Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

"And engine two is no longer on fire!"

Það líklega tími kominn fyrir smá fréttabréf.

Hitakútavesenið virðist vera að mestu yfirstaðið en seinasta vika var óvenju fjörleg vegna þess. Reyndar er parkettlaust í eldhúsinu en ég ætla ekkert að stessa mig yfir því hvenær nýtt parkett mætir á svæðið. Eins og staðan er í dag lítur stofuparkettið ótrúlega flott út en það er hætt við að þegar eldhúsgólfið verður orðið nýtt og fínt að aðalglansinn fari af stofunni.

Hinir heimilismeðlimirnir hafa það ágætt en Jorrit kláraði eitthvað samvinnunámskeið í seinustu viku og Magni segist vera að kafna í heimavinnu ("Ég er drowning í heimavinnu" líklegast, smá skipulagsvandamál í tungumálastöðinni vegna norskunnar). Samvinnunámskeiðið snérist víst mest um illa lokaðar flugvélahurðir og óþarflega villtan bruna í heyflum.

Mér fannst að það mætti fara meira í algengar samskiptagildrur á vinnustað. Eins og að áður en klipið sé í afturenda samstarfsaðila sé afa mikilvægt að fara í gegnum gátlista um kynferðislegan áhuga og viðeigandi hegðun í vinnunni. Annars er hætt við að fólk endi í slagsmálum í farþegaríminu eins og gerðist hjá starfsfólki Air India um daginn. Ekki það að minn elskulegi Jorrit þurfi á slíkri þjálfun að halda... Er það nokkuð, elskan?

Reyndar er farið í hver eigi að hlusta á samskiptatækin og þannig, en eins og seinustu fréttir sanna þá er það greinilega snúnara en virðist í fyrstu. Og svo fengu nemarnir þjálfun í að tala við farþegana, aðalega til að tilkynna þeim að allt sé farið hálfa leið til  fjandans. Mér skilst að listin að tala óskýrt um veðrið og landslagið í belg og biðu sé kennd á framhaldsnámskeiði fyrir flugstjóra.

Ég sjálf er algerlega búin að sanna að ég verð aldrei stjörnuhúsmóðir. Engin hekl eða prjónþörf hefur brotist út. Púss og bón aðgerðir eru í lágmarki og kvöldmaturinn er ennþá alveg laus við frönsk orð í titlinum. Ítölsk kannski, ég meina: Pitsa, pasta en ekkert súffley. Reyndar er ég (finnst mér) orðin ágæt í gerbakstri.

Hinsvegar er ég aldeilis búin að lesa netið fram og aftur. Til dæmis veit ég núna að Pressan er málið þegar kemur að slúðri! Búin að finna TED sem er snilld sem og ýmsir aðrir slíkir staðir. Gallinn er bara að latur hugurinn er miklu meira tilbúinn að horfa á þætti á YouTube en að reyna á sig svona. 

Og svo reyni ég við norskuna. Ástarævintýri Arne og Sue er að verða alvarlegt og seinast héldu þau upp á áramótin saman. Reyndar finnst mér hann Konrad Sejer heldur áhugverðari með Söru sína, en ég er núna komin að "Drapet paa Harriet Krohn" í þeirri sögu. Merkilegt hvað frú Fossum er upptekin af hörmulegum mistökum venjulegs fólks.

Jæja, núna er Jorrit kominn heim, þarf að sinna honum. Draga af sokkana og skera matinn hans og svoleiðis, eða þannig LoL


Alltaf gaman af þessu

Jæja, alltaf erum við nú heppin, fjölskyldan!

Fyrir svona 1 eða 2 vikum tók ég eftir að það var einhver bleyta í samskeitunum á sökklinum undir eldhúsvaskinum. Þegar við fórum að skoða kom í ljós að bleytan stafaði frá hitakút íbúðarinnar sem er "haganlega" staðsettur þar í horninu.

Við hringdum auðvitað í eigandann sem stundi smá og sagðist svo sem ekkert vera voða undrandi því að hitakúturinn væri "original". Hitakútar endast víst ekki endalaust frekar en annað.

En alla vega kom núna áðan svona matsmaður frá tryggingafélaginu. Tók fullt af myndum og renndi rakamæli fram og aftur á gólfinu. Hann sagði að líklegast þurfi að taka niður innréttinguna og skipta um parkett í eldhúsinu. Vúhú!! Og mér sem líkaði svo fínt við þetta eldhús!

 Það hjálpar nú ekki að þegar eldhúsið var innréttað var fyrst sett parkett á allt og svo síðan innréttingin ofan á. Líklega var það einhver skipulags snillingur sem datt það í hug að nota hornið inn af pottaskápnum og vaskskápnum til að hýsa hitakútinn. Sniðugt í raun, þangað til að það þarf að drösla kútnum á burt. Því það þarf að rífa eldhúsið til þess.

Annað sem er að frétta er það að seinasta laugardag tókst mér næstum að bæta mannakjöti (eða amk mannblóði) við sem áleggi á hina vikulegu pitsu.

Var að rífa stórt stykki af osti í hengla þegar það rann til í einni niðusveiflunni. Stundum er gott að eiga nýtt rifjárn, stundum ekki. Á meðan ég horfði undrandi á þessa nýju línu á þumlinum á mér ákvað skrokkurinn að eitthvað hræðilegt hafi skeð og nú væri best að finna sem lægstan þyngdarpunkt. Ég rétt náði að grípa með mér tissjú í fallinu. Svo lá ég bara og lét Jorrit um að taka brauðstangirnar úr ofninum og búa um sárið. 

Ég held að ég hafi misst svona hálfa teskeið af blóði, svo agalegt var svöðusárið.

Vandræðalegt...

Annars erum við hress.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband