Eins og mamma sín

Okkur Jorrit hefur grunað í nokkurn tíma að Magni væri farinn að líkjast í móðurættina enn meir en áður.

Grunurinn vaknaði þegar við heimsóttum USS Yorktown og lékum okkur að því að lesa af stafaspjaldinu í læknaherberginu þar. Eitthvað komu stafirnir erfiðlega hjá barninu og með miklum andlitsgeflum.

Því miður var lítið hægt að gera í málinu þá vegna blankheita og vesenis en á þriðjudaginn ákvað Jorrit að drífa barnið (og sig) í augnpróf.

Magni var búinn að gefa út ákaflega ákveðna skoðun um gleraugu og augnlækna þannig að við ákváðum að taka hann bara með ferðinni. Augnprófið átti að vera kl 4 og hálf fjögur var hann rekinn í föt (almenn þeas segja, ekki skólabúning) og drifinn út í bíl. Næstum sagt í framhjáhlaupi hvert við værum að fara.

Þetta fór nú allt ágætlega fram. Jorrit fór á undan og Magni gat fylgst með svo ekkert kom á óvart. 

Niðurstaðan kom ekki á óvart: -1,25 á báðum. Magni var ekkert sérstaklega kátur og ég verð nú að viðurkenna að ég fann til með honum. En svona er þetta. Það er einskonar manndómsraun í okkar ætt, fyrsta augnprófið og síðan fyrstu gleraugun.

Brúnin léttist ekki á gaurnum fyrr en við prófuðum bleyk gleraugu með semelíuhjörtum, bara upp á grínið. Eftir það var hægt að skoða gleraugu fyrir alvöru. Fyrir valinu urðu Power Rangers gleraugu.Magni með gleraugun voðalegu.

Í dag fórum við að sækja nýju brillurnar. Þeim var skellt á nefið og svo farið í mollið. Öll fýlan og allur mótþróinn yfir gleraugunum dugði hálfa leiðina yfir bílaplanið (við gleraugnabúðina) því þá var hann orðinn of upptekinn af því að horfa í kringum sig.  Í mollinu valdi barnið sér shake alveg sjálft, en það hafði verið vitavonlaust án gleraugna. Hann fann líka tölfuleikjaverslun á upplýsingaspjaldinu af 3ja metra færi. Og svo horfði hann og horfði.

Svo græddi hann Lego, Batman PSP leik á öllu saman...


Svona eitthvað...

Ég finn ekki hleyðslutækið fyrir símann minn. Það hlýtur að vera einhverstaðar en þangað til að það finnst verð ég að hlaða símann í gegnum tölvuna.

Og, nú fyrst að síminn þurfti að vera tengdur við tölvuna í gær þá var það ágætt tækifæri til þess að hlaða niður þessum myndum sem hafa safnast á hann seinustu mánuði.

Hérna má td sjá hvað það það getur verið þægilegt að leggja vatnsleiðslur þar sem ekki er frost nema á svona 30 ára fresti. Þetta er sem sagt vatnsleiðsla inn í skrifstofuhús.

001_793072.jpg

 Svo er hérna mynd af Muscovy-andar pari. Þessar endur eru út um allt hérna og eru flennistórar. Þær haga sér eins og stokkendur, þeas borða brauð og eru ekki hræddar við menn enda aliendur á sumum stöðum. Ég hef séð nokkrar svoleiðis með unga núna. Þær virðast eiga helling af ungum og eru þeir eins og blanda af húsandarungum og stokkandar.

 003_793076.jpg

 Svo er hérna ein mynd af "bakgötunni" í hverfinu okkar. Ég var að fara heim einn morguninn eftir að hafa fylgt Magna í veg fyrir rútuna.

004.jpg

 Og svo er hérna mynd af jólastjörnu-runna sem er við eina íbúðina. Hann var hálf tuskulegur um jólin en í janúar var hann alveg agalega fallegur. Hann er reyndar ennþá ágætur. Hann er ágætt dæmi um plöntu sem er inniblóm heima og verður aldrei neitt merkilegt þar, en hérna er þetta heljarins runni.

001_793085.jpg

 


Nýr íbúi á svölunum

Það hefur fyrirferðamikill einstaklingur byggt sér aðsetur á svölunum hjá okkur.

crablike%20spiny%20orb%20weaver%20cbsp%2062307 Þetta er víst Spiny (backed) orb spider (Jorrit fann og myndin er af netinu). Þær virðast ekki vera hættulegar en vefurinn er agalega stór og auðvitað hurðarmegin á svölunum. Gott fyrir hana að við notum svalirnar lítið og erum ekki köngulóa óvinir.


Óvæntar uppákomur

Jorrit sagði mér fyrir helgi að Sveinn Jonni hafi komið að máli við hann þann daginn og viljað spjall undir fjögur augu (ekki 6 eins og staðan var þá). Jorrit spurði manninn hvort hann gæti ekki spjallað bara þar og þá en Sveinn Jonni hafi neitað því og lokið samtalinu með þessum kriptísku orðum: "Expect the unexpected".

Við hjónin erum reyndar komin með smá óþol fyrir óvæntum uppákomum því þær vilja, á þessum seinustu og verstu tímum, frekar hallast í eina átt. Ég reyndi að pumpa Jorrit um hvernig líkamstjáning og slíkt hafi verið hjá manninum en það hjálpaði ekki. Vesen með þessa norðulandabúa alltaf hreint, alltaf svo frosnir eitthvað! Geta ekki borið tilfinningar sínar á torg svo að saklausar eiginkonur geti spáð fram í tímann.

En óvissunni var eytt á mánudaginn þegar búralegur Jorrit kom heim. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna vantar flugskólanum í Noregi yfirjarðskólakennara. Og þeim lýst greinilega svo yfirmáta vel á Jorrit, (ég lái þeim svosem ekki en ég er hlutdræg) að þó hann sé ekki einu sinni með viðeigandi próf, þá bauð Sveinn Jonni honum starfið.

Og hverju breytir það?

Jú, núna er planið að troða mínum heittelskaða í gegnum öll próf sem fyrst og þegar það er búið flytja til Noregs. Það myndi gerast, að öllum líkindum, í júní. Það passar fínt. Magni getur klárað skólann, við getum skotið honum til Íslands og svo flutt. Er í raun miklu betra en að vera að flytja í september. 

Og ég verð nú að viðurkenna að ég syrgi það ekki að vera styttra í landi hinna frjálsu en áætlað var.

En að öðru:

Jorrit er ekki mikið að vinna þessa viku. Í gær ákváðum við að fara aðeins og vesenast með bílinn og versla. Þar sem líklega værum við ekki komin heim áður en Magni kæmi úr skólanum, ákváðum við að hafa hurðina opna og skila eftir skilaboð. Þegar við vorum á leiðinni heim, klukkan 4 eða 2 tímum eftir að skólinn var búinn laumast út úr Jorrit að hann sé ekki viss um að hann hafi læst eða ekki. Og jú, þegar við komum heim var allt læst og ekkert barn sjáanlegt. Sem betur fer fannst frekar fúll drengur fljótlega. Þá hafði hann mælt göturnar eins og umkomulaus umrenningur á meðan við vorum að dúlla okkur í Wal-Mart. Það er óhætt að segja að við vorum smá samviskubitin og barnið fékk makkarónugraut og extra lestur um kvöldið.

Samviskubitið skánaði ekki við það að hann kom með einkunnaspjaldið sitt heim í gær. Og það voru aftur bara A og B, og fleiri A en seinast. Og við læstum hann úti!

Vonda, vonda fólk!


Honey, you'r living on a spaceship

Við Jorrit höfum komið okkur þeim vana að horfa á illa fengna sjónvarpsþætti á kvöldin. Það er að segja ef Jorrit er búinn í vinnunni á skikkanlegum tíma.

Við tókum smá CSI rispu og svo NCIS. Síðarnefndi þátturinn er reyndar vikuleg stund núna þegar við höfum náð í skottið á honum. CSI er með of mikið forskot ekki nægan sjarma til að við höfum haft það af að klára þá.

Svo var ég að lesa þetta blogg einn daginn og þar var minnst á si-fi þætti sem mér þóttu nokkuð áhugaverðir; Firefly.

Ég vélaði svo bónda minn á mitt band og við byrjuðum að horfa. Það kom í ljós að þetta eru bara hinir bestu þættir og ég syrgi það alveg gríðarlega að það voru ekki framleiddir fleiri. Enda hafa þeir unnið til allskonar verðlauna og það var gerð mynd og hlutverkaspil (höfundur engin önnur en Margaret Weis) og allt. Einhvers staðar voru þættirnir kallaðir bestu þættir sem hafa verið slaufaðir (cancelled, fann ekki betra orð) af í sögu sjónvarpsins.

Ég hugsa að við munum gera eign okkar á þáttunum löglega áður en langt um líður Wink

Ég mæli innilega með þeim:


Á vængum ástarinnar

Gærdagurinn var alveg ótrúlega venjulegur dagur, þangað til klukkan svona 10 í gærkvöldi.

Það var greinilega partýkvöld því gleðin var töluverð í kringum okkur. Sungið og hlegið. Þegar við gamla og leiðinlega fólkið fórum að sofa, fannst mér ég vera aftur komin á Hjónagarða á laugadagskvöldi.

Við vorum að pæla í hvað ylli ánægjunni og að spá í hvort þetta væri innlend eða norræn ánægja sem hélt fyrir okkur vöku.

Þá hóf sig upp mikill kór ungra karlaradda: "Fly on the Wings of Love. Fly Baby, Fly!"

Jebb, norræn!

En guð! Danska sigurlagið í Eurovision 2000! En karlmannlegt!

Hvað var svona skemmtilegt veit ég samt ekki ennþá.


Winter Storm

Ég missti mig svo í þjóðfélagspælingar í gær að ég gleymdi alveg að tala um hið daglega líf hérna hjá okkur.

Það var sérdeilis yndislegt veður þegar við vöknuðum í morgun. Sex gráður á celsíus og heiðskýrt. Örlítill vindur en ekkert til að pirra sig yfir. Magni fór í þykka peysu og ég í úlpu. Nágrannar okkar voru venjulega klæddir en nánast frosnir í sporunum. Núna er 10-12 gráður, sól og smá vindur. Alveg fínt í sólinni en ég sá samt fólk standa í skugganum af gömlum vana.

Þetta veðurlag sem okkur finnst bara ágætt og eðlilegt hefur orðið til þess að viðvaranir hafa verð gefnar út á útvarpi og á internetveðursíðum. Örugglega líka í sjónvarpi en við erum ekki með svoleiðs. Núna áðan var hringt í mig frá skólanum vegna veðursins. Skilaboðin voru heillöng. Ég heyrði þau ekki öll því ég leyfði Jorrit að heyra en svei mér þá hvort konan hafi ekki verið að tala um kal og allt!

En miðað við holninguna á krökkunum í morgun skil ég æsinginn.

En alvöru vetrarveður hlýtur að vera skelfileg reynsla fyrir meðal flórídabúann.

Að öðru: Þegar ég var að ganga heim af bókasafninu í gær varð ég fyrir undalegri reynslu. Ég var að ganga í mesta sakleysi eftir gangstéttinni meðfram Pembroke Road. Þá flautar svartur pallbíll þegar hann fer framhjá mér. Ég tók það ekki sérstaklega til mín þar sem það var ágætis umferð og fólk flautar alltaf við og við hér. Þess vegna varð ég frekar undrandi þegar ég sé pallbílinn snúa við og bílstjórann gefa mér eitthvað merki. Einhver misskilningur hlýtur að vera hugsa ég, set í brýrnar og held áfram að ganga. En viti menn, nokkrum mínutum seinna rennir svarti pallbíllinn upp að gangstéttarbrúnni og ökumaðurinn reynir enn að segja eitthvað við mig. Held að hann hafi verið að bjóða mér far. Vil amk trúa að hann hafi verið að bjóða mér far. Eftir að ég hafi beðið hann vel að lifa með bendingum hvarf maðurinn á braut.

Þetta er reyndar í annað sinn sem einhver hefur stoppað svona við hliðina á mér og verið með einhverjar óljósar bendingar. Ég er ekki alveg að skilja. Það er ekki eins og ég hafi verið svo eggjandi klædd í þessum göngutúrum. Í gær var ég td í síðum gallabuxum, síðerma peysu og í þessum líka heillandi Ecco-sandölum.  Í fyrra skiptið var ég nú í pilsi og hlýrabol en sandalarnir hefðu átt að vera dead give away. Svo er líka séns að þessir menn hafi virkilega verið að bjóða mér far. Það er nú reyndar óvenjulegt að sjá hvíta konu á besta aldri gangandi bara sísona á gangstéttum hér á slóðir. En samt.

Svo gætu þeir líka hafa verið villtir og vantað leiðbeiningar... hmmm, karlmenn að spurja til vegar?

Já, og Mamma: Fyrri pakkinn kom í fyrradag.


Hugleiðingar á leiðinni heim

Ég fór í könnunarferð á bókasafnið í dag. Þetta bókasafn er í Miramar-borg en eins og Pembroke Pines-borg er hún eiginlega bara hverfi og ekki nokkur leið að sjá nein borgarmörk á milli hennar og td Pembroke. Miramar byrjar nefnilega hinum megin við götuna. Pembroke Road til að vera nákvæmari.

Bókasafnið er í hinni nýju borgarmiðju (City Center) Miramar sem samanstendur af menntasetri (sem bókasafnið er í), skrifstofubyggingu með líkamsrækt, og bílastæðahúsi. Restin af svæðinu er óbyggt enn. Þetta er þó meiri uppbygging en  í miðbæ Pembroke þar sem núna eru bílastæði og klukkuturn, og já, merkið að þarna sé miðbær.

Annars er tún með nautgripum hinum megin við götuna hjá miðbæ Miramar.

En allavega þegar ég labbaði fram hjá leikskóla á leiðinni heyrði ég klapp og mjóróma raddir kyrja "Obama, Obama" og þá mundi ég eftir deginum. Ég fór passlega út til að vera örugglega ekki við tölvuna þegar forsetaskiptin yrðu. Oh, fjárans.

Ansi var það því gaman að ganga inn í bókasafnið og að sjónvarpinu þar inni alveg passlega til að sjá manninn svarinn inn á afskaplega amerískan hátt. Sjónvarpinu hafði verið komið fyrir sérstaklega fyrir í lesaðstöðunni fyrir tilefnið.

Mér sýndist Obama vera pínu trektur þegar hann var að svara prestinum en kannski gat hann bara ekki beðið með að byrja skítmoksturinn. Því það er það sem hann verður að gera næstu árin.

Svo steig maðurinn í pontu. Alveg afskaplega er hann með mikla útgeislun, maðurinn. Þegar hann talar langar manni bara að lygna aftur augum og hlusta. Ræðan var auðvitað góð. Full af "We Americans" og guði eins og búast má við. Það sem ég sá af henni fjallaði um efnahagsvandann. Obama sagði einfaldlega: Seinustu ár höfum við verið löt og værukær og það er að koma í bakið á okkur. Við höfum leyft óprútnum mönnum að leika sér án hafta og við höfum ekki verið að taka þátt í heimsmálunum eins og við ættum að gera. En nú er kominn tími til að standa á fætur, bretta upp ermar og vinna. Laga það sem þarf að laga og vera skynsöm. "Yes we can" andinn sveif þarna yfir vötnum. "Við getum og gerum og gerum það saman".

Ef Íslendingar eru þjóðin sem eru sokkin í kúk upp að nefi þá eru bandaríkamenn með hann upp að öxlum. Þeim veitir ekki af hughreystingu og að heyra að það sé eitthvað verið að gera til að redda málum. Þetta verður ekkert grín hjá Obama en hann er allavega nýr og það gefur fólki hér smá von.

Fréttirnar að heiman eru ekki eins skemmtilegar. Mótmæli og piparúðar aðra hverja viku núna. Ráðherrar sem virðast vera óhagganlegir og ákveða bara sín á milli hvernig hlutirnir eiga að vera. "Ég og Geir ákváðum...". Viðskiptaforkólfar sem segja "Þetta eru ekkert óeðlileg viðskipti" um eignatilfærslur sem í augum venjulegs fólks virðast vera hrein og klár svik og þjófnaður. 

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve samfélagið var geðveikt. Og það gengur illa að vinda ofan af geðveikinni.

Íslendingar hafa í langan tíma haft það svo gott að við höfum ekki séð ástæðu til að vera með vesen. Ástæðan fyrir að sjálfsmorðssprengingar hafa ekki ennþá gerst heima, er einfaldlega sú að enginn nennir að sprengja sig í loft upp ef viðkomandi getur komið viðhorfi sínu á framfæri á auðveldari hátt. Það er svo langt síðan að við höfum haft alvöru ástæðu til óánægju, að sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið sú að við kunnum bara að nöldra. Að kasta grjóti í lögguna hefur verið einstaklingsframtak í drykkjuæði í hugum okkar. Mæta niður á Austurvöll með bílhlass af hrossaskít hefur verið óhugsandi lengi vel. Og afskaplega ókurteist í ofanálag. Ómálefnalegt. Óíslenskt.

 Það er líka óíslenskt að vera á hvínandi kúpunni, sem þjóð altso. Að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og húsnæði. Að upplifa sig sem valdalausan lýð sem fáir útvaldir aðilar ráðskast með að vild. 

Valdaleysið er líklega verst. Og hættulegast. Það er sennilega vegna þessa valdaleysistilfinningar sem umræðan hefur snúist frá almenni kröfu um afsagnir ráðherra og upptöku eigna auðmanna, yfir í breytingu á stjórnaskránni og uppstokkun lýðræðisins (og líka afsagnir og upptökueigna).

Það er líka líklega vegna þess sem mótmælum fjölgar og löggan þarf að panta meiri byrgðir af piparúða.

Í mínum huga er augljóst að það þarf að kjósa sem fyrst. Og það þarf að endurskoða stjórnarskránna því svo virðist vera að lýðræðið á Íslandi þurfi hressingar við. Því lýðræði er ekki eitthvað sem hægt er að geyma upp í hillu.

Fólki verður að finnast það hafa einhverja stjórn á aðstæðunum. Það verður að hafa á tilfinningunni að það sé verið að gera eitthvað fyrir það.  Annars vex bara reiðin. Það hjálpar svo ekki ef fólki fjölgar sem hefur engu eða litlu að tapa.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Hlutir geta alveg farið fjandans til á Íslandi eins og annars staðar. Það er ekkert rótfast í eðli Íslendinga að nöldra bara og gera svo ekkert alveg sama hvað gengur á. Suma hluti er bara ekki hægt að humma fram af sér. Ég vona bara að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því fyrr en seinna.


Tvöföld kuldaskil

Loksins er eitthvað spennandi að gerast í veðrinu! Amk miðað við veðurvefinn.

Bara Severe Wether Alert!

Það eru líkur á að hitinn nálgist frostmark inn til landsins í Flórída í næstu viku!

Úff hvað það verður kalt fyrir fólkið hér. Sem betur fer er trétjaldið sem við búum í með lofthitunarfídus í loftkælingunni. Og gott er að vita af úlpunni sinni uppi á hillu. En mér finnst samt full langt gengið að senda út veðurviðvörun en það er bara ég.

 En við þurfum að taka inn paprikuplönturnar og jólarósmarínið til öryggis.


Tepása

Ég þarf að labba í Publix til að versla á pitsuna í kvöld. En fyrst er smá te...

Við höfum haft það ágætt það sem komið er af nýja árinu. Áramótin voru róleg en við fórum niður á strönd til að sjá einhverja flugelda. Þeir voru nokkrir en auðvitað bara hjóm á við hvað við erum vön.

Þegar kom að því að borga leiguna fundum við týndu þúsundin sem við höfðum saknað svo yfir jólin. En fundurinn breytti fjárhagstöðunni til betra en jólin voru satt að segja mögur.

Svo þegar ég fékk rosafínu postulínskrónuna mína grenjaði ég bara smá yfir reikningum. Hefði alveg þegið málmkrónu en hér um slóðir þykir slíkt ömurlega ljótt og ekki mönnum bjóðandi. En það er skiljanlegt í samfélagi þar sem hægt er að fara í lýtaaðgerðir á tilboði (Það er auglýst massívt núna sérstakt janúartilboð hjá lýtaaðgerðarstofunni Strax sem mér finnst alveg sérstaklega fyndið).

Jorrit hefur þjáðst fyrir hæðina þessa vikuna. Þar sem hann passar svo illa í flugvélaskóhornin er hann nýttur frekar í flugherminn. Og núna hefur hann verið svo ljónheppinn að vera í flugherminum frá 7 til 1... eftir hádegi! Svo kvöldin hafa verið róleg hjá mér og það er læðst á morgnana í þeirri veiku von að maðurinn sofi eitthvað. En þetta er víst búið í bili, sem betur fer!

Jæja, núna er teið búið og ekki fleiri afsakanir fyrir að sitja hér. Best að rífa Magna hressa af stað!

Labbilabb...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband