur. Sprey og liti og gel og bursta og whatnot. Og svo fann ég etníska-partinn. Það voru örugglega svona 4 gangar af allskonar hárvörum og 1/2 gangur var sérstaklega helgaður "etnísku" hári.

Ef ég hefði ekki vitað neitt um BNA fyrir en fengið að labba um Walmart í svona korter og fengið svo að giska hverjir væru með "etnískt" hár í merkingunni minnihlutahópur hefði ég giskað á að hillurnar innihéldu "more curles" hárfroðu og hárlitunarvörur fyrir slétt ljóst hár. Svona hár sem er hannað fyrir rigningu og langa vetur undir húfu.  En auðvitað ekki. Þrátt fyrir að vel flestir sem eiga heima á svæðinu hafi ekkert að gera með "sleek and shine" sjampó heldur sléttiefni og krulluolíu, eru hárvörur fyrir þannig hár sérstaklega merkt "ethnic", öðruvísi og til hliðar.

Það verður nú að nota hvert tækifæri til að njörva niður hugmyndir fólks um stöðu sjálfs síns og annara.

Ég mæli annars með að kynna sér Hollenska þjóðarbrotið, sérstaklega siði þess og helstu einkenni. Einstaklingar af þessu afbrigði mannskepnunnar ku vera frekar hávaxnir (sennilega aðlögun að fjölmenni?) en með kaldhæðin húmor. Einnig eru þeir þekktir fyrir að koma hreint fram, stundum aðeins of hreint, og eiga erfitt með að skilja aðdróttanir og rósatal. LoL

 


Sjálfskaparvíti

Ef hann Magni Steinn minnist á það hálfu orði næstu 3 vikurnar að honum vanti meira dót mun ég örugglega missa mig!

Dagurinn hefur farið í það að pakka niður endalausu magni af lego, playmó, bókum og öðru dóti.

Jesús Kristur hvaðan fékk barnið allt þetta drasl?? 

Og svo þjáist hann af of nískri mömmu eða svo segir hann... 

Restin af húsinu hlýtur að vera lautarferð eftir þessi skemmtilegheit. 


Afrek helgarinnar

Núna er þessi sérdeilis fína helgi að baki.Grin

Mér tókst að:

  • Liggja í leti
  • Laga almennilega til í:
    • Stofunni
    • Eldhúsinu
    • Herberginu mínu
    • Geymslunni
  • Versla helling
  • Fara í Bíó
  • Spjalla uber mikið við Jorrit InLove

Magna tókst að:

  • Fá mig til að kaupa nýjan PS-leik. Blush

Við Magni gerðumst nefnilega félagsskítar á laugadaginn (barnið reyndar gegn vilja sínum) og brenndum inn á Eyrina. Ég þurfti nefnilega nauðsynlega þangað og miðað við spá og allt virtist vera skynsamlegt að drífa sig bara. En svo kom rann sunnudagurinn upp bjartur og fagur, auðvitað.GetLost

Ef ég hefði ekki farið þá hefði örugglega verið snjókoma og allt.

En allavega:

Við brenndum inneftir og versluðum og þannig. Hittum á útsölu á tölvuleikjum í Eymundson og komum þaðan út með hinn sögufræga Lemmings. Ég var næstum búin að fjárfesta í Neverwinter Nights 2 en guggnaði á því á seinustu stund. Ég vona eiginlega pínu lítið að Valdís hafi fallið í freisni í gær...Whistling

Svo eftir verslið fórum við til Valdísar. Þar var frekar slæptur og örlítið pirraður (ég meina í alvöru örlítið ekki örlítið mikið, það var ekki urrað á okkur sko) Tryggvi. Við mæðginin og Valdís skildum hann eftir á sófanum og fórum í bíó.

Myndin sem varð fyrir valinu var (auðvitað) Stardust.

Magni hafði upphaflega ekki viljað fara á "svona textaða mynd" en eftir að hafa séð trailerinn ákvað hann að slá til.

Myndin var stórgóð. Alveg hæfilega klikkuð og svolítið ógeðsleg á köflum. Ég hugsaði stundum: "Og barnið er að horfa á þetta!" En Magni virtist taka ævintýra-ofbeldinu með ró og það sem virtist standa uppúr hjá honum var dansatriði skipstjórans.

Það er svolítið langt síðan ég las Stardust. Í minningunni var hún svona lauflétt ævintýri. Heimsmyndin einföld og allt voða bjart og fallegt. Svona þannig lagað. Vondukallarnir voða vondir og góðukallarnir ferlega góðir osfv.

Myndin er, held ég, ekki alveg endursögn af bókinni. En það er sko í fínu lagi því sagan gengur upp og er hvorki of hröð né of hæg. Ekki væmin og persónurnar eru skemmilegar. Sérstaklega gera hinir framliðnu prinsar það gott. En myndin er mun dekkri en mér minnir að bókin hafi verið. Fullt af blóði, í ýmsum litum, morð og misþyrmingar. Ekki fyrir voða viðkvæma.

Miðað við þetta þá er ég ekki viss um að ég myndi leggja í Neverwere...W00t

 

 


Aðeins of mikið frumkvæði

Sonur minn hringdi í mig í dag. Það skeður ekki oft og hann þurfti endilega að gera það á þegar ég var í miðjum fyrirlestri um menn og náttúru Mývatns.

Ég þorði ekki annað en að svara og spurja skjálfandi röddu hvort nokkuð væri að. Bjóst alveg eins við táraflóði en hann bar sig ágætlega og sagðist alveg geta beðið aðeins.

Ég kláraði fyrirlesturinn aðeins stressuð en stökk á símann um leið og fólkið var horfið úr dyrunum.

Og hvað var erindið?

Jú, Magni og vinur hans höfðu verið að skipuleggja félagslíf sitt. Gleymdu bara að láta alla vita. Þannig nú var vinurinn í heimsókn og enginn fullorðinn að fylgjast með þeim félögum.

Sem betur fer hafði vinurinn látið sína forráðamenn vita að hann hugðist ekki koma heim til sín eftir skóla, og hvert mætti sækja hann þegar þau söknuðu hans.

Ég veit, ég veit, bölvað vesen þessir foreldrar sem þurfa alltaf að vita allt!!Pinch

Ég lokaði sjoppunni í nokkrar mínútur og brá mér aðeins heim. Þeir voru svona frekar niðurlútir drengirnir.

Við Magni ræddum málið aðeins í kvöld og urðum sammála um að það væri best að mamma væri höfð með í ráðum næst. Og það hafi verið gaman að fá vininn í heimsókn þrátt fyrir allt.Police


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband