Illu er best af lokið
14.1.2010 | 14:43
Jæja, best er að skammast til að gera fyrstu færslu ársins. Ef kona hjakkast svona áfram þrátt fyrir algera ritstíflu hlýtur hún að finna nennuna á endanum!
Árið byrjar ofur rólega. Ég heng heima að gera nákvæmlega það sama sem ég hef verið að gera fyrir jól. En það er amk alltaf til nóg brauð og íbúðin er þokkalega hrein, sem eru ljósir blettir í tilverunni.
Það hefur verið kalt í veðri og snjór en samt heitt og snjólétt miðað við stærstan hluta norðurhvelsins. Mér skilst að það hafi nánast verið frost í Suður Flórída sem hefur verið óþægilegt sjokk fyrir íbúana.
En í svona veðri sakna ég ennþá meira hitaveitunnar heima. Sérstaklega í Mývó þar sem hitinn var innifalinn í leigunni. Ahh...
Að minnsta kosti mæli ég ekkert sérstaklega með risastórum svaladyrum úr áli við þessar aðstæður.
En veðrið hefur verið fallegt. Bleikt og þannig. Eftir að það snjóaði um daginn komu afskaplega fín grílukerti á húsin svo að sum litu út þannig að konu langaði til að bíta í þau. Svona í tilefni jólanna.
Hér er eitt sætt:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áramót, áramót
31.12.2009 | 19:26
Árið sem er að líða hefur ekki síður verið ár breytingana og það sem á undan fór.
Fyrsta helming ársins bjuggum við í Lendingaríbúðum í Pembroke Pines, Suður Flórída. Framan af var vistin frekar þurr og sólrík. Reyndar var veturinn 2008-2009 hinn þurrasti í Broward sýslu í mannaminnum, en við höfðum náttúrulega enga viðmiðun. Sól á hverjum degi, 20-25 gráðu hiti á daginn var málið. Kaldast varð einn febrúarmorgun þegar "kuldinn" fór niður í 2 gráður. Sem var reyndar frekar kalt fyrir fólk sem á varla húfu.
Á þessum tíma kenndi Jorrit ungum mönnum flug og Magni brilleraði í skóla hverfisins, Palm Cove. Tíð endurgjöf hentaði drengnum greinilega afar vel því að eftir að hafa verið "B" nemandi í fyrsta fjórðungi vetrarins var hann "A" nemandi það sem eftir var vetrar.
Ég var hins vegar heimavinnandi húsfrú og hélt froska og krybbur af miklum móð.
Snögg umskipti urðu svo í maí. Bæði í veðrinu og í lífi fjölskyldunnar. Þá var ákveðið að flytja til siðmenningar heldur fyrr en áður en hafði staðið til. Bókuð var ferð til Hollands 15. júní frá Míami via Fíladelfíu. Eftir mikið stress varð úr að við fórum þann 14. En það var nú bara gaman af því, svona eftirá.
Magni var svo sendur áfram til Íslands eftir að hafa skoðað dýragarða og annað miklvægt í Hollandi. Og lært að segja hin mikilvægu orð: "vanille vlan"
Eftir að Magni var farin höfðum við hjónakornin það gott í Hollandi fram í Júlíbyrjun. Þá flugum við til Álasunds til að hefja næsta fasa lífs okkar.
Eftir smá stress fundum við íbúð við Stígen 1 á Aspareyju sem okkur líður bara ágætlega í.
Magni kom svo til okkur um miðjan ágúst rétt passlega til að hefja skólagöngu við hinn tignarlega Aspeyjarskóla. Hann byrjaði auðvitað í svona innflytjendabekki en svo vill vel til að skólinn er líka hverfisskólinn okkar.
Haustið hefur verið mun rólegra en fyrri partur ársins. Jorrit kláraði öll próf með glans um mánaðarmótin nóv-des og stendur til að færa Magna í almennan bekk eftir áramótin. Ég hef hins vegar ekki fundið mér vinnu og hefur það sett töluvert strik í reikninginn hjá okkur.
Við vonum hins vegar að við réttum úr kútnum fjárhagslega á næsta ári og einnig vona ég að við eigum eftir að sjá meira af ættingjum og vinum á næsta ári.
Gleðilegt nýtt ár og sjáumst á nýju ári
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Afmæli
28.11.2009 | 15:41
Þar sem ég nenni ekki að skrifa eitthvað hátíðlegt, sem á þó vissulega við á þessari stundu, ætla ég að leyfa ykkur að sjá myndir af afmæliskökunni og blástri:
Afmæliskaka 2009 |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
"And engine two is no longer on fire!"
27.10.2009 | 11:46
Það líklega tími kominn fyrir smá fréttabréf.
Hitakútavesenið virðist vera að mestu yfirstaðið en seinasta vika var óvenju fjörleg vegna þess. Reyndar er parkettlaust í eldhúsinu en ég ætla ekkert að stessa mig yfir því hvenær nýtt parkett mætir á svæðið. Eins og staðan er í dag lítur stofuparkettið ótrúlega flott út en það er hætt við að þegar eldhúsgólfið verður orðið nýtt og fínt að aðalglansinn fari af stofunni.
Hinir heimilismeðlimirnir hafa það ágætt en Jorrit kláraði eitthvað samvinnunámskeið í seinustu viku og Magni segist vera að kafna í heimavinnu ("Ég er drowning í heimavinnu" líklegast, smá skipulagsvandamál í tungumálastöðinni vegna norskunnar). Samvinnunámskeiðið snérist víst mest um illa lokaðar flugvélahurðir og óþarflega villtan bruna í heyflum.
Mér fannst að það mætti fara meira í algengar samskiptagildrur á vinnustað. Eins og að áður en klipið sé í afturenda samstarfsaðila sé afa mikilvægt að fara í gegnum gátlista um kynferðislegan áhuga og viðeigandi hegðun í vinnunni. Annars er hætt við að fólk endi í slagsmálum í farþegaríminu eins og gerðist hjá starfsfólki Air India um daginn. Ekki það að minn elskulegi Jorrit þurfi á slíkri þjálfun að halda... Er það nokkuð, elskan?
Reyndar er farið í hver eigi að hlusta á samskiptatækin og þannig, en eins og seinustu fréttir sanna þá er það greinilega snúnara en virðist í fyrstu. Og svo fengu nemarnir þjálfun í að tala við farþegana, aðalega til að tilkynna þeim að allt sé farið hálfa leið til fjandans. Mér skilst að listin að tala óskýrt um veðrið og landslagið í belg og biðu sé kennd á framhaldsnámskeiði fyrir flugstjóra.
Ég sjálf er algerlega búin að sanna að ég verð aldrei stjörnuhúsmóðir. Engin hekl eða prjónþörf hefur brotist út. Púss og bón aðgerðir eru í lágmarki og kvöldmaturinn er ennþá alveg laus við frönsk orð í titlinum. Ítölsk kannski, ég meina: Pitsa, pasta en ekkert súffley. Reyndar er ég (finnst mér) orðin ágæt í gerbakstri.
Hinsvegar er ég aldeilis búin að lesa netið fram og aftur. Til dæmis veit ég núna að Pressan er málið þegar kemur að slúðri! Búin að finna TED sem er snilld sem og ýmsir aðrir slíkir staðir. Gallinn er bara að latur hugurinn er miklu meira tilbúinn að horfa á þætti á YouTube en að reyna á sig svona.
Og svo reyni ég við norskuna. Ástarævintýri Arne og Sue er að verða alvarlegt og seinast héldu þau upp á áramótin saman. Reyndar finnst mér hann Konrad Sejer heldur áhugverðari með Söru sína, en ég er núna komin að "Drapet paa Harriet Krohn" í þeirri sögu. Merkilegt hvað frú Fossum er upptekin af hörmulegum mistökum venjulegs fólks.
Jæja, núna er Jorrit kominn heim, þarf að sinna honum. Draga af sokkana og skera matinn hans og svoleiðis, eða þannig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Alltaf gaman af þessu
15.10.2009 | 12:46
Jæja, alltaf erum við nú heppin, fjölskyldan!
Fyrir svona 1 eða 2 vikum tók ég eftir að það var einhver bleyta í samskeitunum á sökklinum undir eldhúsvaskinum. Þegar við fórum að skoða kom í ljós að bleytan stafaði frá hitakút íbúðarinnar sem er "haganlega" staðsettur þar í horninu.
Við hringdum auðvitað í eigandann sem stundi smá og sagðist svo sem ekkert vera voða undrandi því að hitakúturinn væri "original". Hitakútar endast víst ekki endalaust frekar en annað.
En alla vega kom núna áðan svona matsmaður frá tryggingafélaginu. Tók fullt af myndum og renndi rakamæli fram og aftur á gólfinu. Hann sagði að líklegast þurfi að taka niður innréttinguna og skipta um parkett í eldhúsinu. Vúhú!! Og mér sem líkaði svo fínt við þetta eldhús!
Það hjálpar nú ekki að þegar eldhúsið var innréttað var fyrst sett parkett á allt og svo síðan innréttingin ofan á. Líklega var það einhver skipulags snillingur sem datt það í hug að nota hornið inn af pottaskápnum og vaskskápnum til að hýsa hitakútinn. Sniðugt í raun, þangað til að það þarf að drösla kútnum á burt. Því það þarf að rífa eldhúsið til þess.
Annað sem er að frétta er það að seinasta laugardag tókst mér næstum að bæta mannakjöti (eða amk mannblóði) við sem áleggi á hina vikulegu pitsu.
Var að rífa stórt stykki af osti í hengla þegar það rann til í einni niðusveiflunni. Stundum er gott að eiga nýtt rifjárn, stundum ekki. Á meðan ég horfði undrandi á þessa nýju línu á þumlinum á mér ákvað skrokkurinn að eitthvað hræðilegt hafi skeð og nú væri best að finna sem lægstan þyngdarpunkt. Ég rétt náði að grípa með mér tissjú í fallinu. Svo lá ég bara og lét Jorrit um að taka brauðstangirnar úr ofninum og búa um sárið.
Ég held að ég hafi misst svona hálfa teskeið af blóði, svo agalegt var svöðusárið.
Vandræðalegt...
Annars erum við hress.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Raindrops Falling on My Head...
25.9.2009 | 08:45
Fyrstu vikurnar eftir að við Jorrit komum hingað til Álasunds var fínt að vera hérna. Sól og nokkuð hlýtt, logn og blár var aðal liturinn.
Auðvitað ringdi við og við eins og gengur. Frekar hressilega í flest skiptin en það mátti nú búast við því, hérna í regnbelti Noregs.
Nú er komið haust og við söknum agalega regnskugga Vatnajökuls. Þvílík bleyta! Grár er aðal liturinn seinustu vikur.
Það hefur ekki liðið einn sólarhringur án rigningar síðan einhvertíman í ágúst. Það hafa komið svona 3 dagar í september þar sem sólin hefur skinið að einhverju gagni en þá hefur bara ringt um nóttina til að ná upp rakanum.
Fyrir þá sem hafa búið í Reykjavík er þetta svosem ekkert sérstakt. Ég man eftir því að haustið sem ég flutti suður fyrst ringdi uppstyttulaust í 6 vikur. Ég hélt að ég myndi, ef ég dæji ekki úr sólarskorti fyrst, verða mosavaxin.
En það var bara amatörarigning. Bara svona smá úði miðað við hér. Rigningin hér er alveg á pari við hitabeltisrigninguna í Flórída, svona í magni á tímaeiningu. En þessi rigning er mun undirförullari en Flórídarigningin. Kemur hvar og hvenær sem er og úr ýmsum áttum. Ekki á milli 2 og 4 eftir hádegi eins og hin og beint niður nema í sérstökum tilfellum.
Svo er þoka, auðvitað, og þessi fínu ský sem eru reglulega það þykk að það er nauðsynlegt að kveikja ljós um miðjan dag. Myrkur um miðjan dag er svosem ekkert vandamál en kannski svolítið niðurdrepandi svona í september. En þarna er þó komin skýringin á því af hverju fólk hér er svona bjart yfirlitum.
Við vonumst til að þetta sé bara haustið, en munum kaupa pollagalla til öryggis.
Ég held nú samt að þetta sé frekar viðvarandi ástand því að haustferð skólans hans Magna var farin í slagveðri og roki. Líklega hefði hefði henni verið frestað heima en hér var engin miskunn! Bara vatnsheld föt og stígvél og út í skóg! Líklega gætu nemendur haft það af að útskrifast úr skólanum án þess að fara í eina einustu haustferð ef það mætti ekki fara í rigningu. En drengurinn kom heim eins og hundur dregin af sundi, nokkuð sáttur með daginn.
Það erum bara við, gamla liðið, sem erum að verða vatnssósa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gönguferð
20.9.2009 | 12:37
Við Jorrit gerðumst vond í gær og píndum Magna "PS2" Stein í göngutúr í góða veðrinu. Það var sól og logn og þegar þannig stendur á hér um slóðir er örugglega lögbrot að hanga inni allann daginn.
Við löbbuðum yfir á næstu eyju, Hessa, í smá könnunnarleiðangur. Þungur á brún og brá hengslaðist ungi maðurinn á eftir okkur, teljandi upp allar ástæðurnar fyrir að þessi labbitúr væri slæm hugmynd. Til dæmis hafði hann þungar áhyggjur af skýjabakkanum sem rétt hygldi undir á vesturloftinu. Það væri örugglega að koma ringing og við mundum líklegast forkelast á leiðinni til baka. Við, hin óforbetranlegu, hofðum upp í skafheiðann himinninn og létum kvartanirnar sem vind um eyru þjóta.
Á Hessu er nokkuð þétt byggð eins og alls staðar hér sem hægt er að tylla húsi. En eyjan er mun ójafnari yfirferðar en Aspareyja svo að stór hluti hennar er enn hólar og björg hulin lyngi, mosa og trjám. Verulega laglegt. Hverfið sem er næst okkur er annars vegar nýlegt blokkarhverfi, ljótar og leiðinlega byggingar, og hins vegar eldra smáhýsahverfi sem hvert krútt húsið eftir annað kemur í ljós þegar labbað er um það.
Við löbbuðum í gegnum byggðina og yfir öxl þar sem fótboltavöllur hafði verið byggður hinum megin við.
Miklar þjáningar hjá yngsta ferðafélaganum, og áhyggjur af veðrinu.
Loftið var ferskt og haustlegt og í gegnum kyrrðina bárust hvatningarhróp fótbolta foreldana.
Miðja vegu á milli fótboltavallarins og byggðarinnar kom Jorrit auga á stíg sem lá út frá veginum.
Það var eins og við höfðum skipt um barn, þar og þá. Fúli Magni var horfinn og í staðinn var kominn Magni fjallageit sem skoppaði kátur og hress á undan okkur, æstur í að finna nýjar slóðir.
Við klifruðum upp á hólinn og nutum sólarinnar og útsýnisins. Á leiðinni niður fundum við dularfullan niðurgrafinn og steinsteiptann stíg. Stríðs eitthvað sem hafði verið þarna í nokkurn tíma.
Okkur fannst bara verst að hafa ekki með okkur nesti, því það hefði verið svo upplagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Og það skeður aldrei neitt...
2.9.2009 | 18:25
Eða þannig.
Þennan seinasta mánuð höfum við haft það af að hreinsa reykingalyktina úr íbúðinni.
Svo kom Magni Steinn rétt mátulega til að byrja í Aspeyjarskóla sem vill svo skemmtilega og heppilega til að er kynningaskólinn fyrir úttlensk börn á svæðinu. Magni varð marg sigldur þetta sumarið. Þegar hann steig á norska grund var það 5ta landið sem hann heimsótti í sumar, og geri aðrir betur!
Hann var nokkuð kátur með ferðina enda verið í góðu yfirlæti hjá vinum og ættingjum.
Jorrit byrjaði í skólanum (og er næstum búinn núna) og ég, ehh, skemmti mér við að reyna að finna vinnu.
Í gær skeði einstakur viðburður í sambúð okkar Jorrit: Það var horft á sjónvarp!
Sjónvarpið í íbúinni var bilað þegar við fluttum inn en Frank, leigusalinn, fór með það í viðgerð þegar hann kom í land seinast. Í gær kom myndar maður með það aftur. Þeir eru magnaðir, viðgerðamennirnir hjá Elko, því sjónvarpið hafði stækkað helling og breytt um lit í "viðgerðinni". Eða kannski hugsanlega hafði bara verið verslað nýtt tv þegar hitt hafi reynst ónýtt?
Svo núna erum við með risa flatskjá, einkennistákn hins íslenska fjármálahruns, í stofunni. Ég hef rennt til hans auga við og við í dag með þjóðernislegu samviskubiti.
En voðalega kemur Madagaskar 2 betur út svona en á tölvuskjánum!
Annars óska ég litlu systur til hamingju!
Bloggar | Breytt 3.9.2009 kl. 05:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Thank you for smoking
2.8.2009 | 18:01
Við erum núna önnum kafin við að flytja inn í nýju íbúðina okkar.
Það mætti halda að flutningur inn í nýja íbúð væri nú ekki mikið mál fyrir okkur skötuhjúin, svona þar sem við eigum afskaplega takmarkað af dóti hérna í Noregi. En þessi flutningur tekur heldur lengri tíma en ætlað var.
Íbúðin sem við leigðum er ágæt. Með öllum húsgögnum sem þarf, 2 svefnherbergjum og útsýni. Gallinn við hana er að eigandinn reykir. Og ekkert smá!
Þannig að íbúðin er reyktari en þingeyst hangikjöt.
Sem betur fer fengum við afslátt af leigunni út af því að það vannst ekki tími til að þrífa áður en við fengum lyklana.
Svo helgin hefur farið í að þrífa alla veggi og loft, gluggatjöld og bara allt annað sem okkur datt í hug inni.
Þó að þessir venjulegu skítugu hlutir eins og eldhúsinnréttingin hafi verið í þokkalegu lagi þá voru veggirnir og loftin ansi skrautleg. Sérstaklega þar sem líklegt er að fólk hafi setið og reykt.
Það er ekki oft sem ég hef séð að það komi rönd þegar moppu er brugðið létt á þessa fleti en þannig var ástandið við sófann, yfir stofuborðinu og í eldhúskróknum. Alveg yndislegt!
Núna erum við búin að þrífa en erum að leggjast aðeins meira upp á Svein Jonny því að það er hvorki sjónvarp né net komið í íbúðina ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skjól og bækur
24.7.2009 | 15:39
Dagarnir líða áfram hérna við Heissafjöðinn.
Í gær fórum við að skoða íbúð á Aspareyju. Hún kom alveg ágætlega út. Er með húsgögnum sem er ágætt og einnig, sem er enn betra, með öllum raftækjum í eldhúsinu. Íbúðin er í eigu Skipstjóra nokkurns sem var ansi ánægður með að við værum svona virðulegt gift par. Og svo þegar hann frétti af Magna Steini varð hann ennþá ánægðari. Hann var nefnilega að leita að fólki sem væri síður líklegt að stofna til mannfagnaða og náinna kynna við lögregluna. Gift par með 9 ára gutta er ekki sérstaklega líklegt til slíks.
Hann bauð okkur upp á sterkt og sýndi okkur mynd af sér í matarboði hjá Casto sjálfum. Áhugaverður gaur.
En allavega... við fáum líklega íbúðina í næstu viku en þar sem hann þarf að fara í vinnuna aftur í kvöld á systir hans að sjá um pappírsvinnuna.
Þá er það frá...
Í dag reyndum við að fara í bankann með eyðublaðið fyrir D-númerið mitt en það tókst ekki þar sem Nordea lokar víst kl 3 á föstudögum. Jæja, þá mætir maður bara í bítið á mánudaginn.
Í staðinn fundum við bókasafnið. Þegar við vorum búin að skoða okkur um smá stund kom starfmaður þar að og spurði hvort okkur vantaði eitthvað. Upp úr því ákváðum við að fá okkur bókasafnskort og fá lánaðar smá bækur. Þá kom í ljós að maðurinn skildi íslensku og var að lesa Höfundur Íslands á hinu ilhýra á leiðina í vinnuna. Amtsbókasafnið á Akureyri og bókasafn Álasunds höfðu þá skipst reglulega á bókum í gegnum tíðina og því sé hægt fyrir td mig að fá lánaðar Íslenskar bækur þegar heimþráin kemur yfir mig. Þetta voru góðar fréttir og það var gaman að spjalla við manninn, ég á íslensku og hann svaraði á norsku.
Heimsóknin endaði á því að við tókum sína bókina hvora og hljóðbók sem passaði við. Ég tók Augu Evu eftir Karin Fossum en hana hef ég lesið líklega 2svar og þess vegna ætti að vera auðveldara að lesa hana á frummálinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)