Vinaleiðin virkar

Ég er með almennilega fullorðins tannpínu!

Þetta reddast aðferðin hefur steytt á skeri hjá fleirum en bankamönnum. Bráðabirgða/ekki alveg bráðabirgða fyllingin sem ég fékk á jaxl í sumar hefur gefið sig. Afleiðingin er þessi fína rótarbólga.

Við ákváðum á fimmtudaginn að finna bara tannlækni í nágrenninu og fá hann til að redda málum fram að næstu heimferð (hvort sem það yrði Ísland eða Holland). Sá sem varð fyrir valinu hafði auglýst fyrir nokkrum dögum allskonar fínt. Það var ekkert mál að fá tíma seinna um daginn og ég mætti vongóð.

Forstofan á tannlæknastofunni var voða fín og ritarinn vingjarnleg svört kona með langar fléttur. Það voru teknar upplýsingar um mig og svo þurti ég að bíða helling. Loksins var mér vísað inn í stól.

Stóllinn var nú frekar vel notaður. Ég sem er vön þvílíkum flottheitum heima fannst mér ég komin aftur til 1980. Það eina sem var svolítið fínt var rönkentækið sem var tölvutengt. Þegar búið var að taka rönkenmyndina beið ég aðeins meira. Hlustaði á þegar klíníkdaman í næsta herbergi lét sjúklinginn þar horfa á kynningarmyndband um tannstein og hvernig eigi að fjarlægja hann. Svo las ég auglýsingarnar sem voru út um allt þarna, m.a. í loftinu.

Svo kom tannlæknirinn, kíkti á rönkenmyndirnar og svo rétt upp í mig. Hann sagði eitthvað um hita og kuldaleiðandi rótarfyllingar og krónur. Ég varð nú að leggja orð í belg út af rótarfyllingunum. Ég er nú með eina og tönnin með hana er, eðlilega, alveg dauð fyrir hitabreytingum. Hann heillaðist held ég ekki af visku minni og fór fljótlega.

Aftur beið ég. Svo kom ritarinn með blað. Þar var útprentuð viðgerðaráætlun. Upp á tæpa 5 þúsund dollara!

Þar var innifalin komugjald á 100 dollara, rönken á 35 dollara og jú, rótarfylling upp á 1000 dollara. En svo voru liðirnir fyrir krónuísetningu, nokkrir upp á þúsund dollara.

Ég sagði við ritarann að það væri ekki inn í myndinni að setja krónu á þessa tönn. Að ef til þess kæmi yrði það gert heima í samráði við tannlækninn minn. Hún fer með þetta í tannlækninn og kemur svo til baka með það að hann telji að það verði að setja krónu og það sem meira er að ég þurfi amk 2 krónur!

Hmm...

Maðurinn skoðaði 2 tennur í rönken og svo varla upp í mig...

Það var greinilegt að ég fengi ekki bót meina minna þarna svo ég fór út frekar foj og heim.

Nú voru góð ráð dýr og vond greinilega dýrari svo Jorrit fór í flugskólann í gær með verkefnið að finna tannlækni hjá starfsfólkinu.

Það tókst.

Karla, sem sér um viðhaldskrárnar, benti okkur á tannlæknirinn sinn sem er með stofu upp í Silverlakes. Það er hverfi heldur nær Neverglades en okkar.

Ég hringdi pronto og fékk tíma kl 9 í morgun.

Eftir ömurlega nótt og allnokkrar parkódín (sem Jorrit á síðan í fyrra) fórum við til nýja tannlæknisins. Þokkalega stressuð yfir að vesenið síðan á fimmtudaginn myndi endurtaka sig.

En guði sé lof! Þessi tannlæknir virtist vera í allt öðrum bransa en hinn. Græjurnar sem ég sá voru kannski ekki alveg geggjaðislega fínar eins og heima en hins vegar passaði biðstofan við það sem tók við fyrir innan. Þessi tannlæknir talaði við mig. Hann virtist hafa einhvern áhuga að lækna sýkinguna og létta sársaukan en ekki bara að létta veskið mitt.

Því miður gat hann ekki gert rótarfyllingu en þurfti að senda mig til einhvers öðruvísi tannlæknis en hann gat skrifað upp á fúkkalyf og últrasterkar verkjatöflur sem ég tók fegins hendi.

Svo þurftum við að punga út 50 dölum sem var eitthvað annað en 135 dalirnir sem ég borgaði fyrir ekki neitt um daginn.

Svo núna er ég á verkjalyfjum og fúkkalyfjum og á leiðinni í ameríska rótrarfyllingu eftir helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú skil ég hvers vegna Dúdda frænka fór alltaf til tannlæknis þegar hún kom í heimsókn meðan hún átti heima í USA. Það hefur enginn efni á að tala við þá og alls ekki láta þá gera eitthvað.

Mamma

mamma (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 13:39

2 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Já, ég á tíma kl 9 á morgun. Er strax farin að hafa áhyggjur af reikningnum.

Elva Guðmundsdóttir, 10.11.2008 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband