Óvæntar uppákomur

Jorrit sagði mér fyrir helgi að Sveinn Jonni hafi komið að máli við hann þann daginn og viljað spjall undir fjögur augu (ekki 6 eins og staðan var þá). Jorrit spurði manninn hvort hann gæti ekki spjallað bara þar og þá en Sveinn Jonni hafi neitað því og lokið samtalinu með þessum kriptísku orðum: "Expect the unexpected".

Við hjónin erum reyndar komin með smá óþol fyrir óvæntum uppákomum því þær vilja, á þessum seinustu og verstu tímum, frekar hallast í eina átt. Ég reyndi að pumpa Jorrit um hvernig líkamstjáning og slíkt hafi verið hjá manninum en það hjálpaði ekki. Vesen með þessa norðulandabúa alltaf hreint, alltaf svo frosnir eitthvað! Geta ekki borið tilfinningar sínar á torg svo að saklausar eiginkonur geti spáð fram í tímann.

En óvissunni var eytt á mánudaginn þegar búralegur Jorrit kom heim. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna vantar flugskólanum í Noregi yfirjarðskólakennara. Og þeim lýst greinilega svo yfirmáta vel á Jorrit, (ég lái þeim svosem ekki en ég er hlutdræg) að þó hann sé ekki einu sinni með viðeigandi próf, þá bauð Sveinn Jonni honum starfið.

Og hverju breytir það?

Jú, núna er planið að troða mínum heittelskaða í gegnum öll próf sem fyrst og þegar það er búið flytja til Noregs. Það myndi gerast, að öllum líkindum, í júní. Það passar fínt. Magni getur klárað skólann, við getum skotið honum til Íslands og svo flutt. Er í raun miklu betra en að vera að flytja í september. 

Og ég verð nú að viðurkenna að ég syrgi það ekki að vera styttra í landi hinna frjálsu en áætlað var.

En að öðru:

Jorrit er ekki mikið að vinna þessa viku. Í gær ákváðum við að fara aðeins og vesenast með bílinn og versla. Þar sem líklega værum við ekki komin heim áður en Magni kæmi úr skólanum, ákváðum við að hafa hurðina opna og skila eftir skilaboð. Þegar við vorum á leiðinni heim, klukkan 4 eða 2 tímum eftir að skólinn var búinn laumast út úr Jorrit að hann sé ekki viss um að hann hafi læst eða ekki. Og jú, þegar við komum heim var allt læst og ekkert barn sjáanlegt. Sem betur fer fannst frekar fúll drengur fljótlega. Þá hafði hann mælt göturnar eins og umkomulaus umrenningur á meðan við vorum að dúlla okkur í Wal-Mart. Það er óhætt að segja að við vorum smá samviskubitin og barnið fékk makkarónugraut og extra lestur um kvöldið.

Samviskubitið skánaði ekki við það að hann kom með einkunnaspjaldið sitt heim í gær. Og það voru aftur bara A og B, og fleiri A en seinast. Og við læstum hann úti!

Vonda, vonda fólk!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skammist ykkar fyrir að læsa frænda minn úti! Þú mátt samt skila hamingjuóskum til hans fyrir einkunnirnar. Flott hjá honum!

Ég hlakka annars voðalega til að sjá ykkur öll í sumar. Og mér líst ágætlega á Noreg, miklu aðgengilegri en Bandaríkin.

Valdís (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 08:31

2 identicon

Það er gott að Magni kom fljótlega í leitirnar því það er ekki gott að týna barni á þessum slóðum. Enda fékk ég fyrir hjartað að lesa að hann hefði verið læstur úti svona lengi. En drengurinn er mjög þolimóður eins og við vitum. Mér líst miklu betur á Noreg, það er miklu fjölskyldu væna umhverfi.Ég vona að allt gangi upp hjá Jorrit svo þið komist sem fyrst. Þetta eru flottar einkannir hjá Magna til hamingju með þær.

Kv Jóa.

Jóa (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 16:04

3 identicon

Til lukku með starfið Jorrit;)  Nu vilja spenntir Noregs buar vita hvar í Noreg þið stefnið á að flytja????

Bestu kveðjur ur kuldanum.   Helga María og Sverrir

Helga María&Sverrir (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 17:36

4 identicon

@Helga María og Sverrir

Ef allt fer áfram og von er á, þá erum við að flýtja til Aalesund (Vigra flugvöll er heimavelli flugskólans).

En þetta er allt enþá með fyrir vara.

Hvar eru þið staðsett aftur?

Jorrit (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 19:31

5 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Hæ Helga og Sverrir! Gaman að heyra af þessum áhuga í Noregi

Sæl Jóa. Já, okkur fannst þetta agalega leiðinlegt atvik og ein enn ástæðan til að sakna Mývó. Þar hefði þetta ekki verið vandamál (og reyndar ekki skeð). Kær kveðja Elva

Elva Guðmundsdóttir, 9.2.2009 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband