Menningareisa í Ft Lauderdale
23.3.2009 | 23:58
Við dugnuðumst í gær og fórum í vísindasafn í Fort Lauderdale.
Þetta var hið skemmtilegasta safn. Á neðri hæðinni var sýning sem tileinkuð var Eilífðarfenjum með krókudílum (sem voru eiginlega bara krúttlegir þarna hinum megin við glerið), snákum, skjaldbökum og öðrum kvikindum. Þar var líka smá sýning með kóngulóm og öðrum þannig kvikindum. Þar fékk Magni að halda á einbúakrabba og hlusta á hissið í asískum kakkalakka.
Á efri hæðinni var fjallað um geimferðir, flugferðir, allskonar eðlisfræðilega hluti og tónlist. Þar var til dæmis nokkrir flughermar. Jorrit lét að því liggja að þeir væru nú frumstæðir en það var rétt eftir að hann hafði brotlent Boing 747 í iðnaðarhverfum Ft Lauderdale. Hann prófaði ekki hina glæsilegu Cessnu 172 sem var í boði. Kannski er mesta ævintýrið farið úr því að fljúga svoleiðis.
Þeir Magni gerðu svo "Hudson" með A-380 á Atlandshafinu. Gekk bara ótrúlega miðað við hve samvinna flugstjóra og flugmanns var erfið. Kannski út af því að það var ekki alveg á hreinu hver var hvar og þeir voru að nota sömu stjórntækin.
Við, fullorðna fólkið, ætluðum að láta safnið duga þegar miðarnir voru keyptir en menntun barnsins kom í bakið á okkur. Hann náði nefnilega að lesa að það færi möguleiki að sjá þrívíddar bíó um sjóinn og lét sig ekki fyrr en það var verslað líka. Gerði sig alveg agalega krúttlegan og skoppaði upp og niður af æsingi. Sýningin var fín. Frekar skrítið að finna sæsnáka vera að skríða nánast í fangið á manni eða að sæljón sé við það að kyssa á nefið á mann. Auðvitað fengum við næstum lungnabólgu við að sitja þarna en það var þess virði.
Eftir sýninguna, og meira skoðirí fórum við út í sólina. Við löbbuðu niður á göngustétt sem lá meðfram einu síkinu þarna og fengum okkur að borða. Þarna moraði allt í gömlu fólki, börnum og hundum. Og það var andlegur tvíburi Johnny King að spila spænskuskotna gítartólist. Þjónustustúlkan okkar var komin á ömmualdurinn og hafði voða gaman að hlusta á Magna panta.
Á leiðinni heim löbbuðum við eftir árgötunni og framhjá elsta húsi bæjarins (það stóð á húsinu). Húsið var byggt árið 1922! Það var allur aldurinn!
Ferð í vísindasafnið í Ft Lauderdale |
Athugasemdir
Hljómar eins og skemmtilegur dagur. Ég tek reyndar með fyrirvara öllum þessum "Magni fékk að skoða kvikindi..." og "Magna langaði svo að sjá..." því ég veit að þú varst örugglega ekkert minna forvitin og spennt! Mér sýnist reyndar að ég hefði alveg haft gaman af þessu safni líka.
Valdís (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.