Á meðan barnið lærir

Ég er mun betri í tönninni og á tíma hjá djúpkafaratannlækni á morgun. Guði sé lof fyrir fúkkalyf. Svo er bara að sannfæra tannsa að ég muni borga honum fyrir greiðann, þrátt fyrir þjóðernið. Hann geti svo skroppið til Íslands næsta sumar fyrir aurana.

 Magni er að læra heima. Valstafsetningaverkefni. Þar fær hann að velja um 9 mismunandi verkefni til að gera 1 hvern dag. Þau ganga út á að hann hefur lista af orðum (svona 15 stk) og á að vinna með þau. Verst að flest verkefnanna eru alltof erfið fyrir hann. Hann er td ekki alveg tilbúinn í að semja súpersetningu (10 orð eða meiri) um hvert orð. Eða sögu sem notar öll orðin. Svo hann er aðallega í því að raða orðunum í stafsetningaröð eða skrifar hvert þeirra þrisvar.

Núna er það stafsetningaröð. Og öll orðin byrja annað hvort á t eða s! Svo er stafur 2 í s-orðunum næstum bara c. Og þriðji stafur í ÖLLUM orðunum er r. Barnið er byrjað að átta sig á að það var kannski auðveldara að skrifa stutta setningu um hvert orð. Pínu pirraður þangað til að hann fattaði að klippa orðin út. 

Nóvembermánuður er víst mánuður afskipta foreldra af menntun barna sinna (Parental Involement in Education). Við fengum alveg almanak fyrir mánuðinn hvað væri sniðugt að gera hvern dag. Í dag átti að tala um uppáhalds fag barnsins í skólanum. Við ræddum um Egypta og sólkerfið því það finnst Magna skemmtilegast. Ekki út af því að það sé endilega fræðandi og þannig, heldur af því að hann þarf oftast ekki að skrifa neitt! Alltaf duglegur, Magni.

Við höfum verið að horfa á líf með kalt blóð, fundum það á veraldarvefnum, og fræðst mikið. Eitt af því sem ég tók eftir var hvað allir trjáfroskarnir voru spengilegri en gráyrjunnar þrjár okkar. Kannski hafa þeir það aðeins of náðugt. 3 krybbur á dag er kannski full veglegt fæði. Allavega hafa þeir ekki fengið neitt að narta í dag og virðast ekkert kippa sér upp við það. Liggja bara á greininni sinni í sólbaði. En þeir fá nú örugglega eitthvað gott á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband