Winter Storm

Ég missti mig svo í þjóðfélagspælingar í gær að ég gleymdi alveg að tala um hið daglega líf hérna hjá okkur.

Það var sérdeilis yndislegt veður þegar við vöknuðum í morgun. Sex gráður á celsíus og heiðskýrt. Örlítill vindur en ekkert til að pirra sig yfir. Magni fór í þykka peysu og ég í úlpu. Nágrannar okkar voru venjulega klæddir en nánast frosnir í sporunum. Núna er 10-12 gráður, sól og smá vindur. Alveg fínt í sólinni en ég sá samt fólk standa í skugganum af gömlum vana.

Þetta veðurlag sem okkur finnst bara ágætt og eðlilegt hefur orðið til þess að viðvaranir hafa verð gefnar út á útvarpi og á internetveðursíðum. Örugglega líka í sjónvarpi en við erum ekki með svoleiðs. Núna áðan var hringt í mig frá skólanum vegna veðursins. Skilaboðin voru heillöng. Ég heyrði þau ekki öll því ég leyfði Jorrit að heyra en svei mér þá hvort konan hafi ekki verið að tala um kal og allt!

En miðað við holninguna á krökkunum í morgun skil ég æsinginn.

En alvöru vetrarveður hlýtur að vera skelfileg reynsla fyrir meðal flórídabúann.

Að öðru: Þegar ég var að ganga heim af bókasafninu í gær varð ég fyrir undalegri reynslu. Ég var að ganga í mesta sakleysi eftir gangstéttinni meðfram Pembroke Road. Þá flautar svartur pallbíll þegar hann fer framhjá mér. Ég tók það ekki sérstaklega til mín þar sem það var ágætis umferð og fólk flautar alltaf við og við hér. Þess vegna varð ég frekar undrandi þegar ég sé pallbílinn snúa við og bílstjórann gefa mér eitthvað merki. Einhver misskilningur hlýtur að vera hugsa ég, set í brýrnar og held áfram að ganga. En viti menn, nokkrum mínutum seinna rennir svarti pallbíllinn upp að gangstéttarbrúnni og ökumaðurinn reynir enn að segja eitthvað við mig. Held að hann hafi verið að bjóða mér far. Vil amk trúa að hann hafi verið að bjóða mér far. Eftir að ég hafi beðið hann vel að lifa með bendingum hvarf maðurinn á braut.

Þetta er reyndar í annað sinn sem einhver hefur stoppað svona við hliðina á mér og verið með einhverjar óljósar bendingar. Ég er ekki alveg að skilja. Það er ekki eins og ég hafi verið svo eggjandi klædd í þessum göngutúrum. Í gær var ég td í síðum gallabuxum, síðerma peysu og í þessum líka heillandi Ecco-sandölum.  Í fyrra skiptið var ég nú í pilsi og hlýrabol en sandalarnir hefðu átt að vera dead give away. Svo er líka séns að þessir menn hafi virkilega verið að bjóða mér far. Það er nú reyndar óvenjulegt að sjá hvíta konu á besta aldri gangandi bara sísona á gangstéttum hér á slóðir. En samt.

Svo gætu þeir líka hafa verið villtir og vantað leiðbeiningar... hmmm, karlmenn að spurja til vegar?

Já, og Mamma: Fyrri pakkinn kom í fyrradag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband