Gamall hundur kennir ungum hvolpi...
14.4.2008 | 21:59
Þegar Magni Steinn var að munda sig við að byrja á stærðfræðidæmunum í kvöld heyrði ég hann muldra "Hvernig gerði Viktor þetta?". Ég spurði barnið hvað hvað hann væri að tala um og hann sagði mér að Viktor, stórvinur, hefði sýnt honum þessa líka fínu aðferð við að reikna saman stórar tölur. Eitthvað með striki og geyma og svoleiðis.
Aha, hugsaði ég, svo þannig fer þegar börnin eru látin uppgötva stærðfræðina sjálf. Þegar komið er út í 43+56+8 eða 35*15 er orðið seinlegt að telja á fingrum sér (og tám, bringunni eða stöfunum á blýantinum eins og ég hef séð son minn gera). Þá þarf maður stórtækari vinnuvélar við verkið. Mér sýnist að Viktor hafi gert það sniðugasta í stöðunni og virkjað foreldrana til að leysa dæmið og þau kenndu honum að setja dæmin upp á gammel dags máta. Svo reyndi Magni að tileinka sér tækniframfarir vinar síns og kunni kannski ekki við að ónáða upptekna móður sína.
Ég hugsaði mig aðeins um... Börnin eiga jú víst að læra þetta sjálf á einhvern hippalegan og frumlegan máta... Kannski væri ég að skemma stærðfræðiupplifun sonar míns fyrir lífstíð með að skifta mér af og koma með úreltar og lummó útreikni-aðferðir...
Úr varð að ég stóðst ekki freistingunna (enda heyrði ég að drengurinn var farinn út af sporinu í fingratalningunni) og bauðst til að hjálpa. Hjálpinni var tekið fegins hendi og minn maður var ekki smá kátur þegar hann uppgötvaði þægindin við "nýju" aðferðina.
Ég vona bara að þessi afskiptasemi hafi ekki haft djúpstæð og óafturkræf áhrif. Kannski nær Magni aldrei að botna í heildun eða sínus-fallinu út af mér. Hver veit...?
Ég verð bara að lifa með óvissunni. Við höfðum bæði mjög gaman af heimadæmunum, aldrei þessu vant.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:01 | Facebook
Athugasemdir
Nú hlakkar í stærðfræðikennaranum Ekki læt ég mína nemendur uppgötva of mikið sjálfir, þau skulu sko læra mína aðferð! Muhahahaha!!!
Valdís (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 23:00
Iss, þessi strika aðferð er bráðnauðsynleg. Ég nota hana enn í dag og margir horfa undrunaraugum á mig þegar ég fer að skrifa á borðið eða í loftið með puttunum.
Ragna (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 02:02
Hehe, og það sem skiptir mestu máli: Þið höfðuð gaman af heimalærdómnum, í því fólst að hafa gaman af stærðfræði og ef þið náið að halda því við þá á hann eftir að átta sig á sínus, heildun, diffrun einhverju fleiru (sem ég náði ekki að átta mig á...), ekki útaf því að hann hafi endilega réttan grunn fyrir svoleiðis stærðfræði heldur útaf því að hann hefur áhuga á því!
Annars er þessi aðferð miklu auðveldari í mínum huga en hitt... Mér finnst samt verst að það tekur alltaf Dodda styttri tíma að reikna þetta bara í huganum heldur en mig að nota þessa aðferð eða reiknivél...
Edda Rós (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 07:50
Ég dáist reyndar af því hve slunginn drengurinn er í þessari putta-talningu. En möguleikarnir á mistökum verða oft fleiri ef menn hafa ekki einhverjar hækjur til að styðjast við. Þá er gott að styðjast við reynslu fyrri kynslóða.
Og svo að kunna að stytta sér leið. Td. 28*4 (eitt af dæmunum). Þarna er hægt að nota strika aðferðina s.s. (8*4)+(20*4) eða (25*4)+(3*4).
Elva Guðmundsdóttir, 15.4.2008 kl. 18:22
Ég sé að það hafa margir gott af að fylgjast með heimadæmum drengsins. Þú ert nú að beita tveimur aðferðum og getur e.t.v. beitt fleirum. Margföldun er t.d. bara endurtekin margföldun. Þegar lengra er komið í stærðfræðibókunum þá kemur í ljós aðferðir sem voru í tísku um 1900 og voru ekki verri en þessar sem ykkur finnst vera þær einu réttu. Mér sýnist drengurinn vera enn með áhuga á stærðfræði, enda búinn að vera býsna góður í mörg ár.
mamma (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 22:04
Og sonur minn (svo ég segi sjálf frá) sýnir alveg ótrúlega takta hvað varðar "stærðfræði", amk getur hann alveg sýnt þér að ef að allir eru heima þá eru það þrír puttar en ef pabbi (td) fer í skólann þá eru bara tveir puttar (og í réttu samhengi: þá þarf ekki nema tvo ísa). Einnig ef það eru mamma, pabbi og Hrafnkell þá eru það þrír puttar en ef amma og afi koma líka þá eru það allir 5. En hvað þessar tölur heita er ennþá bara 1-5-6-4... Nema tveir laumast stundum inn þegar það er bara verið að segja tveir en ekkert verið að telja.
Edda Rós (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 16:07
Án þess að það komi mér nokkuð við. Af hverju vísarðu á síðu pabba þíns, Steina Ragnars en ert Guðmundsdóttir?
Afsakaðu framhleypnina.
Þröstur Unnar, 17.4.2008 kl. 19:18
Þröstur Unnar: Af því að Pabbi, þegar ég segi pabbi, er nánast alltaf pabbi Steini. Ég er nefnilega svo ljónheppin að eiga 2 pabba, Steina og Guðmund. Það er ekki það sama að vera geta af sér barn og vera pabbi eða mamma þess. Pabbi og mamma eru heiðurstitlar sem maður vinnur sér inn með tímanum. Ég held að það sé hverju foreldri hollt að hafa það í huga. Annars hafa báðir pabbarnir mínir báðir unnið vel fyrir nafnbótinni, hver á sinn hátt.
Edda: Það er ekkert sem segir að maður geti ekki kallað þessar tölur bara það sem manni dettur í hug. En ég sé að það hefur ótrúlega góð áhrif á stærðfræðihæfileikana ef það er möguleiki á góðgæti. Magni var nú ótrúlega ungur þegar hann lærði að reikna í kexi
En ís væri svo góð hugmynd núna. Hitinn í eldhúsinu er 27 °c en var 34 fyrir klst síðan...
Elva Guðmundsdóttir, 17.4.2008 kl. 20:25
@Edda: Strákurinn er betri í strærðfræði en þú gerir sig grein fyrir: 3-1=2 íspinnar hanða Hrafnkell.;)
Jorrit (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 20:59
Takk fyrir svör.
Bið að heilsa Steina pabba.
Þröstur Unnar, 20.4.2008 kl. 18:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.