Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mömmudagur

011.jpgÁ morgun er Mother's day í Ameríkunni.

Á föstudaginn fengu börnin tækifæri til þess að skreita klassískar hvítar vanillu samptertur með smjörkremi. Magni lagði sig allan fram og gerði afskaplega fallega köku handa mér.

En þar sem hann er nú líkur móður sinni feilaði hann aðeins á skynseminni. Þegar það kom að því að fara heim stakk hann kökunni niður í tösku og hélt glaðbeittur heim.

Þegar heim var komið var kakan auðvitað, í köku. Það var agalega sár strákur sem sat á gólfinu yfir brotnu kökunni sinni og mömmu hjartað gat ekki annað en að finna lausn á sorginni.

Sem betur fer var það hægt í þessu til felli og eftir að hafa kafað í rústunum eftir skreitingum bjuggum við bara til meira smjörkrem og skreittu hana aftur. Kakan er auðvitað ekki eins en Magni er búinn að gefa það út að hún sé líklega bara flottari núna, og með meira kremi Wink

Og núna eru menn miklu upplýstari um hvað megi og megi ekki fara ofan í tösku.

Nb. Magna sagði að það yrði að standa "Mom" á kökunni því að þetta væri svona bandarískt en mér grunar að ástæðan sé líka að "Mamma" er svo langt...


Those Two Girls in the Morning

Einhverstaðar verður kona að byrja eftir langt blogghlé...

Ég fór áðan í stefnt-á-að-vera-daglega göngutúrinn minn. Þetta er svona um 3ja mílna hringur sem ég geng oftast, því ég er of löt til að ganga almennilegan 4 mílna hring um blokkina mína. Eða kannski of leið því að það er ekki hægt að ganga hérna öðruvísi en meðfram stórum umferðagötum. Svifrykið maður!

Það besta við að fara í svona labbitúra á morgnana er útvarpið. Ég hef það alltaf í eyrunum til að stytta stundir og á morgnana eru þær Julie og Tamara á Strandarstöðinni (The Coast Fm). Þær eru alveg ágætar. Spjalla um daginn og veginn og spila þægilega tónlist. Svo tala þær um veðrið. Það er nú reyndar nánast alltaf eins; "Það verður sól í dag, 10% líkur á rigningu (eða engar) og hitinn á bilinu 74°F til 85°F".

Svo hringja hlustendur inn og segja álit sitt á vandamálum fólk sem þær taka fyrir. Í dag var það hún Jane sem er boðin í brúðkaup/ættarmót í Colarado í Ágúst. Sem er fínt nema að kallinn hennar nennir ekki að fara því hann "þekkir engan". Búin að vera gift í 15 ár og eiga krakka og allt. Flestir voru á því að Jane ætti bara að láta kallinn eiga sig og skemmta sér með ættingjunum. Einn maður benti þó á að almennilegir karlmenn létu óþægindi eins og leiðinlega ættingja ekki stoppa sig í að styðja við bakið á konunni sinni.

Það sem mér datt í hug var: Hvernig stendur á því að maðurinn hafi ekki tengst við neinn í fjölskyldunni eftir 15 ár! Þessi BNA menn! Kunna bara ekki á almennileg fjölskyldutengsl!

Á tíu mínútna fresti fær maður að heyra umferðafréttirnar. Þær eru bæði meira spennandi og mikilvægari en veðurfréttirnar hérna. En mér finnst það samt ennþá truflandi hvað umferðaféttamaðurinn fer auðveldlega úr umferðinni yfir í styrktaraðilana. Gaurinn talar frekar hratt sko, og fer algerlega án viðvörunar frá umferðarslysi á Turnpike* yfir í brjóstastækkanir hjá Strax**. Getur reyndar verið smá fyndið stundum.

Annars er auðvitað ýmislegt búið að gerast seinasta mánuðinn. Vorsumarið er algerlega komið. Fuglar, hiti (meiri hiti altso) og blóm. Magni fékk bara A fyrir 3ja hluta vetrarins og fékk viðeigandi verðlaun (og límmiða fyrir foreldrana til að monta sig með. Svona ef þeir vildu líma eitthvað á stuðarann á bílnum). Jorrit vinnur og vinnur. Og einn froskurinn hvarf úr búrinu. Mjög dularfullt þar sem ekki einu sinni hinar dauðadæmdu krybbur sleppa úr þessu búri. Páskarnir voru ágætir en Nóa-Siríus nr 4 var sárlega saknað.

Flutningaplön ganga hægt en ganga samt. Núna er hugsanlega stefnt á seinnipartinn í júní. En tilkynningar verða gefnar út þegar plön fara að skýrast.

*Tollvegur sem liggur eftir Flórída endilöngu og endar í Miami.

**Lýtalækninga miðstöð sem er frekar dugleg að auglýsa þjónustu sína. Allskonar tilboð og whatnot. Alveg morðfyndið í mínum huga sem tengi "Strax" við langlokur, nammi og kók.


Oh, sætt :)

  Þetta kom með póstmanninum í dag. Jeminn hvað hafa orðið miklar framfarir á rúmum 9 árum í bleyjubransanum. Vonandi bíður gormurinn eftir þessu ;)  Verður í flottustu undirfötunum á Akureyri!

001_806459.jpg


Eins og mamma sín

Okkur Jorrit hefur grunað í nokkurn tíma að Magni væri farinn að líkjast í móðurættina enn meir en áður.

Grunurinn vaknaði þegar við heimsóttum USS Yorktown og lékum okkur að því að lesa af stafaspjaldinu í læknaherberginu þar. Eitthvað komu stafirnir erfiðlega hjá barninu og með miklum andlitsgeflum.

Því miður var lítið hægt að gera í málinu þá vegna blankheita og vesenis en á þriðjudaginn ákvað Jorrit að drífa barnið (og sig) í augnpróf.

Magni var búinn að gefa út ákaflega ákveðna skoðun um gleraugu og augnlækna þannig að við ákváðum að taka hann bara með ferðinni. Augnprófið átti að vera kl 4 og hálf fjögur var hann rekinn í föt (almenn þeas segja, ekki skólabúning) og drifinn út í bíl. Næstum sagt í framhjáhlaupi hvert við værum að fara.

Þetta fór nú allt ágætlega fram. Jorrit fór á undan og Magni gat fylgst með svo ekkert kom á óvart. 

Niðurstaðan kom ekki á óvart: -1,25 á báðum. Magni var ekkert sérstaklega kátur og ég verð nú að viðurkenna að ég fann til með honum. En svona er þetta. Það er einskonar manndómsraun í okkar ætt, fyrsta augnprófið og síðan fyrstu gleraugun.

Brúnin léttist ekki á gaurnum fyrr en við prófuðum bleyk gleraugu með semelíuhjörtum, bara upp á grínið. Eftir það var hægt að skoða gleraugu fyrir alvöru. Fyrir valinu urðu Power Rangers gleraugu.Magni með gleraugun voðalegu.

Í dag fórum við að sækja nýju brillurnar. Þeim var skellt á nefið og svo farið í mollið. Öll fýlan og allur mótþróinn yfir gleraugunum dugði hálfa leiðina yfir bílaplanið (við gleraugnabúðina) því þá var hann orðinn of upptekinn af því að horfa í kringum sig.  Í mollinu valdi barnið sér shake alveg sjálft, en það hafði verið vitavonlaust án gleraugna. Hann fann líka tölfuleikjaverslun á upplýsingaspjaldinu af 3ja metra færi. Og svo horfði hann og horfði.

Svo græddi hann Lego, Batman PSP leik á öllu saman...


Ethnic

Í gær skemmti Jorrit sér og okkur við að að skoða Hollenska þjóðarbrotið (the Dutch Ethnic group) á Wikipedia. Honum finnst pínu skrítið að tilheyra þjóðarbroti þar sem hollendingar eru aldir upp við að vera normið og þar af leiðandi ekki etnískir. Pínu áhugavert þar sem Jorrit er nú líka Frísi og er alveg til í að vera etnískur þannig. En Frísar eru náttúrulega frekar undarlegir í augum hinna "eðlilegu" hollendinga; tala skrítið, haga sér furðulega og eru undalega uppteknir af kúm.

Ég, frumbygginn, afkomandi víkinda og þræla og villikonan, hló að honum og sagði að auðvitað væru allir etnískir á sinn hátt. Afskaplega mannfræðilegt svar.

En ég fór að pæla meira um þessi samskipti okkar núna áðan þegar ég var að mála mig fyrir framan spegilinn (margar djúpar pælingar fæðast þannig). Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að finna augnháralit í Walmart. Það fæst allt í Walmart sem leiðir af sér að það er erfitt að finna suma hluti þar. Til dæmis lentum við í merkilega miklum hremmingum við að finna sjampó um daginn. Í þeirri leit fann ég allskonar hárvörur. Sprey og liti og gel og bursta og whatnot. Og svo fann ég etníska-partinn. Það voru örugglega svona 4 gangar af allskonar hárvörum og 1/2 gangur var sérstaklega helgaður "etnísku" hári.

Ef ég hefði ekki vitað neitt um BNA fyrir en fengið að labba um Walmart í svona korter og fengið svo að giska hverjir væru með "etnískt" hár í merkingunni minnihlutahópur hefði ég giskað á að hillurnar innihéldu "more curles" hárfroðu og hárlitunarvörur fyrir slétt ljóst hár. Svona hár sem er hannað fyrir rigningu og langa vetur undir húfu.  En auðvitað ekki. Þrátt fyrir að vel flestir sem eiga heima á svæðinu hafi ekkert að gera með "sleek and shine" sjampó heldur sléttiefni og krulluolíu, eru hárvörur fyrir þannig hár sérstaklega merkt "ethnic", öðruvísi og til hliðar.

Það verður nú að nota hvert tækifæri til að njörva niður hugmyndir fólks um stöðu sjálfs síns og annara.

Ég mæli annars með að kynna sér Hollenska þjóðarbrotið, sérstaklega siði þess og helstu einkenni. Einstaklingar af þessu afbrigði mannskepnunnar ku vera frekar hávaxnir (sennilega aðlögun að fjölmenni?) en með kaldhæðin húmor. Einnig eru þeir þekktir fyrir að koma hreint fram, stundum aðeins of hreint, og eiga erfitt með að skilja aðdróttanir og rósatal. LoL

 


Ferðasagan

Ég held að fylgjan mín hafi verið að lenda í Myrtle Beach.

Núna á degi tvö í Conway erum við ferðalangarnir að átta okkur.

Ferðalagið gekk vel. Reyndar fengum við Magni ekki sæti saman í Flugleiðavélinni sem var töluverður stressfaktor í byrjun ferðar. Ég átti að sitja í 10 A og hann í 11 F sem er ekki góðar fréttir fyrir móðurhjartað. Við vorum ekki þau einu sem lentu í þessu því það voru víst einar 4 fjölskyldur í vélinni sem voru tvist og bast. Og fólk var almennt ekki til í að færa sig svo að börnin gætu setið með foreldrum sínum.  En við Magni vorum svo heppin að gömul kona frá Hong Kong sá aumur á okkur og færði sig í sætið hans Magna. Vinkona hennar, hún Irene, hélt mér selskap á leiðinni og reyndist sú skemmtilegasta.

Þegar við komum til Boston fengum við að bíða í mílulangri röð í vegabréfseftirlitinu. Ungi maðurinn sem skoðaði vegabréfin, landvistarleyfin og dulafullu umslögin sem fest höfðu verið í vegabréfin, var bara hress og sagðist vona það að maðurinn minn fengi vinnu hjá Icelandair þegar hann væri búinn að læra.

Svo tók við gangan mikla á milli terminala og eftir það biðstaða í annarri röð. En eftir það fengum við flugmiða fyrir bæði tengiflugin sem var óskup gott. Inni í biðsalnum í Boston náðum við að smakka hina frægu kleinuhringi frá Dunkin Doughnuts (heima hjá mér eru kleinuhringir með gati en greinilega ekki hér umslóðir) áður en komið var að því að fara í næstu vél. Það kom sem sagt í ljós að 3 og hálfur tími var bara alveg passlegur til að komast í gegnum flugstöðina.

Við tók 3ja tíma flug til Atlanta. Við hliðina á okkur sat afskaplega hugguleg stúlka frá Ghana. Hún varð kampakát þegar hún frétti að við værum frá Íslandi. Hún hafði aldrei hitt  svoleiðis fólk. Ég sagði hanni að það væri ekki skrítið þar sem við værum tiltölulega fágæt. Flugvélin var varla komin upp í loftið þegar Magni hringaði sig saman í sætinu og sofnaði. Hann svaf næstum alla leiðina og ég öfundaði hann töluvert. Við sátum nefnilega fyrir framan neyðarútgang sem gerði það að verkum að það var ekki hægt að halla sætunum. Svo ég vakti.

012Þegar nær dró Atlanta tóku skýin að hrannast upp í kringum okkur. Ég hef aldrei séð svona þykka skýjabakka, amk ekki frá þessu sjónarhorni! Enda fór það nú svo að tæpum klukkutíma eftir að við lentum (í brakandi sól)  var orðið skuggsýnt og þrumuveður lokaði vellinum í smá stund. Magni var þokkalega ánægður með að sjá loksins almennilegt þrumuveður. Veðrið var þó á hraðferð og truflaði ferðaáætlanir okkar ekki neitt. Þannig að tæplega 9 á staðartíma stigum við upp í aldraða ATR-72 vél þar sem vinalegur eldri flugþjónn tók á móti okkur.

Þarna fór ekki á milli mála að núna værum við komin í suðurríkin. Flugstjórinn ræddi helling við okkur á leiðinni og líka hann Jooohhn flugmaður. Ástæðan var sú að við þurftum að fljúga í kringum þrumuverðið og það var víst mikil ókyrrð. Ókyrrðin olli því að það var nánast ekki slökkt á sætisbeltaljósunum og drykkjunum var skutlað í okkur á methraða rétt fyrir lendingu. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið sérstakt að sjá eldingarnar blossa fyrir utan flugvélagluggana en ef ókyrrð af þessu kaliberi kæmi í veg fyrir þjónustu um borð í flugvélum heima myndum við varla nokkurtíman fá kaffið! Iss piss.

Það var nú samt gott að komast niður á jörðina í Myrtle Beach. Ja, eftir að flugvélin hætti að skoppa á flugbrautinni. Ég get ekki gefið fugmönnum Delta hátt fyrir farþegavænar lendingar. Úff! Það kemur kannski í staðinn fyrir að vera óskiljanlegur í kallkerfið því það eru flestir Íslenskir flugstjórar en þeir geta lennt nokkuð mjúklega.

Þegar við komum út úr vélinni var klukkan rúmlega 10 og það var svo greinilegt að við höfðum ferðast örfáar breiddargráður til suðurs. Loftið var svolítið eins og í gufubaði. En við fundum Jorrit og töskurnar og héldum svo til Conway. Magni setti örugglega hraðamet í að koma sér inn úr dyrunum og í rúmið, afskaplega feginn.

Jæja, nú nenni ég ekki að skrifa meira í bili. 

 


Stig 4 og 5

Það er mikið búið að ske seinustu daga.

Ég hafði bókað tíma hjá Sendiráðinu á föstudaginn en þar sem Bréfið frá BNA hafði ekki komið á miðvikudaginn ákvað ég að færa tímann aftur um viku. En viti menn! Bréfið var barasta í póstkassanum á fimmtudagsmorguninn svo að mín stökk af stað. Valdís var á leiðinni suður og hafði fallist á að taka Magna með sér svo ég skellti mér bara með.

Við skiluðum Magna af okkur og svo fékk ég að leggja mig á sófanum hjá Tryggva. Heimilisflugan hafði  þó afskaplegan áhuga á mér svo að svefninn var frekar snubbóttur.

Í gærmorgun fylgdi ég Valdísi út á völl. Svo fórum við Accent í borgina aftur, náðum í Tryggva hjá B og L og fórum með hann í vinnunna. Svo tók við smá stress og þvælingur til að ná öllum skjölum og myndum fyrir viðtalið. En það hafðist nú allt saman. Og rúmlega 12 sat ég fyrir framan hvíttennta myndalega konu um þrítugt og tjáði henni að ég vildi fara til BNA til að halda heimili fyrir eiginmann minn. 

Svo þegar Tryggvi var búinn í vinnunni brunuðum við norður. Þetta var ágætis upprifjun á gömlu góðu dögunum þegar við Magni ferðuðumst með TV-ferðum.

Það var agalega notalegt að leggja sig í gærkvöldi.

Í dag lagaði ég til í fötunum okkar Magna og pantaði flug til Ammríku. Við förum þann 29. júní! W00t


Stig 3

Jæja, núna er eitthvað að gerast! Ég og MSÞ eru komin með einhver númer sem eru víst nauðsynleg til að geta fengið landvistarleyfi í BNA.

Í dag hef ég verið önnum kafin við að pirrast á útlendingaeftirlitsbatteríinu vestur í hreppum. Auðvitað þarf maður að fylla út endalaust af eyðublöðum og veseni, þó líklega bara til að sanna það að manni langi alveg rosa, rosa, rosalega til að búa í landi hinna frjálsu og hugrökku.

Nú hefði ég haldið að ástæður fyrir öllum eyðublöðunum væru að fá upplýsingar um umsækjendur (svona ef þeir ætluðu að drepa forsetann eða eitthvað). En miðað við þessi eyðublöð getur það varla verið satt. Því að á sumum þeirra er lífsins ómögulegt að koma umbeðnum upplýsingum til skila á skiljanlegan hátt, amk fyrir fólk sem er ekki algerlega innvinklað í Íslenska staðhætti.  Til dæmis verða yfirlesendur að vita hvar Suðurlandsbraut 24 er sem og Hafnarstéttin, því það var ekki pláss að skrifa "Reykjavík" og "Húsavík" á eftir þar sem beðið var um heimilisföng. Kannski hefði ég átt að skrifa bara Reykjavík og Húsavík? Svo verða þeir að láta sér lynda eftirnafnið Þorvarðardó.

Ég er líka guðs lifandi fegin að ég hafi ekki brugðið mér í Evrópureisu seinustu 10 ár því þá hefði verið gaman að koma landaheitunum fyrir nema í skammstöfunum. Danmörk x4 og Noregur x1 fer langt með að fylla plássið sem var gefið fyrir þennan lið.

Ef ég hefði verið félagsmálafrík hefði sá liður verið ansi skemmtilegur fyrir kanana. Allar íslensku skammstafirnar! Og ekkert pláss til að útskýra hvað SUNN þýðir eða eitthvað annað skemmtilegt.

Ég verð bara að segja það: Það eru um 300 milljónir manna í þessu landi og þetta var það besta sem þau gátu gert? Eiginlega svolítið sorglegt. Er svona ömulegt að vinna hjá Ríkinu þarna fyrir vestan?

Ég vona bara að mér verði ekki neitað um landvistarleyfi vegna þessara andbandarísku skrifa en ég meina þetta á besta hugsanlega hátt.

Og ég vona að heimavarnarskrifstofunni beri sú gæfa að verða sér út um tölvukunnáttufólk sem fyrst! Amk einhverja sem kunna ágætlega á exel. Fínt ef þeir þekktu líka til internetsins og svolleiðis...


Amk eldri

Annar í afmæli fór ágætlega fram. Akureyrarferð með dekkjaskiptum og tannlækni. Kom líka hleðslutæki á Rögnu systur sem launaði greiðan með leiðsögn um MA. Það tók nefnilega smá göngutúr að finna stærðfræðimærina Valdísi.

Fyrsti í afmæli var alveg ágætur. Byrjaði daginn með rafrænu, heimatilbúnu, afmæliskorti frá Eddu og co. Svo fékk ég skemmtilega mikið af skilaboðum og símhringingum. Meira að segja sendi Magni sms í gegn um netið. Þegar börnin fara að senda manni afmæliskveðjur í símann er nauðsynlegt að átta sig á því að þau eru engin smábörn lengur.Tounge

Svo buðu Ma&Pa okkur í mat. Rauðsprettan rann ljúflega niður sem og grilluðu banarnir.

Bara fínt allt saman. 


Gamall hundur kennir ungum hvolpi...

Þegar Magni Steinn var að munda sig við að byrja á stærðfræðidæmunum í kvöld heyrði ég hann muldra "Hvernig gerði Viktor þetta?". Ég spurði barnið hvað hvað hann væri að tala um og hann sagði mér að Viktor, stórvinur, hefði sýnt honum þessa líka fínu aðferð við að reikna saman stórar tölur. Eitthvað með striki og geyma og svoleiðis.

Aha, hugsaði ég, svo þannig fer þegar börnin eru látin uppgötva stærðfræðina sjálf. Þegar komið er út í 43+56+8 eða 35*15 er orðið seinlegt að telja á fingrum sér (og tám, bringunni eða stöfunum á blýantinum eins og ég hef séð son minn gera). Þá þarf maður stórtækari vinnuvélar við verkið. Mér sýnist að Viktor hafi gert það sniðugasta í stöðunni og virkjað foreldrana til að leysa dæmið og þau kenndu honum að setja dæmin upp á gammel dags máta. Svo reyndi Magni að tileinka sér tækniframfarir vinar síns og kunni kannski ekki við að ónáða upptekna móður sína.

Ég hugsaði mig aðeins um... Börnin eiga jú víst að læra þetta sjálf á einhvern hippalegan og frumlegan máta... Kannski væri ég að skemma stærðfræðiupplifun sonar míns fyrir lífstíð með að skifta mér af og koma með úreltar og lummó útreikni-aðferðir...

Úr varð að ég stóðst ekki freistingunna (enda heyrði ég að drengurinn var farinn út af sporinu í fingratalningunni) og bauðst til að hjálpa. Hjálpinni var tekið fegins hendi og minn maður var ekki smá kátur þegar hann uppgötvaði þægindin við "nýju" aðferðina.

Ég vona bara að þessi afskiptasemi  hafi ekki haft djúpstæð og óafturkræf áhrif. Kannski nær Magni aldrei að botna í heildun eða sínus-fallinu út af mér. Hver veit...?

Ég verð bara að lifa með óvissunni. Við höfðum bæði mjög gaman af heimadæmunum, aldrei þessu vant. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband