Færsluflokkur: Mannréttindi

Hugleiðingar á leiðinni heim

Ég fór í könnunarferð á bókasafnið í dag. Þetta bókasafn er í Miramar-borg en eins og Pembroke Pines-borg er hún eiginlega bara hverfi og ekki nokkur leið að sjá nein borgarmörk á milli hennar og td Pembroke. Miramar byrjar nefnilega hinum megin við götuna. Pembroke Road til að vera nákvæmari.

Bókasafnið er í hinni nýju borgarmiðju (City Center) Miramar sem samanstendur af menntasetri (sem bókasafnið er í), skrifstofubyggingu með líkamsrækt, og bílastæðahúsi. Restin af svæðinu er óbyggt enn. Þetta er þó meiri uppbygging en  í miðbæ Pembroke þar sem núna eru bílastæði og klukkuturn, og já, merkið að þarna sé miðbær.

Annars er tún með nautgripum hinum megin við götuna hjá miðbæ Miramar.

En allavega þegar ég labbaði fram hjá leikskóla á leiðinni heyrði ég klapp og mjóróma raddir kyrja "Obama, Obama" og þá mundi ég eftir deginum. Ég fór passlega út til að vera örugglega ekki við tölvuna þegar forsetaskiptin yrðu. Oh, fjárans.

Ansi var það því gaman að ganga inn í bókasafnið og að sjónvarpinu þar inni alveg passlega til að sjá manninn svarinn inn á afskaplega amerískan hátt. Sjónvarpinu hafði verið komið fyrir sérstaklega fyrir í lesaðstöðunni fyrir tilefnið.

Mér sýndist Obama vera pínu trektur þegar hann var að svara prestinum en kannski gat hann bara ekki beðið með að byrja skítmoksturinn. Því það er það sem hann verður að gera næstu árin.

Svo steig maðurinn í pontu. Alveg afskaplega er hann með mikla útgeislun, maðurinn. Þegar hann talar langar manni bara að lygna aftur augum og hlusta. Ræðan var auðvitað góð. Full af "We Americans" og guði eins og búast má við. Það sem ég sá af henni fjallaði um efnahagsvandann. Obama sagði einfaldlega: Seinustu ár höfum við verið löt og værukær og það er að koma í bakið á okkur. Við höfum leyft óprútnum mönnum að leika sér án hafta og við höfum ekki verið að taka þátt í heimsmálunum eins og við ættum að gera. En nú er kominn tími til að standa á fætur, bretta upp ermar og vinna. Laga það sem þarf að laga og vera skynsöm. "Yes we can" andinn sveif þarna yfir vötnum. "Við getum og gerum og gerum það saman".

Ef Íslendingar eru þjóðin sem eru sokkin í kúk upp að nefi þá eru bandaríkamenn með hann upp að öxlum. Þeim veitir ekki af hughreystingu og að heyra að það sé eitthvað verið að gera til að redda málum. Þetta verður ekkert grín hjá Obama en hann er allavega nýr og það gefur fólki hér smá von.

Fréttirnar að heiman eru ekki eins skemmtilegar. Mótmæli og piparúðar aðra hverja viku núna. Ráðherrar sem virðast vera óhagganlegir og ákveða bara sín á milli hvernig hlutirnir eiga að vera. "Ég og Geir ákváðum...". Viðskiptaforkólfar sem segja "Þetta eru ekkert óeðlileg viðskipti" um eignatilfærslur sem í augum venjulegs fólks virðast vera hrein og klár svik og þjófnaður. 

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve samfélagið var geðveikt. Og það gengur illa að vinda ofan af geðveikinni.

Íslendingar hafa í langan tíma haft það svo gott að við höfum ekki séð ástæðu til að vera með vesen. Ástæðan fyrir að sjálfsmorðssprengingar hafa ekki ennþá gerst heima, er einfaldlega sú að enginn nennir að sprengja sig í loft upp ef viðkomandi getur komið viðhorfi sínu á framfæri á auðveldari hátt. Það er svo langt síðan að við höfum haft alvöru ástæðu til óánægju, að sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið sú að við kunnum bara að nöldra. Að kasta grjóti í lögguna hefur verið einstaklingsframtak í drykkjuæði í hugum okkar. Mæta niður á Austurvöll með bílhlass af hrossaskít hefur verið óhugsandi lengi vel. Og afskaplega ókurteist í ofanálag. Ómálefnalegt. Óíslenskt.

 Það er líka óíslenskt að vera á hvínandi kúpunni, sem þjóð altso. Að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og húsnæði. Að upplifa sig sem valdalausan lýð sem fáir útvaldir aðilar ráðskast með að vild. 

Valdaleysið er líklega verst. Og hættulegast. Það er sennilega vegna þessa valdaleysistilfinningar sem umræðan hefur snúist frá almenni kröfu um afsagnir ráðherra og upptöku eigna auðmanna, yfir í breytingu á stjórnaskránni og uppstokkun lýðræðisins (og líka afsagnir og upptökueigna).

Það er líka líklega vegna þess sem mótmælum fjölgar og löggan þarf að panta meiri byrgðir af piparúða.

Í mínum huga er augljóst að það þarf að kjósa sem fyrst. Og það þarf að endurskoða stjórnarskránna því svo virðist vera að lýðræðið á Íslandi þurfi hressingar við. Því lýðræði er ekki eitthvað sem hægt er að geyma upp í hillu.

Fólki verður að finnast það hafa einhverja stjórn á aðstæðunum. Það verður að hafa á tilfinningunni að það sé verið að gera eitthvað fyrir það.  Annars vex bara reiðin. Það hjálpar svo ekki ef fólki fjölgar sem hefur engu eða litlu að tapa.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Hlutir geta alveg farið fjandans til á Íslandi eins og annars staðar. Það er ekkert rótfast í eðli Íslendinga að nöldra bara og gera svo ekkert alveg sama hvað gengur á. Suma hluti er bara ekki hægt að humma fram af sér. Ég vona bara að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því fyrr en seinna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband