Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Skattur og fífl
28.3.2007 | 22:47
Ég skilaði skattframtalinu í dag. Ekki flókið mál en samt nóg til að þurfa smá frest (kannski bara af því að hann bauðst).
Ég fór líka niður á Húsavík í dag. Lærði smá um Breiðarfjarðaeyjar og fór á fund. Þar sem smá bið var á milli fræðslu og fundar gafst mér kærkomið tækifæri til að spássera um bæinn með Elke. Og við fundum nokkur fíflablöð sem höfðu náð að vaxa.
Annars var yndislegt veður og algerlega þörf á sólgleraugunum mínum.
Á leiðinni heim fékk ég smá te og kex hjá Jorrit, dáðist af nýju plástrunum hans og skegginu sem hefur tekið öll völd í andlitinu á honum.
Og svo toppuðum við Magni daginn með því að hræra í jarðaberjasjeik enda sýndi mælirinn í eldhúsinu 47,5 stiga hita (sennilega pínu bjartsýnn þar, svartur og beint í sólinni) þegar ég kom heim!
Sælgætisgrís
27.3.2007 | 21:33
Ég er eitthvað ómöguleg í dag. Veit ekki alveg hvað málið er. Kannski er ég að fá kvef eða helgin sitji ennþá í mér?
Sennilega hafa ómögulegheitin eitthvað að gera með hvar ég er í tíðahringnum því að "þessi-tími-mánaðarsins" er senn að renna upp. Allavega hef ég klárað allt súkkulaði í húsinu, (nema 70% súkkulaðið, enda tel ég það ekki til sælgætis, hugsanlega er það skyldast kaffi) og kvöldmaturinn var vægast sagt djúsí.
Vonandi gengur þessi sælgætis og lípíða hneigð yfir sem fyrst því þetta er ekki hollt að borða svona til langframa
Svo væri ég alveg til í að vera heldur hressari á morgun en í dag... tók vítamín í morgun en ég held að þau virki ekki þetta fljótt...amk ekki þessi gerð.
101
26.3.2007 | 20:28
Nú er kona komin aftur í sveitina eftir að hafa kíkt í sollinn fyrir sunnan. Reyndar hlustaði hún aðalega á sollinn því að gistihúsið sem hún fann sér var staðsett á "besta stað" í bænum. Það er algerlega fínt á daginn en mun verra á næturnar.
En fyrir utan það var ferðin alveg ágæt af minni hálfu.
Ja, ok, veðrið var kannski ekki alveg sú rjómablíða sem æskilegust hefði verið en allir sem mig skiptu máli komust leiðar sinnar nokkurn vegin klakklaust.
En fyrir utan fulla fólkið og veðrið var óskup gaman að þvælast hingað og þangað um höfuðborgarsvæðið til að hitta vinnufélagana við þessar og hinar aðstæðurnar. Ég verð að viðurkenna að ferðafélaginn jók töluvert á skemmtanagildi ferðarinnar.
Svo tók vorið á móti okkur á Akureyraflugvelli í gærkvöldi. Sem var afskaplega gott þar sem það virtist hafa verið hálfgerð tilviljun að flugstjórinn hitti á flugvöllinn, svona frá sjónarhóli amatörana mín og Valdísar.
Jorrit var mun svalari, enda með menntunina til að meta aðstæður.
Til að renna frekari stoðum undir þetta með vorið tók ég í dag eftir líflegum andahóp sem stóð fyrir smávægilegum skæruhernaði innbyrðist, á vök á vatninu. Þegar ég var búin að sækja mér kíki gat ég sannfært mig um að þarna væru komnar nokkrar gulendur sem voru að leggja fyrstu drög að fjölgun gulandarkynsins næstkomandi sumar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Helgarbloggið
19.3.2007 | 22:06
Þökk sé veðrinu var helgin laus við eitthvern þvæling og þétta skemmtidagskrá.
Ég plataði Jorrit til að renna upp á hálendið á föstudaginn og svo var bara legið í leti og ómennsku, eða næstum.
Ég náði samt að koma húsinu í þokkalegt stand, húsgögnunum var skákað til, kaka bökuð og óvenjulega mikil almenn eldamennska. Enda virðast Magni og Jorrit hafa það sameiginlegt að verða illa saddir af nammi og finnast það vera eitthvað merkilegt að borða kvöldmat! Fyrir mína parta nægir alveg bland í poka fyrir 150 krónur og súkkulaði í matinn á laugardögum.
Annars var bara notalegt að liggja upp í sófa í gær. Skafrenningurinn og snjókoman byrgði sýn úti og ekkert annað við tímann að gera.
Hinum megin við borðið
16.3.2007 | 18:09
Í vinnu minni í Mývatnsstofu og áður Hvalasafninu horfði ég ósjaldan upp á mökkstressað fólk nánast brotna saman fyrir framan mig út af því að því vantaði gistingu. Það var kannski með 3 börn, í ókunnu landi, kunni ekki málið og var rétt búið að fatta að bókunin þeirra hafði eitthvað misfarist á leiðinni.
Sem sagt tími til að gráta eða, eins og sumt fólk gerir, rífast við allt og alla.
Þetta snerti mig samt aldrei neitt djúpt, þannig. Ég bara hringdi 20 símtöl og greiddi oftast úr vandanum. Ekkert mál.
En núna áðan var ég að svitna við að finna gistingu í Borg Bleytunnar.
Ómægod!
Hvað er annað fólk að flækjast til borgarinnar og teppa fyrir mér gistihúsin?
Bara skil ekki fólk!
Það var ekki fyrr en eftir dúk og disk, pirring og geðvonsku, sem mér tókst loks að tryggja mér og co húsaskjól!
Ég er samt orðin tortryggin og ætla að hringja á mánudaginn, til öryggis. Þó að ég og Jack, símapiltur, hafi verið orðin mestu mátar þá er aldrei að vita...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vorboðar
15.3.2007 | 18:05
Núna er sól byrjuð að hækka almennilega á lofti.
Þetta finnst heima hjá mér með því að ef það er nokkur smuga fyrir sólina að skína inn er 30 stiga hiti inni! Amk ef ég gríp ekki til verulegra ráðstafanna. Það telst td vera verulegar ráðstafanir að opna glugga í stofunni því að þeir eru upp undir þaki og ég þarf að klifra. Afskaplega virðulegt!
Ég bíð spennt eftir sumrinu í þessu húsi.
Svo var að koma tilkynning frá skólanum um það að frá og með mánudeginum væri bara sund hjá börnunum. Ef það er ekki vorboði þá veit ég ekki hvað!!
Þetta þýðir líka að ég verð að neyða sjálfa mig til að fara að skipuleggja vor og sumar. Ekki það að nú finnst mér alveg nóg að plástra þarnæstu helgi saman svo að allir aðilar sleppi heilir frá henni.
En það reddast, eins og allt annað (eða svona því sem næst).
Það er að koma vor!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kæru stubbar...
12.3.2007 | 12:13
Nú er enn ein helgin að baki. Helgi nr 5 eða svo taldist okkur til.
Okkur...
Það er nýtt konsept í lífi mínu... amk í þessu samhengi...
Þarf að venjast en ég hef vanist verri hlutum... mun verri.
En við keyrðum á Eyrina á laugadaginn; við versluðum, við fórum með Dellu til læknis í Tjarnarlundinn, við borðuðum á Greifanum og við fórum í bíó. Á sunnudeginum fórum við í mat í Hrísateignum og sóttum barnið í pössun.
Sem sagt söguleg helgi.
Annars var búðarferðin ágæt, heimsóknin í Tjarnarlundin of löng vegna alltof skemmtilegra partýfara, pitsan lala (gleymdi vonda peppiróníinu á Greifanum) og "Songs and Lyrics" var fín. Ekki of væmin og myndbandið í byrjun er alveg óborganlegt. Hugh Grant er þó orðinn alveg svakalega krumpinn.
Sunnudagsmaturinn var eins og búast mátti við.
Og þó að það hafi verið ljúft að skíða upp í bólið mitt í gærkvöldi og hafa allt þetta pláss bara fyrir mig þá saknaði ég þess að vera ekki lengur í fleirtölu.
Ætli ég verði ekki að viðurkenna að mér er náð...
Föðursystir!
9.3.2007 | 16:47
Já, mér voru að berast miklar fréttir:
Ég er víst orðin föðursystir! (Fyrir 9 dögum en fréttir berast alveg hæfilega hratt í föðurfjölskyldunni minn)
Ég fór inn á síðu litla frænda míns og miðað við myndirnar á forsíðunni er barnið sláandi líkt í föðurættina. Ég sá bara Magna Stein nýfæddann! Sem sagt afskaplega fagurt barn
Ég segi bara:
Það var mikið, Ásgeir!
Og innilega til hamingju, auðvitað!
Ég og tölvur!!
7.3.2007 | 23:12
Fékk net í dag. Mikil gleði!!
Eða þangað til að ég fór að reyna að fá Dellu til að gera eins og ég vil.
Della er með einhverja install-veiki þannig að hún hagar sér vægast sagt furðulega og vill ekki uppfæra vírusvörnina
Ég er reyna að útskýra fyrir henni að það sé ekki hollt fyrir miðaldra tölvur eins og hana að vera í samfélagi annara tölva án þess að vera með veikindavörn en hún er með einhverja uppsteit.
Það er nokkuð ljóst að tölvu-snillingarnir sem ég þekki fá símtal á morgun.
Svo það var ekkert MSN í kvöld né nokkurt annað fjarskiptatengt að neinu viti.
Vonandi varð þetta ekki til þess að opinbera myndin af mér (sem mér finnst svo falleg ) hafi farið eftir möskvum internetsins alla leið til Hollands.