Mömmudagur

011.jpgÁ morgun er Mother's day í Ameríkunni.

Á föstudaginn fengu börnin tækifæri til þess að skreita klassískar hvítar vanillu samptertur með smjörkremi. Magni lagði sig allan fram og gerði afskaplega fallega köku handa mér.

En þar sem hann er nú líkur móður sinni feilaði hann aðeins á skynseminni. Þegar það kom að því að fara heim stakk hann kökunni niður í tösku og hélt glaðbeittur heim.

Þegar heim var komið var kakan auðvitað, í köku. Það var agalega sár strákur sem sat á gólfinu yfir brotnu kökunni sinni og mömmu hjartað gat ekki annað en að finna lausn á sorginni.

Sem betur fer var það hægt í þessu til felli og eftir að hafa kafað í rústunum eftir skreitingum bjuggum við bara til meira smjörkrem og skreittu hana aftur. Kakan er auðvitað ekki eins en Magni er búinn að gefa það út að hún sé líklega bara flottari núna, og með meira kremi Wink

Og núna eru menn miklu upplýstari um hvað megi og megi ekki fara ofan í tösku.

Nb. Magna sagði að það yrði að standa "Mom" á kökunni því að þetta væri svona bandarískt en mér grunar að ástæðan sé líka að "Mamma" er svo langt...


Those Two Girls in the Morning

Einhverstaðar verður kona að byrja eftir langt blogghlé...

Ég fór áðan í stefnt-á-að-vera-daglega göngutúrinn minn. Þetta er svona um 3ja mílna hringur sem ég geng oftast, því ég er of löt til að ganga almennilegan 4 mílna hring um blokkina mína. Eða kannski of leið því að það er ekki hægt að ganga hérna öðruvísi en meðfram stórum umferðagötum. Svifrykið maður!

Það besta við að fara í svona labbitúra á morgnana er útvarpið. Ég hef það alltaf í eyrunum til að stytta stundir og á morgnana eru þær Julie og Tamara á Strandarstöðinni (The Coast Fm). Þær eru alveg ágætar. Spjalla um daginn og veginn og spila þægilega tónlist. Svo tala þær um veðrið. Það er nú reyndar nánast alltaf eins; "Það verður sól í dag, 10% líkur á rigningu (eða engar) og hitinn á bilinu 74°F til 85°F".

Svo hringja hlustendur inn og segja álit sitt á vandamálum fólk sem þær taka fyrir. Í dag var það hún Jane sem er boðin í brúðkaup/ættarmót í Colarado í Ágúst. Sem er fínt nema að kallinn hennar nennir ekki að fara því hann "þekkir engan". Búin að vera gift í 15 ár og eiga krakka og allt. Flestir voru á því að Jane ætti bara að láta kallinn eiga sig og skemmta sér með ættingjunum. Einn maður benti þó á að almennilegir karlmenn létu óþægindi eins og leiðinlega ættingja ekki stoppa sig í að styðja við bakið á konunni sinni.

Það sem mér datt í hug var: Hvernig stendur á því að maðurinn hafi ekki tengst við neinn í fjölskyldunni eftir 15 ár! Þessi BNA menn! Kunna bara ekki á almennileg fjölskyldutengsl!

Á tíu mínútna fresti fær maður að heyra umferðafréttirnar. Þær eru bæði meira spennandi og mikilvægari en veðurfréttirnar hérna. En mér finnst það samt ennþá truflandi hvað umferðaféttamaðurinn fer auðveldlega úr umferðinni yfir í styrktaraðilana. Gaurinn talar frekar hratt sko, og fer algerlega án viðvörunar frá umferðarslysi á Turnpike* yfir í brjóstastækkanir hjá Strax**. Getur reyndar verið smá fyndið stundum.

Annars er auðvitað ýmislegt búið að gerast seinasta mánuðinn. Vorsumarið er algerlega komið. Fuglar, hiti (meiri hiti altso) og blóm. Magni fékk bara A fyrir 3ja hluta vetrarins og fékk viðeigandi verðlaun (og límmiða fyrir foreldrana til að monta sig með. Svona ef þeir vildu líma eitthvað á stuðarann á bílnum). Jorrit vinnur og vinnur. Og einn froskurinn hvarf úr búrinu. Mjög dularfullt þar sem ekki einu sinni hinar dauðadæmdu krybbur sleppa úr þessu búri. Páskarnir voru ágætir en Nóa-Siríus nr 4 var sárlega saknað.

Flutningaplön ganga hægt en ganga samt. Núna er hugsanlega stefnt á seinnipartinn í júní. En tilkynningar verða gefnar út þegar plön fara að skýrast.

*Tollvegur sem liggur eftir Flórída endilöngu og endar í Miami.

**Lýtalækninga miðstöð sem er frekar dugleg að auglýsa þjónustu sína. Allskonar tilboð og whatnot. Alveg morðfyndið í mínum huga sem tengi "Strax" við langlokur, nammi og kók.


Eitt enn meistaraverkið

Magni fékk loks útborgað, í vörum, í dag.

Hann var snöggur að skella saman einni dverganámu og hér má sjá árangurinn:

 

 


Grill

Núna rignir svona fínt fyrir utan hérna. Von á þrumuveðri á eftir. Slær kannski aðeins á hitann sem er núna í 31 °c.

Seinusta vika hefur verið nánast eins blaut og allur febrúarmánuður svo það er greinilega vor í lofti.

Á sunnudaginn  var okkur boðið í grill hjá nemanda Jorrit, honum Elio.

Elio er kúbanskur flóttamaður sem hafði lært flugvirkjun í Rússlandi og hefur núna undanfarið verið að sanka að sér prófum sem flugmaður. Hann hafði heitið því að bjóða kennurunum sínum í grill þegar hann væri búinn að ná prófunum og það hafðist loksins um daginn.

Elio býr rétt suðvestan við miðju Miami þannig að ferðalagið var þónokkuð eða einar 25 mílur. Hann hafði líka boðið norskum flugkennara og nokkrum öðrum normönnum.  Þar sem við erum svo rík að eiga hana Charlene (Mio) fengu nojararnir að elta okkur í gegnum borgina.

Það var aldeilis gaman að koma inn á svona "alvöru" heimili eins og Elio og konan hans hafa búið sér til. Eitthvað annað en berrassaða íbúðin okkar Jorrits eða flóttamannabúðirnar sem Andes býr í fyrir ofan okkur þar sem allur húsbúnaður samanstendur af borði og 4 stólum. 

Konan hans Elio er frá Kólombíu og bera innréttingarnar töluverðann keim af því. Einnig virðist maðurinn vera svona þúsundþjalasmiður. Eldhúsið hannaði hann og er það alveg æðislegt. Svo er hann búinn að breyta og bæta hitt og þetta í húsinu.

Hjónin eiga 1 son, hinn 4ra ára Daníel. Honum leyst takmarkað á þessa bláeygðu útlendinga en Magni vann þó á á endanum og þeir dunduðu sér alveg helling, þrátt fyrir aldursmuninn.

Maturinn var líka alveg fínn. Grillað naut að Argentínskum hætti, spænskar blóðpylsur og agalega góð svínarif með brauði. Normennirnir kættust töluvert yfir því magni af áfengi sem var til í húsinu en Elio hafði innréttað fullorðinn bar í sólstofunni.

Eitthvað kunnulegt þar.

Magni reiknaði út um daginn að hann væri núna búinn að vinna sér inn fyrir lego dverganámu. Hann er búinn að þjást töluvert seinustu daga vegna þess að við höfum ekki viljað fara í Toys'r'us af ýmsum ástæðum. Það sem hann vissi ekki var að á sunnudaginn laumuðumst við í búðina (hann nennti ekki með) og versluðum pakkann. Komu því bara ekki við að afhenda hann fyrr en núna áðan. Svo núna standa yfir miklar byggingaframkvæmdir. 


Doddson og þögnin

Ég féll í freisni og horfði á "Ræðuna" áðan.

Ég verð að segja að partar af henni hefðu sómað sér vel sem uppistandstexti. Fullt af soralegum skotum og útúrsnúningum sem eru agalega fyndin á grínkvöldi SUS eða eitthvað þannig.

Á tíma fannst mér að Davíð væri að tala yfir matarboði þar sem nánustu samherjar væru mættir á. Ekkert svona opinbert eins og landþing. Og mér fannst hlátrasköllin minna á það líka.

Mér fannst hlátrasköllin næstum verri en ræðan...

Það voru áhugaverð göt í ræðunni hans. Það var ekki minnst einu orði á Framsóknarflokkinn sem mér minnir svo innilega að hafi verið samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins lungan af tímanum sem hann var við völd. Það var bara talað þeim mun meira um Samfylkinguna sem virðist hafa haft töglin og haldirnar, svona bak við tjöldin.

Ekki ræddi maðurinn heldur neitt frekar um framtíðina eða kom með neinar hugmyndir af hvernig Flokkurinn gæti gert eitthvað gagn í uppbyggingu Íslands. En það er kannski skiljanlegt þar sem Flokkurinn hefur ekki haft neina stjórn á atburðum hingað til, þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn og allt, því ætti hann að hafa nokkra stjórn á atburðum framvegis?

Og svo svartholið í miðju ræðunnar; ekki orð um að hann eða aðrir samflokksmenn hans hafi kannski, hugsanlega, mögulega, getað gert nokkuð til þess að svona sé komið fyrir landinu okkar. Nei, vandamálin eru öll að kenna Samfylkingunni, Baugi og nú "Vanvirknisríkisstjórninni" eða hvað sem hann kallaði sitjandi ríkisstjórn.

Það hlýtur að vera erfitt að vera svona máttlaus gagnvart umhverfinu.

En það er ekki þagnirnar í ræðunni sjálfri sem vekja bara athygli mína. Heldur hvað er rætt um úr þessari ræðu, og hvað er ekki rætt um.

Hann talaði illa um; Norska seðlabankastjórann, Jóhönnu, Vilhjálm, ríkisstjórnina, mótmælendur og samfylkinguna. Svo ég nefni nokkra. Allt frekar smekklaust og allir að tala um það. En hann sagði líka nokkuð miður geðslegt um Össur Skarp og Björgvin fyrrverandi viðskiptaráðherra. Lét að því liggja að þeir væru þvílíkar kjaftatífur að ekki væri hægt að hafa þá á mikilvægum fundum. Og enginn segir neitt við því!

Áhugavert...

 Æji, ég hef nú löngum haft ákveðið dálæti á Davíð og fundist hann vera á margan hátt áhugaverður en þarna hvarlaði að mér að kallinn væri ekki með öllum mjalla. Bitur og gamall fyrir aldur fram. Líklega er hann bara ekki búinn að vinna úr áfallinu yfir því að allt hrundi seinasta haust og öllu veseninu í vetur. Það er reyndar alveg skiljanlegt en ef svo er hefði einhver átt að passa upp á að maðurinn kæmist ekki af stað á skítadreifaranum.


Menningareisa í Ft Lauderdale

Við dugnuðumst í gær og fórum í vísindasafn í Fort Lauderdale.

Þetta var hið skemmtilegasta safn. Á neðri hæðinni var sýning sem tileinkuð var Eilífðarfenjum með krókudílum (sem voru eiginlega bara krúttlegir þarna hinum megin við glerið), snákum, skjaldbökum og öðrum kvikindum. Þar var líka smá sýning með kóngulóm og öðrum þannig kvikindum. Þar fékk Magni að halda á einbúakrabba og hlusta á hissið í asískum kakkalakka.

Á efri hæðinni var fjallað um geimferðir, flugferðir, allskonar eðlisfræðilega hluti og tónlist. Þar var til dæmis nokkrir flughermar. Jorrit lét að því liggja að þeir væru nú frumstæðir en það var rétt eftir að hann hafði brotlent Boing 747 í iðnaðarhverfum Ft Lauderdale.  Hann prófaði ekki hina glæsilegu Cessnu 172 sem var í boði. Kannski er mesta ævintýrið farið úr því að fljúga svoleiðis.

008.jpgÞeir Magni gerðu svo "Hudson" með A-380 á Atlandshafinu. Gekk bara ótrúlega miðað við hve samvinna flugstjóra og flugmanns var erfið. Kannski út af því að það var ekki alveg á hreinu hver var hvar og þeir voru að nota sömu stjórntækin.

Við, fullorðna fólkið, ætluðum  að láta safnið duga þegar miðarnir voru keyptir en menntun barnsins kom í bakið á okkur. Hann náði nefnilega að lesa að það færi möguleiki að sjá þrívíddar bíó um sjóinn og lét sig ekki fyrr en það var verslað líka. Gerði sig alveg agalega krúttlegan og skoppaði upp og niður af æsingi. Sýningin var fín. Frekar skrítið að finna sæsnáka vera að skríða nánast í fangið á manni eða að sæljón sé við það að kyssa á nefið á mann. Auðvitað fengum við næstum lungnabólgu við að sitja þarna en það var þess virði.

Eftir sýninguna, og meira skoðirí fórum við út í sólina. Við löbbuðu niður á göngustétt sem lá meðfram einu síkinu þarna og fengum okkur að borða. Þarna moraði allt í gömlu fólki, börnum og hundum. Og það var andlegur tvíburi Johnny King að spila spænskuskotna gítartólist. Þjónustustúlkan okkar var komin á ömmualdurinn og hafði voða gaman að hlusta á Magna panta.

Á leiðinni heim löbbuðum við eftir árgötunni og framhjá elsta húsi bæjarins (það stóð á húsinu). Húsið var byggt árið 1922! Það var allur aldurinn!

Ferð í vísindasafnið í Ft Lauderdale

Naglasúpa

Þetta er búinn að vera laangur dagur.

Ég átti að mæta í skólann í dag og segja krökkunum frá Íslandi. Átti að vera þar klukkan átta þannig að Jorrit hafði hagrætt deginum sínum svo að ég væri komin heim áður en hann þyrfti að fara í vinnuna.

En nei, það gekk nú ekki alveg eftir. Í gærkvöldi hringdi yfirmaður Jorrit og sagði honum að hann ætti að mæta í flug klukkan 6. Hann þarf nefnilega að ná sér í nokka tíma á fjölhreyflavél til að ná kennaraprófi á svoleiðis. Fjölhreyflavélarnar eru meira og minna bilaðar þessa dagann og þess vegna verður að grípa til þessara ráðstafanna.

En allt í lagi, flug klukkan 6. Þá er bara málið að fara snemma að sofa og láta frúnna skutla sér á völlinn svo að hún geti fengið bílinn. Og, já, endurraða dagskánni aðeins svo að lausi tíminn á milli átta og ellefu nýtist eitthvað.

Þannig að við hjónakornin vöknuðum fyrir allar aldir til að koma Jorrit í flug. Eftir hefðbundið morgunstúss fórum við út í bíl rúmlega korter yfir fimm.

Bíllinn komst svona rúma bíllengd út úr stæðinu þegar það uppgötvaðist að eitt dekkið var punkterað.

Jæja, þá er bara að rífa fram tjakk og kross og skipta um dekk. Ja, svona ef krossinn finnst altso, sem gerðist ekki í þessu tilfelli. Nújá, þá er um að gera hringja í einhvern sem á kross, þeas ef klukkan væri eitthvað meira en hálf sex.

Svo bílnum var bakkað voða varlega aftur inn í stæðið og farið í það verk að láta vita að Jorrit væri seinn, jafnvel láta sækja sig.

En þá kom í ljós að Jorrit var ekki með númerið hjá flugkennaranum og það fannst ekki á innri síðu flugskólans, þar sem það á að vera (held ég). Og yfirmaðurinn svaraði ekki og Jorrit var ekki alveg viss um að hann væri með rétt númer. Það var auðvitað enginn mættur í flugskólann.

Rúmlega sex náðist samband við flugskólann. Þar var enginn sem gat sótt, amk ekki strax svo Jorrit lagði gangandi af stað með allt draslið sitt. Annars var flugkennarinn ekki mættur svo að Jorrit var ekki að missa af neinu.

Þegar í skólann var komið kom í ljós að grænu og rauðu gaumljósin virkuðu ekki og þar af leiðandi var flugvélin óflughæf nema að ef maður væri í leyniför.

Eg komst gangandi í skólann svona 2 mínútur yfir átta, rauð, sveitt og másandi. Skrifstofudömurnar vorkenndu mér agalega. Ég sagðist bara að vera sýna þeim sérstaklega íslenska hlið á mér. Kynningin var agalega skemmtileg. Það var gaman að sjá krakkana og líka hvað hinar útlensku mömmurnar voru að sýna.

Þegar Jorrit kom heim hófst seinni hálfleikur í að eiga við bílinn. Hann kom á risa bílnum yfirmanns síns sem kom með risa útgáfu af kross sem passaði ekki við indjánann. Svo fengum við lánaðan kross hjá einum að vinnumönnunum hérna en það fór ekki betur en svo að hann hreinlega rifnaði í átökunum því að rærnar voru frekar fastar á. Málið fór ekki að ganga fyrr en Púerto Rikneskur nágranni okkar skarst í leikinn. Hann talar reynda enga ensku og Jorrit enga spænsku en hann átti almennilegar græjur og vegur örugglega 50 kg meira en Jorrit sem telur þegar maður þarf að standa á krossinum. Svo fóru þeir með dekkið til að blása í það lofti og til að skoða það. Þá kom í ljós nagli sem olli öllu þessu veseni. Nágranninn gerði sér litið fyrir og gerði við dekki bara þarna á staðnum.

Glæsilegt það!

 


Alltaf jafn gaman

Þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mér datt í hug var það af hverju Jorrit væri að rjúka svona fram úr. "Af hverju er bjart?" var það næsta sem mér datt í hug.

Svörin við þessum tveim spurningum var auðvitað það sama. Klukkan var nákvæmlega 07:41 þegar ég kíkti á símann eða einni klukkustund og tíu mínútum seinna en eðlilegur fótaferðatími er hér á bæ. Einhvern vegin hafði slökknað á hringingunni svo við sváfum á okkar græna eyra langt fram á morgun.

Þannig að Magni græddi 1 seint og Jorrit þurfti að fresta fluginu sem hann átti að fara í klukkan átta. Ég snérist í kringum sjálfan mig, svona mest.

Í gær gerðist ég svo fræg, og dugleg, að aðstoða í skólanum hans Magna. Það hefur verið að leggja fyrir FCAT prófin hræðilegu í þessari viku og fimmti bekkur þarf víst að taka fleiri próf í næstu viku. Til þess að fara eftir öllum reglum þurfa að vera aðstoðamenn í stofunum. Þetta aðstoðarfólk eru foreldrar og aðrir aðstandendur. Þar sem ég þurfti að sækja um sjálfboðaliðaleyfi (jamm maður þarf að sækja um svoleiðis) til að mega að segja krökkunum frá Íslandi var ég komin á skrá í skólanum og þess vegna var hringt í mig.

Þetta var ágætt, við fengum kökur.

Magni segir að honum hafi gengið ágætlega í þessum prófum. Ég er alla vega ekki að missa mig úr stressi. Ég veit að hann gerir sitt besta.


Oh, sætt :)

  Þetta kom með póstmanninum í dag. Jeminn hvað hafa orðið miklar framfarir á rúmum 9 árum í bleyjubransanum. Vonandi bíður gormurinn eftir þessu ;)  Verður í flottustu undirfötunum á Akureyri!

001_806459.jpg


Best í Ameríku

Það að allt sé betra í henni Ameríku er nú ekki alveg rétt, amk miðað við reynslu okkar Jorrit. Við erum reyndar vön góðu.

Húsin eru voðalegir kofar, meira að segja húsið sem við búum í núna sem er fellibyljahellt og allt. Að láta kíkja á bremsurna og setja nýja bremsukubba/borða kostar hátt í 100 þús kall. Gangstéttirnar eru mjóar og eru frekar til sýnis heldur en til notkunnar.

Og fyrir þá sem eru pirraðir yfir græðginni hjá Símanum: GSM áskrift kostar hér lágmark 30 dollara á mánuði. "Frelsi" kostar annað hvort 25 sent mínútan eða 10 sent mínútan og 1 dal hvern dag þegar síminn er notaður. Sem væri nægilega pirrandi ef maður væri bara að borga fyrir sín símtöl og sms sem maður sendir. En nei, maður borgar jafnmikið fyrir símtöl og sms sem annar sendir/hringir til manns sjálfs. Og maður borgar fyrir sms hvort sem maður opnar þau eða ekki. Allveg snilld þegar maður fær sms frá at&t (símafyrirtækinu) og þarf að borga 1 dal og 10 sent fyrir.

Eitt af því sem ég hélt að væri verra hérna en heima voru þvottvélarnar. Þvottavélin í Conway þvoði þokkalega en tókst að éta upp þvottastykkin, sem Jorrit keypti þegar hann flutti, á innan við ári. Þvottavélin hér hrærði bara í þvottinum og skilaði honum næstum eins skítugum og hann var fyrir þvott. Nema þegar kom að peysunni sem ég keypti í Wal mart og skólabuxunum hans Magna. Peysan hefur nánast verið þvegin í hengla á 3 mánuðum og buxurnar koma alltaf með þvottaefnisblettum úr vélinni.

Ég var nánast búin að sætta mig við að vélin væri bara vonlaus en ákvað að fara samt og láta allrahandarkallana kíkja á hana.

Fyrir hálft orð kom hann Ian og skoðaði vélina. Það voru einhver plaststykki víst brotin svo að snúníngsgæjan í miðjunni snérist ekki rétt. Tók svona 5 mínútur. Og ég er búin að bölva þessari vél í marga mánuði!

Nú jæja. Ég verð víst að finna mér eitthvað annað til að pirrast yfir. En mér líður smá sauðalega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband