Vorverk(ir)
12.4.2007 | 21:32
Ég dugnaðist til þess í dag að skipta um pott á havaí-rósinni minni. Hún hefur vaxið alveg helling eftir að hún ákvað að koma aftur úr landi hinna dauðu plantna. Hún átti nefnilega svona hálft blað eftir í byrjun febrúar en er núna komin með amk 10! Þegar planta hefur stækkað svona mikið á 2 mánuðum er greinilega kominn tími að vaxa í almennilegum potti, ekki kaffi/te-könnu/bolla/krús. Og það þó að það væri bíflugumyndir utan á. Það er eins gott að rósin veit ekki örlög seinasta íbúanda pottarins sem hún er í, megi það hvíla í friði.
Ég gerðist líka ofurdugleg í gær þegar ég setti dökkbláu gluggatjöldin bak við þessi grænu í herberginu mínu. Ég þurfti að kveikja á lampanum í morgun, svo vel tókst til! Það höfðu nefnilega borist nokkrar munnlegar sem og verklegar kvartanir um birtustigið í herberginu mínu.
Það sem ég þarf að gera núna er að finna upp sjálfvirkan yfirbreiðara á fuglabúrið. Þeir byrja nefnilega núna að tjá sig kl 6:30 og ég gleymi alltaf að setja ábreiðu yfir búrið á kvöldin.
Dugnaðurinn nær samt ekki lengra en áður upptalin verk, þvotturinn er ósamanbrotinn, gólfin ósópuð og ég var rétt að klára ofuruppvask sem hafði safnast saman á eldhúsbekknum eins og fyrir töfra. Aukin birta er ekkert að hjálpa til þarna. Merkilegt hvernig sólin nær að afhjúpa hvert rykkorn og hvern blett. Verð að muna þetta þegar sólarleysið verður mig lifandi að drepa í nóvember!
Athugasemdir
Kannast við þetta allt.... Vera rosa dugleg á morgun, en þegar maður kemur heim úr vinnunni er allur vindur úr blöðrunni. Í mesta lagi sett í þvottavél og kannski vaskað upp ( kallinn eldar ).
Fishandchips, 12.4.2007 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.