Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Gey

Magni á að fara með smábarnamynd af sér í skólann á morgun. Við könnuðum málið og fundum enga í tölvunni. Magni er nefnilega svo aldraður að myndir voru framkallaðar þegar hann var ungur.

Svo við leituðum hjálpar á venjulegum stað: Afi og Amma.

Og auðvitað reddaði Afinn þessu!Smile

Ég var að skoða myndirnar í morgun. Agalega var maðurinn sætur!  Eftir smá tíma heyrðist í Jorrit sem sat í stofunni: Ég kem ekki nálægt þér næstu vikurnar! Það sést hingað eggjasvipurinn á þér!

Hva!?Shocking

Ég var bara að rifja upp hvað Magni var skemmtilega þægilegur á þessum aldri. Hvaða paranója er þetta?!

Það hjálpaði ekkert að þegar ég var að skoða hljómaði lag sem ég held að heiti "Búum til börn" í internetútvarpinu og það festist svona ferlega í hausnum á mér. Því fékk ég augnatillit reglulega klukkutímann á eftir þegar brot af laginu hrökk upp úr mér við og við.

Ef þetta virkar ekki til þess að fá aðstoð við pillutökuna þá veit ég ekki hvað virkar! Devil


Það haustar hér sem annars staðar

Þegar við Magni gengum í veg fyrir rútuna var kuldalykt í loftinu. "Hvaðan kemur þessi kuldi?" spurði barnið og hryllti sig.

Það er ekkert skrítið að hann spurji. Seinustu mánuði hefur hitinn ekki farið niður fyrir 25 gráðurnar í nánasta umhverfi hans. Börn eru svo fljót að aðlagast.

Hitinn á mælinum var 22 gráður þegar ég kom aftur heim. Ekki það sem við mundum kalla kalt en lyktin var samt til staðar.

 Það er nú samt ekki laust við að við séum byrjuð að sakna vetrarins, frostsins og snjósins. Svona er maður aldrei ánægður!


Skólaverkefni

Við Magni vorum agalega amerísk þessa helgina. Og frekar íslensk líka í senn.

Magni á nefnilega að skila heimaverkefni á morgun.

Verkefnið felst í því að gera bækling. Svona A4 (eða rúmlega) brotinn í þrennt. Bæklingurinn átti að fjalla um einhverja borg og vera svona ferðamanna. (Sem var leiðinlegt því það eru svo margir áhugaverðir staðir sem eru ekki borgir. Satt að segja er ég svo skrítin að mér finnast borgir almennt ekki áhugaverðar). Sérstaklega var tekið fram að það mætti ekki fjalla um skemmtigarða.

Magni valdi að skrifa um Húsavík.

Og við eyddum helginni í að gera bækling. Fyrst svona beinagrind, svo var texti skrifaður á íslensku og svo var hann þýddur og myndir settar við.

Voða fínt og voða amerískt.

Voða íslenskt að gera þetta svona rétt fyrir skil. Tounge


Go Þorgeir!!

Það var nú fallega gert eða hittþó hjá Icelandair að spilla fjölskyldumótinu hans Þorgeirs. Saga benti mér á fréttina og ég er heyksluð. Og eins og venjulega þykist flugfélagið ekkert bera ábyrgð á fjárhagstjóni sem fólk verður fyrir vegna ákvörðun þeirra.

Ég óska Þorgeiri hins besta í glímunni við risann!


mbl.is Undrandi á framkomu Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara smá

Helgin var viðburðalítil, sem betur fer!

Eftir þessa spennandi viku sem enginn Íslendingur mun gleyma var það ágætt.

Jorrit er byrjaður að vinna og Magni fékk með sér lestrarbók heim. Um einhverja körfuboltastelpu stundi hann. Íþróttaáhuginn er ekki að drepa barnið. Og um stelpu!

Ég skoðaði málið og komst að því að bókin fjallaði um Debbie Black sem er fræg fyrir afburðaleikni í körfubolta og fyrir að vera lítil (fyrir körfuboltamanneskju). Vonandi tekst mér að vekja áhuga drengsins.

Þegar ég var á leiðinni heim eftir spriklið og að koma Magna í rútuna sá ég lagningu mánaðarsins, ef ekki ársins (ef við tökum ekki með bílinn sem "lagði" umhverfis pálmatréð í inngangnum í hverfið um daginn)

dsc00034.jpg Maður verður að hafa gaman af þessu Tounge

Og já: Til hamingju með daginn, elsku mamma mín InLove


Jeminn

Við Magni erum að gera íslenskuverkefni.

Amman er búin að eyða fjármunum í að barnið verði ekki mállaust á þessu útstáelsi móðurinnar og við erum að nota okkur það.

Við (ég) völdum að lesa um Hellisbúa í þetta skiptið. Magni er alveg til í að lesa um hellisbúa og ég er nú mannfræðingur og þar af leiðandi áhugasöm um hellisbúa.

 Magni las textann og svo las ég textann. Byrjaði og endaði allt í lagi en svona var sagt frá þróun mannsinns:

 

Það er samdóma álit flestra fræðimanna að maðurinn sem tegund hafi þróast á milljónum ára til að verða það sem hann er í dag og útfrá því má reikna með að hann sé enn að þróast og væri fróðlegt að vita hvernig mannskepnan komi til með að líta út eftir einhver þúsund ár. Telja margir að maðurinn hafi fyrst þróast frá öpum, en fyrir um það bil tveimur og hálfum milljónum ára kom hinn svokallaði hæfimaður, Homo habilis, fram á sjónarsviðið. Hafði hann yfir að ráða hæfileikum sem ekki höfðu þekkst fyrr, en hann virðist hafa lifað mestmegnis á veiðum dýra, sem hann sótti í vatn og á landi. Með hæfimanninum kemur fyrst fram hæfileikinn til að smíða verkfæri og nota þau til að búa til önnur. Þeir byrjuðu að höggva steina til og nota þau í vopn, sem gerði þá mun hæfari til að lifa af og stunda veiðar. Reismaðurinn, Homo erectus, birtist svo fyrir u.þ.b. 1.8 milljónum ára, og með honum virðist verkkunnáttu fleygja fram og verkfæri þau sem hann framleiðir taka meira mið af útliti, ekki bara notagildinu. Með bættum vopnum gátu reismennirnir veitt stærri dýr, sem aftur auðveldaði þeim að safna upp matarforða.

Í kringum árið 400.000 þúsund fyrir Krist virðist hann hafa áttað sig á eldinum og þá fer hann meira að huga að bústað sínum. Í staðinn fyrir náttúruleg afdrep fer hann að búa um sig í dýpri hellum og vandaðri byrgjum.1

Það er svo u.þ.b. 40.000 árum fyrir Krist að ný undirtegund manna, Neanderdalsmaðurinn, kemur fram. Með Neanderdalsmanninum virðast enn koma fram nýjar eiginleikar. Greftrunarsiðir þeirra sýna t.a.m. að þeir líta á dauðann með táknrænum augum.

Skömmu síðar eða um 35.000 f.Kr. kemur svo fram á sjónarsviðið önnur tegund, Homo sapiens, en auk þess sem sköpulag þeirra er í mörgu frábrugðið Neanderdalsmanninum, virðast þeir vera farnir að gera sér grein fyrir stöðu sinni í heiminum, og þeim yfirburðum sem greind þeirra gefur þeim.

Það er svo talið að nútímamaðurinn, Homo sapiens sapiens, hafi fyrst komið fram í Ástralíu í kringum 40.000 f.Kr. og síðan virðist hann vera kominn til Ameríku og Síberíu um 25.000 f.Kr. Upp úr því fer þróunin að verða örari og þróaðri menningarsamfélög í ætt við þau sem við þekkjum fara að líta dagsins ljós.

 

Ég skáletraði það sem mér fannst vera kynlegt. Það sem er líka feitletrað er það sem mér fannst vera alveg út úr kú. Þetta með Ástralíuna vona ég bara að sé klaufalega orðuð setning en ekki staðhæfing um að nútíma maðurinn eigi sér uppruna í eyjaálfu!

Bara alveg agalegt!

Við Magni nýttum það úr verkefninu sem við gátum. Svo fórum við og kynntum okkur þróunarsögu mannsins með hauskúpumyndum og alles!

 


Depression....here we come...

 Ég ætla að gera tilraun á morgun: ekki byrja að skoða fréttir og blogg fyrr en eftir hádegi. Þá verður morguninn kannski góður...

eða nei...

Raunveruleikinn breytist víst ekki þó maður frétti ekki af honum. Tréð í skóginum gefur alveg frá sér hljóð þegar það fellur óháð áhorfendum. Og svo er þetta eins og að horfa á bílslys... maður getur bara ekki hætt að horfa. Það hjálpar ekki að í bílnum er ekki bara bláókunnugt fólk.

Og núna er einn enn blaðamannafundurinn, maður fær bara illt í magann.

En það er von. Í þessari grein er þessi setning:

Now, suddenly, everything may be gone, the economy wiped out with the same cataclysmic devastation that was regularly visited on the land by the eruptions and plagues of earlier centuries.

Sem sagt að þetta reddast, á endanum, er það ekki?? FootinMouth


Flugnarækt fyrir froskaræktina

072.jpgÞað er merkilegt hvað sumar ákvarðanir geta leitt mann.

Vegna þess að við ákváðum að taka sumar halakörturnar með okkur suður þá sitjum við allt í einu uppi með 8 litla og gráðuga froska. Ein halakartan er ennþá syndandi og afsaplega hamingjusöm ein í halakörtubúrinu.

Og hvað borða froskar?

Jú, þeir borða allt sem hreyfist og er nógu lítið til að koma inn í munninn á þeim.

Eftir smá rannsóknarvinnu ákváðum við að versla bananaflugur í matinn handa kvikindunum. Meira að segja bananaflugur sem geta ekki flogið því hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín. Við höfum áttað okkur á því 8 froskar geta étið þvílík ósköp af bananaflugum. Fjórar flugur á frosk er ekkert fyrir þessi átvögl.

Svo við fórum í rannsóknarvinnu á ný og núna erum við að gera tilraun með bananaflugnaræktun sem ku vera frekar auðveld. Svo gæludýraræktin vindur upp á sig.

Gallinn við bananaflugur er líka sá að þær eru frekar smáar. Þær eiga það til að sleppa út úr búrinu. Vegna þessa leituðum við í klukkustund í Wal-Mart af flugnaneti. Það fannst í vefnaðarvörudeildinni.

Svo erum við búin að útbúa foss í búrinu þeirra og gróðursetja plöntur til að hafa kósí. En froskunum er næstum sama. Þeir klifa helst upp á brún á bakgrunninum eða á brúnina á búrinu og kúra þar á daginn.

Þeir eru nefnilega trjáfroskar. Okkur var byrjað að gruna það þegar afturfæturnir fengu þessar fínu klifurtær. En um leið að þeir gátu klifrað upp úr vatninu klifruðu þeir upp í rjáfur. Ég las mér til um Karólínska trjáfroska og þeir eru víst gráir amerískir trjáfroskar. Slíkir froskar eru algengir um stóran hluta BNA og í suður hluta Kanada. Afskaplega harðir af sér. Framleiða meira að segja "frostlög" á haustin ef þess þarf.

Þeir geta líka breytt um lit eins og seinna nafnið þeirra segir til um. Einn þeirra hélt sig í horninu á malarbingnum í búrinu á meðan hann var að breytast. Ég hélt að hann hefði depist því að hann var orðinn alveg gulur en nei... hann var bara orðinn alveg eins og mölin á litinn til að fela sig. Svo verða þeir grænleitir þegar þeir sitja á plöntunum og gráir ef þeir eru uppi á kanntinum.


Til að gera langa sögu stutta...

Jorrit náði prófinu!W00t

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband