Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Moskítóflugur: 12, Ég: 0

Við fórum aðeins í verlsunarferð í gær. Fundum ekki það sem við vorum að leita að en á leiðinni til baka ákváðum við að skoða þetta "Historic Down Town" sem er auglýst út um allt í Conway. Asnalegt að fara án þess að skoða það eina sem gæti verið merkilegt í þessum bæ.

conway_003.jpgVið fundum einhverja göngubrú og smábátahöfn við Waccamaw ánna sem er áin sem liggur með fram bænum. Þar var líka smá grasa (trá) garður. Pínu sætt en agalega stutt í eitthvað sem er ljótt og niðurnýtt.

Á leiðinni heim fór mér að klæja í fæturnar. Þegar heim var komið taldi ég 12 moskítóbit á löppunum á mér! Það er meira hvað flugunum finnst blóðið í mér heillandi! Eitthvað annað en flugurnar í Mývatnssveit.

Kosturinn er þó að svo virðist að ég virðist veita Jorrit og Magna smá vörn því þeir fengu ekki eina stungu. Samt var Magni í stuttbuxum. 


LOKSINS!!!

Jorrit kom frekar kampakátur heim áðan. Kennarinn hans ætlar að senda inn beiðni um að senda hann í próf.

Þetta þýðir að það hyllir loksins undir að við getum farið að hugsa okkur til hreyfings!!


Sitt lítið

Það hafa nú ekki neinir sérstakir hlutir gerst seinustu daga.

Við fórum í búðir og fundum svolítið af fötum. Þegar við vorum að ganga á milli tveggja þeirra hittum við lítinn strák sem var að bíða með pabba sínum. Stráksi horfði upp eftir Jorrit stórum augum og stundi: "This man is HUGE!!". Þetta var svo innilegt hjá honum að ég gat ekki annað en hlegið.

Halakörturnar stækka dag frá degi og eru orðnar ansi pattarlegar. Við Magni sáum tvær þeirra borða núna áðan en fram að þessu hafa þær farið mjög leynt með slíkt. Kálið á vatninu hefur jú horfið smá saman, þær hafa stækkað en ekki fækkað svo þær hljóta að narta í matinn sinn einhvern tíman.

Ég tók mig til og hreynsaði búrið þeirra um daginn. Þær voru ekki allveg að fíla mig þá en þegar allar voru komnar undan steinum og kálblöðum taldi ég 18. Það var talan sem Magni kastaði á þær um daginn.

Magni fékk sér tölvupóstfang í gær. Agalega fullorðinslegt. Frænkurnar sendu honum póst í gær, honum til mikillar ánægju. Núna situr hann sveittur við að svara þeim. Það reynir á en hvað gerir maður ekki fyrir frænkur sínar! 


Amphibians

Eins og hefur komið fram eru nú á heimilinu amk 14 nýjir einstaklingar.

Halakörtur 006Þeir eru núna kannski rúmlega sentimeter á lengd og grænir.

Halakörturnar virðast dafna vel. Misvel því það er núna svolítill stærðarmunur á þeim. Ég veit ekki af hverju. Eftir að hafa lesið mér til á netinu hef ég saxað niður og fryst salat (svona tilbúið í pokum, ef það er hæft til manneldis hlýtur að vera búið að skola af því mesta eitrið) og stráð því svo í dallinn sem þær lifa í. Þannig á salatið að vera nægilega mjúkt og þægilegt fyrir ungviðið.

Ég sé kvikindin aldrei éta, en þær stækka samt helling. Og þeim hefur ekki fækkað áberandi né hafa þær drepist ennþá. Þær hanga bara utan á steinunum á botninum eða á hliðunum á dallinum. Dreg þá ályktun að þær hljóti að laumast í bita þegar ég sé ekki til.

En allavega eru þær voðaleg krútt.

 


Dýrasögur

Fyrir óreynda íslendinga, eins og Magna og mig, er Suður Karólína alveg vaðandi í allskonar kvikindum.

Allskonar skorkvikindi, köngulær og þesslags eru út um allt.

Fuglarnir eru náttúrulega færri en það sem við eigum að venjast, en fleiri tegundir. Núna eru kanadagæsirnar td nánast búnar að taka yfir flugvöllinn. Þær eru örugglega búnar að sjá að völlurinn væri ekki nægilega nýttur undir vélfuglaflugæfingar. Gammar hnita hringa yfir okkur, og skógardúfur hoppa í kringum okkur.  Við heyrum í ránfuglum í skóginum og Blue Jay-fuglar hreiðra um sig í trjánum.

Það er allt vaðandi í villiköttum. Þeir eru nú ekki komnir af villiköttum í langferðartali því þeir eru hvítir, svartir og bröndóttir. Reyndar frekar margir hvítir, kannski var einhverskonar hvítur Greebo á svæðinu. Þeir eru ekki mjög krúttlegir, margir hverjir. Frekar horaðir oft og aumingjalegir. Í skóginum er víst White tail deer. Þvottabirnir og pokarottur finnast hérna víst líka.

Svo eru það skriðdýrin og froskdýrin.

Hérna er víst urmull af þeim. Við Magni sáum grænan grassnák um daginn. Alveg agalega grænan! Við Jorrit sáum um daginn einhvern svartan og rauðan um daginn og í dag sáum við eins og hálfsmetra langan King snake. Og auðvitað var engin myndavél til staðar í öll þessi skipti.

Á leiðinni í flugskólann gengum við Jorrit fram á agnarsmáa svaka græna eðlu. Engin myndavél.

 Fyrir utan græna trjáfroskinn um daginn erum við búin að sjá körtur og þvílíkan helling af halakörtum.

Um daginn fórum við Magni í göngutúr, veiddum upp nokkur froskaegg og núna eru þau að klekjast út. Þær eru agalega sætar svona eins og ponsulitlir fiskar syndandi í plastdallinum sínum. Vonandi verða þær ekki fyrir einhverjum alvarlegum skakkaföllum. Við ætlum reyndar ekki að eiga þær lengi því þegar þær verða stórar höfum við ekki nægilega góðar græjur til að halda þær. En þetta er mjög áhugavert fyrir okkur mörlandana.


Snilldar veður!

Ójá! Það er rigning og bara svona 23 stiga hiti. Svo hressandi!

Jorrit skilur ekkert hvað ég er kát með ástandið.

Ég vildi bara að ég ætti stígvél hérna því þá væri ég sko farin í göngutúr. Hugsa að ég fari bara samt og verði alveg rennblaut. Tilhugsunin með að geta gengið úti um miðjan dag án þess að drepast úr hita eða verða étin af moskító er bara nánast ómótstæðileg!

Við fórum aftur til Charleston í gær. Jorrit og Magnir voru nefnilega búnir að finna svona hersafn, með kafbát, herskipi og flugmóðurskipi, og gátu ekki fundið ró í sínum beinum fyrr en við værum búin að heimsækja staðinn. Svo við brenndum af stað um leið að Jorrit var búinn að fljúga í gær.

Þetta var hið áhugaverðasta safn. Eldgamlir uppgjafarhermenn voru safnverðir og það var tekin af okkur mynd þar sem flugmóðurskipið var í bakgrunni. Og svo mátti ganga um  skipin og ómægod hvað flugmóðurskipið var stórt! Í því voru 4 eða 5 "gönguleiðir" hingað og þangað um skipið. Þar voru líka nokkrar gamlar flugvélar, bæði inní og ofan á skipinu. Þar hitti Jorrit uppáhaldið sitt, F14 Tomcat.

Gömlu mennirnir gáfu Magna veggspjald af tilefni þess að hann var milljónasti gesturinn (amk skildi ég þá þannig).

Ég tók ekkert sérstaklega margar myndir þar sem batteríið kláraðist næstum á Kirkjurnar (sjá neðar).

Ferð til Patriot Point

 

Magni var æstastur yfir kafbátnum og var frekar kátur með hvað hann átti auðvelt með að ferðast um hann. Ekki mikið pláss!

Þegar við vorum búin þarna fórum við niður í bæinn og fundum Body Shop og Pitsustað. 

 Ég náði núna að taka myndir af kirkjunum sem eru við þjóðveginn í gegnum Georgetown. Ég er sérstaklega hrifin af kirkju nr 2 sem er sérstaklega lekkert.

 

Kirkjur í Georgetown

Af baráttu hins hreina kynstofns við ókunnugar hitabeltisskepnur og óblíð náttúruöfl!

Hehe, kannski svolítil damatískt en ég er einu sinni að lesa um "hvíttun" Ástralíu og maður litast stundum af lestrarefninu hverju sinni. Þarf að klára bókina en hún er áhugaverð enn sem komið er.

En það er helst í fréttum hjá okkur að við fórum á föstudaginn til Barefoot landing sem er svona svipaður staður og Broadway on the Beach nema meiri búðir og minni söfn og slíkt. Þar borðuðum við hamborgara og með því á alveg eins hamborgarastað og við fengum okkur sjake á um daginn. Og svo fórum við inn í nammibúð sem selur svona saltwater taffy, í pundavís! Við ákváðum að kaupa eitt pund Það voru til svon 15 til 20 mismunandi bragðtegundir  og alveg risastórir pokar til að setja þær í. Á meðan við vorum í búðinni fór einhver gaur að búa til meira svona taffy. Það var svona taffy tegingarvél á staðnum og alveg rosalega forn pökkunarvél.  Maðurinn tók svona 10 kg massa af karamellu og rúllaði honum upp í risa vöndul sem var síðan settur í vélina. Þegar vélin var búin að pakka inn smá hrúgu af nammi tók maðurinn handfylli og henti til áhorfenda. Ef maður var ekki tilbúinn fékk maður bara nammið í hausinn!Magni og Jorrit í myndatöku

En pundið sem við keyptum er búið þannig að ég mæli alveg með svona taffy Smile

Í gær fórum við í smá göngutúr. Hann átti að vera mun lengri en við féllum á survival og ösnuðumst út um miðjan dag en þá er alltof heitt fyrir svona erfiði. Við ætluðum að ganga meðfram flugvallargirðingunni sem ætti að taka svona klukkustund. Þegar við vorum komin nokkur hundruð metra var Magni orðinn eins og eldhnöttur og kvartaði agalega undan svita og hita. Plastföt eru ekki hentug til gönguferða hér um slóðir (fall 1). Svo komum við að stað þar sem skógurinn er rétt við girðinguna. Voða notalegt að ganga í skugganum ef væri ekki fyrir þessar risa moskítóflugur sem risu upp og réðust á okkur, alveg agalega ánægðar með þessa óvæntu máltíð. Við forðuðum okkur snarlega heim.

Ég dreymdi í alla nótt að það væru flugur að bíta mig og seinni part nætur gat ég varla sofið fyrir kláða á bakinu. Jorrit taldi stungurnar á bakinu á mér. 4 á vinstra herðablaði og 3 á því hægra. Og þetta er fyrir utan stunguna á upphandleggnum sem ég var búin að sjá.

Sem betur fer virðast kvikindin hafa ráðist á þessa stóru fyrst því Magni er stungulaus sem fyrr.

Og já, ég er búin að versla Civ4 Cool

Jorrit segir að hann sé tölvuekkill því að konan og barnið eru bæði upptekin af tölvuleikjum. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband