Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Doddson og þögnin

Ég féll í freisni og horfði á "Ræðuna" áðan.

Ég verð að segja að partar af henni hefðu sómað sér vel sem uppistandstexti. Fullt af soralegum skotum og útúrsnúningum sem eru agalega fyndin á grínkvöldi SUS eða eitthvað þannig.

Á tíma fannst mér að Davíð væri að tala yfir matarboði þar sem nánustu samherjar væru mættir á. Ekkert svona opinbert eins og landþing. Og mér fannst hlátrasköllin minna á það líka.

Mér fannst hlátrasköllin næstum verri en ræðan...

Það voru áhugaverð göt í ræðunni hans. Það var ekki minnst einu orði á Framsóknarflokkinn sem mér minnir svo innilega að hafi verið samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins lungan af tímanum sem hann var við völd. Það var bara talað þeim mun meira um Samfylkinguna sem virðist hafa haft töglin og haldirnar, svona bak við tjöldin.

Ekki ræddi maðurinn heldur neitt frekar um framtíðina eða kom með neinar hugmyndir af hvernig Flokkurinn gæti gert eitthvað gagn í uppbyggingu Íslands. En það er kannski skiljanlegt þar sem Flokkurinn hefur ekki haft neina stjórn á atburðum hingað til, þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn og allt, því ætti hann að hafa nokkra stjórn á atburðum framvegis?

Og svo svartholið í miðju ræðunnar; ekki orð um að hann eða aðrir samflokksmenn hans hafi kannski, hugsanlega, mögulega, getað gert nokkuð til þess að svona sé komið fyrir landinu okkar. Nei, vandamálin eru öll að kenna Samfylkingunni, Baugi og nú "Vanvirknisríkisstjórninni" eða hvað sem hann kallaði sitjandi ríkisstjórn.

Það hlýtur að vera erfitt að vera svona máttlaus gagnvart umhverfinu.

En það er ekki þagnirnar í ræðunni sjálfri sem vekja bara athygli mína. Heldur hvað er rætt um úr þessari ræðu, og hvað er ekki rætt um.

Hann talaði illa um; Norska seðlabankastjórann, Jóhönnu, Vilhjálm, ríkisstjórnina, mótmælendur og samfylkinguna. Svo ég nefni nokkra. Allt frekar smekklaust og allir að tala um það. En hann sagði líka nokkuð miður geðslegt um Össur Skarp og Björgvin fyrrverandi viðskiptaráðherra. Lét að því liggja að þeir væru þvílíkar kjaftatífur að ekki væri hægt að hafa þá á mikilvægum fundum. Og enginn segir neitt við því!

Áhugavert...

 Æji, ég hef nú löngum haft ákveðið dálæti á Davíð og fundist hann vera á margan hátt áhugaverður en þarna hvarlaði að mér að kallinn væri ekki með öllum mjalla. Bitur og gamall fyrir aldur fram. Líklega er hann bara ekki búinn að vinna úr áfallinu yfir því að allt hrundi seinasta haust og öllu veseninu í vetur. Það er reyndar alveg skiljanlegt en ef svo er hefði einhver átt að passa upp á að maðurinn kæmist ekki af stað á skítadreifaranum.


Hugleiðingar á leiðinni heim

Ég fór í könnunarferð á bókasafnið í dag. Þetta bókasafn er í Miramar-borg en eins og Pembroke Pines-borg er hún eiginlega bara hverfi og ekki nokkur leið að sjá nein borgarmörk á milli hennar og td Pembroke. Miramar byrjar nefnilega hinum megin við götuna. Pembroke Road til að vera nákvæmari.

Bókasafnið er í hinni nýju borgarmiðju (City Center) Miramar sem samanstendur af menntasetri (sem bókasafnið er í), skrifstofubyggingu með líkamsrækt, og bílastæðahúsi. Restin af svæðinu er óbyggt enn. Þetta er þó meiri uppbygging en  í miðbæ Pembroke þar sem núna eru bílastæði og klukkuturn, og já, merkið að þarna sé miðbær.

Annars er tún með nautgripum hinum megin við götuna hjá miðbæ Miramar.

En allavega þegar ég labbaði fram hjá leikskóla á leiðinni heyrði ég klapp og mjóróma raddir kyrja "Obama, Obama" og þá mundi ég eftir deginum. Ég fór passlega út til að vera örugglega ekki við tölvuna þegar forsetaskiptin yrðu. Oh, fjárans.

Ansi var það því gaman að ganga inn í bókasafnið og að sjónvarpinu þar inni alveg passlega til að sjá manninn svarinn inn á afskaplega amerískan hátt. Sjónvarpinu hafði verið komið fyrir sérstaklega fyrir í lesaðstöðunni fyrir tilefnið.

Mér sýndist Obama vera pínu trektur þegar hann var að svara prestinum en kannski gat hann bara ekki beðið með að byrja skítmoksturinn. Því það er það sem hann verður að gera næstu árin.

Svo steig maðurinn í pontu. Alveg afskaplega er hann með mikla útgeislun, maðurinn. Þegar hann talar langar manni bara að lygna aftur augum og hlusta. Ræðan var auðvitað góð. Full af "We Americans" og guði eins og búast má við. Það sem ég sá af henni fjallaði um efnahagsvandann. Obama sagði einfaldlega: Seinustu ár höfum við verið löt og værukær og það er að koma í bakið á okkur. Við höfum leyft óprútnum mönnum að leika sér án hafta og við höfum ekki verið að taka þátt í heimsmálunum eins og við ættum að gera. En nú er kominn tími til að standa á fætur, bretta upp ermar og vinna. Laga það sem þarf að laga og vera skynsöm. "Yes we can" andinn sveif þarna yfir vötnum. "Við getum og gerum og gerum það saman".

Ef Íslendingar eru þjóðin sem eru sokkin í kúk upp að nefi þá eru bandaríkamenn með hann upp að öxlum. Þeim veitir ekki af hughreystingu og að heyra að það sé eitthvað verið að gera til að redda málum. Þetta verður ekkert grín hjá Obama en hann er allavega nýr og það gefur fólki hér smá von.

Fréttirnar að heiman eru ekki eins skemmtilegar. Mótmæli og piparúðar aðra hverja viku núna. Ráðherrar sem virðast vera óhagganlegir og ákveða bara sín á milli hvernig hlutirnir eiga að vera. "Ég og Geir ákváðum...". Viðskiptaforkólfar sem segja "Þetta eru ekkert óeðlileg viðskipti" um eignatilfærslur sem í augum venjulegs fólks virðast vera hrein og klár svik og þjófnaður. 

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve samfélagið var geðveikt. Og það gengur illa að vinda ofan af geðveikinni.

Íslendingar hafa í langan tíma haft það svo gott að við höfum ekki séð ástæðu til að vera með vesen. Ástæðan fyrir að sjálfsmorðssprengingar hafa ekki ennþá gerst heima, er einfaldlega sú að enginn nennir að sprengja sig í loft upp ef viðkomandi getur komið viðhorfi sínu á framfæri á auðveldari hátt. Það er svo langt síðan að við höfum haft alvöru ástæðu til óánægju, að sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið sú að við kunnum bara að nöldra. Að kasta grjóti í lögguna hefur verið einstaklingsframtak í drykkjuæði í hugum okkar. Mæta niður á Austurvöll með bílhlass af hrossaskít hefur verið óhugsandi lengi vel. Og afskaplega ókurteist í ofanálag. Ómálefnalegt. Óíslenskt.

 Það er líka óíslenskt að vera á hvínandi kúpunni, sem þjóð altso. Að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og húsnæði. Að upplifa sig sem valdalausan lýð sem fáir útvaldir aðilar ráðskast með að vild. 

Valdaleysið er líklega verst. Og hættulegast. Það er sennilega vegna þessa valdaleysistilfinningar sem umræðan hefur snúist frá almenni kröfu um afsagnir ráðherra og upptöku eigna auðmanna, yfir í breytingu á stjórnaskránni og uppstokkun lýðræðisins (og líka afsagnir og upptökueigna).

Það er líka líklega vegna þess sem mótmælum fjölgar og löggan þarf að panta meiri byrgðir af piparúða.

Í mínum huga er augljóst að það þarf að kjósa sem fyrst. Og það þarf að endurskoða stjórnarskránna því svo virðist vera að lýðræðið á Íslandi þurfi hressingar við. Því lýðræði er ekki eitthvað sem hægt er að geyma upp í hillu.

Fólki verður að finnast það hafa einhverja stjórn á aðstæðunum. Það verður að hafa á tilfinningunni að það sé verið að gera eitthvað fyrir það.  Annars vex bara reiðin. Það hjálpar svo ekki ef fólki fjölgar sem hefur engu eða litlu að tapa.

Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Hlutir geta alveg farið fjandans til á Íslandi eins og annars staðar. Það er ekkert rótfast í eðli Íslendinga að nöldra bara og gera svo ekkert alveg sama hvað gengur á. Suma hluti er bara ekki hægt að humma fram af sér. Ég vona bara að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því fyrr en seinna.


Seinast komust fleiri að en vildu...

?Woundering

Þetta sagði hann Matti í Popplandi rétt áðan. Hann var að fjalla um tónleika hjá Hvanndalsbræðrum. Gullkorn, gullkorn sem léttir manni sannarlega lífið þegar lesið er í gegnum fjármálafréttir heima og hér.

Þær fregnir eru sko allt annað en fyndnar! Peningarnir mínir eru að engu orðnir frekar en annara sem eru erlendis á íslenskum sjóðum. Bankinn minn aftur orðinn ríkiseign.Angry

Ég vona að Jorrit nái þessu fj***** prófi svo hann geti farið að þéna pening (fínt væri er hann fengi útborgað í evrum, miðað við ástandið hér). Ótrúlega ófeminíst eitthvað en hvað um það.

Svo er allt að fara á hliðina hér líka. Fína reddingin hans Bush gekk víst eitthvað þversum ofan í þingheim. Hugsanlega skiljanlegt þegar annar flokkurinn stendur fyrir minnkuð ríkisafskipti (svona í teóríunni, praxis er erfiðara: allir þessir vinir þið vitið) og hinn er á móti því að styðja aðeins við fyrirtæki og eignamenn (ég hef meiri samúð með málstað þeirra, verandi öfgavinstrisinni vegna skandinavísks uppeldis. Þess vegna man ég ekki eins vel eftir göllunum en þeir eru örugglega til staðar). Og kostningar rétt handan við hornið.

Heimsendakenndar yfirlýsingar skella á augunum á mér.  Gjaldþrot og gengislækkanir. Það vantar bara flóð (það hefur reyndar ringt svolítið mikið hér seinustu daga. Ég held að það sé samt bara eðlilegt) eldgos og stríð. En við höfum þó hana Palin sem ku trúa á seinustu daga. Hún gæti reddað þessu fyrir okkur ef þegnar þessa lands láta glepjast á kjördag.

Andkapítalískar hugsanir bærast innra með mér. Svona fer þegar peningarnir fá að vinna óáreittir. Pappír hefur seint verið talinn gáfaður eða vitur en það sem stendur á honum hefur fengið fólk til að gera bæði góða og slæma hluti. Áprentanir á peningaseðlum eiga það til að draga það versta fram í sumum.

Ég vona bara að Hvanndalsbræður séu ekki að ræna fólki til að neyða það á tónleika hjá sér. Enda væri það þvílíka leiðinlega fólkið sem myndi ekki vilja á tónleika hjá þeim. Tounge


Ethnic

Í gær skemmti Jorrit sér og okkur við að að skoða Hollenska þjóðarbrotið (the Dutch Ethnic group) á Wikipedia. Honum finnst pínu skrítið að tilheyra þjóðarbroti þar sem hollendingar eru aldir upp við að vera normið og þar af leiðandi ekki etnískir. Pínu áhugavert þar sem Jorrit er nú líka Frísi og er alveg til í að vera etnískur þannig. En Frísar eru náttúrulega frekar undarlegir í augum hinna "eðlilegu" hollendinga; tala skrítið, haga sér furðulega og eru undalega uppteknir af kúm.

Ég, frumbygginn, afkomandi víkinda og þræla og villikonan, hló að honum og sagði að auðvitað væru allir etnískir á sinn hátt. Afskaplega mannfræðilegt svar.

En ég fór að pæla meira um þessi samskipti okkar núna áðan þegar ég var að mála mig fyrir framan spegilinn (margar djúpar pælingar fæðast þannig). Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að finna augnháralit í Walmart. Það fæst allt í Walmart sem leiðir af sér að það er erfitt að finna suma hluti þar. Til dæmis lentum við í merkilega miklum hremmingum við að finna sjampó um daginn. Í þeirri leit fann ég allskonar hárvörur. Sprey og liti og gel og bursta og whatnot. Og svo fann ég etníska-partinn. Það voru örugglega svona 4 gangar af allskonar hárvörum og 1/2 gangur var sérstaklega helgaður "etnísku" hári.

Ef ég hefði ekki vitað neitt um BNA fyrir en fengið að labba um Walmart í svona korter og fengið svo að giska hverjir væru með "etnískt" hár í merkingunni minnihlutahópur hefði ég giskað á að hillurnar innihéldu "more curles" hárfroðu og hárlitunarvörur fyrir slétt ljóst hár. Svona hár sem er hannað fyrir rigningu og langa vetur undir húfu.  En auðvitað ekki. Þrátt fyrir að vel flestir sem eiga heima á svæðinu hafi ekkert að gera með "sleek and shine" sjampó heldur sléttiefni og krulluolíu, eru hárvörur fyrir þannig hár sérstaklega merkt "ethnic", öðruvísi og til hliðar.

Það verður nú að nota hvert tækifæri til að njörva niður hugmyndir fólks um stöðu sjálfs síns og annara.

Ég mæli annars með að kynna sér Hollenska þjóðarbrotið, sérstaklega siði þess og helstu einkenni. Einstaklingar af þessu afbrigði mannskepnunnar ku vera frekar hávaxnir (sennilega aðlögun að fjölmenni?) en með kaldhæðin húmor. Einnig eru þeir þekktir fyrir að koma hreint fram, stundum aðeins of hreint, og eiga erfitt með að skilja aðdróttanir og rósatal. LoL

 


Stig 3

Jæja, núna er eitthvað að gerast! Ég og MSÞ eru komin með einhver númer sem eru víst nauðsynleg til að geta fengið landvistarleyfi í BNA.

Í dag hef ég verið önnum kafin við að pirrast á útlendingaeftirlitsbatteríinu vestur í hreppum. Auðvitað þarf maður að fylla út endalaust af eyðublöðum og veseni, þó líklega bara til að sanna það að manni langi alveg rosa, rosa, rosalega til að búa í landi hinna frjálsu og hugrökku.

Nú hefði ég haldið að ástæður fyrir öllum eyðublöðunum væru að fá upplýsingar um umsækjendur (svona ef þeir ætluðu að drepa forsetann eða eitthvað). En miðað við þessi eyðublöð getur það varla verið satt. Því að á sumum þeirra er lífsins ómögulegt að koma umbeðnum upplýsingum til skila á skiljanlegan hátt, amk fyrir fólk sem er ekki algerlega innvinklað í Íslenska staðhætti.  Til dæmis verða yfirlesendur að vita hvar Suðurlandsbraut 24 er sem og Hafnarstéttin, því það var ekki pláss að skrifa "Reykjavík" og "Húsavík" á eftir þar sem beðið var um heimilisföng. Kannski hefði ég átt að skrifa bara Reykjavík og Húsavík? Svo verða þeir að láta sér lynda eftirnafnið Þorvarðardó.

Ég er líka guðs lifandi fegin að ég hafi ekki brugðið mér í Evrópureisu seinustu 10 ár því þá hefði verið gaman að koma landaheitunum fyrir nema í skammstöfunum. Danmörk x4 og Noregur x1 fer langt með að fylla plássið sem var gefið fyrir þennan lið.

Ef ég hefði verið félagsmálafrík hefði sá liður verið ansi skemmtilegur fyrir kanana. Allar íslensku skammstafirnar! Og ekkert pláss til að útskýra hvað SUNN þýðir eða eitthvað annað skemmtilegt.

Ég verð bara að segja það: Það eru um 300 milljónir manna í þessu landi og þetta var það besta sem þau gátu gert? Eiginlega svolítið sorglegt. Er svona ömulegt að vinna hjá Ríkinu þarna fyrir vestan?

Ég vona bara að mér verði ekki neitað um landvistarleyfi vegna þessara andbandarísku skrifa en ég meina þetta á besta hugsanlega hátt.

Og ég vona að heimavarnarskrifstofunni beri sú gæfa að verða sér út um tölvukunnáttufólk sem fyrst! Amk einhverja sem kunna ágætlega á exel. Fínt ef þeir þekktu líka til internetsins og svolleiðis...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband