Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Nýr íbúi á svölunum
9.2.2009 | 20:01
Það hefur fyrirferðamikill einstaklingur byggt sér aðsetur á svölunum hjá okkur.
Þetta er víst Spiny (backed) orb spider (Jorrit fann og myndin er af netinu). Þær virðast ekki vera hættulegar en vefurinn er agalega stór og auðvitað hurðarmegin á svölunum. Gott fyrir hana að við notum svalirnar lítið og erum ekki köngulóa óvinir.
Gamall hundur kennir ungum hvolpi...
14.4.2008 | 21:59
Þegar Magni Steinn var að munda sig við að byrja á stærðfræðidæmunum í kvöld heyrði ég hann muldra "Hvernig gerði Viktor þetta?". Ég spurði barnið hvað hvað hann væri að tala um og hann sagði mér að Viktor, stórvinur, hefði sýnt honum þessa líka fínu aðferð við að reikna saman stórar tölur. Eitthvað með striki og geyma og svoleiðis.
Aha, hugsaði ég, svo þannig fer þegar börnin eru látin uppgötva stærðfræðina sjálf. Þegar komið er út í 43+56+8 eða 35*15 er orðið seinlegt að telja á fingrum sér (og tám, bringunni eða stöfunum á blýantinum eins og ég hef séð son minn gera). Þá þarf maður stórtækari vinnuvélar við verkið. Mér sýnist að Viktor hafi gert það sniðugasta í stöðunni og virkjað foreldrana til að leysa dæmið og þau kenndu honum að setja dæmin upp á gammel dags máta. Svo reyndi Magni að tileinka sér tækniframfarir vinar síns og kunni kannski ekki við að ónáða upptekna móður sína.
Ég hugsaði mig aðeins um... Börnin eiga jú víst að læra þetta sjálf á einhvern hippalegan og frumlegan máta... Kannski væri ég að skemma stærðfræðiupplifun sonar míns fyrir lífstíð með að skifta mér af og koma með úreltar og lummó útreikni-aðferðir...
Úr varð að ég stóðst ekki freistingunna (enda heyrði ég að drengurinn var farinn út af sporinu í fingratalningunni) og bauðst til að hjálpa. Hjálpinni var tekið fegins hendi og minn maður var ekki smá kátur þegar hann uppgötvaði þægindin við "nýju" aðferðina.
Ég vona bara að þessi afskiptasemi hafi ekki haft djúpstæð og óafturkræf áhrif. Kannski nær Magni aldrei að botna í heildun eða sínus-fallinu út af mér. Hver veit...?
Ég verð bara að lifa með óvissunni. Við höfðum bæði mjög gaman af heimadæmunum, aldrei þessu vant.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)