Ethnic

Í gær skemmti Jorrit sér og okkur við að að skoða Hollenska þjóðarbrotið (the Dutch Ethnic group) á Wikipedia. Honum finnst pínu skrítið að tilheyra þjóðarbroti þar sem hollendingar eru aldir upp við að vera normið og þar af leiðandi ekki etnískir. Pínu áhugavert þar sem Jorrit er nú líka Frísi og er alveg til í að vera etnískur þannig. En Frísar eru náttúrulega frekar undarlegir í augum hinna "eðlilegu" hollendinga; tala skrítið, haga sér furðulega og eru undalega uppteknir af kúm.

Ég, frumbygginn, afkomandi víkinda og þræla og villikonan, hló að honum og sagði að auðvitað væru allir etnískir á sinn hátt. Afskaplega mannfræðilegt svar.

En ég fór að pæla meira um þessi samskipti okkar núna áðan þegar ég var að mála mig fyrir framan spegilinn (margar djúpar pælingar fæðast þannig). Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri hægt að finna augnháralit í Walmart. Það fæst allt í Walmart sem leiðir af sér að það er erfitt að finna suma hluti þar. Til dæmis lentum við í merkilega miklum hremmingum við að finna sjampó um daginn. Í þeirri leit fann ég allskonar hárvörur. Sprey og liti og gel og bursta og whatnot. Og svo fann ég etníska-partinn. Það voru örugglega svona 4 gangar af allskonar hárvörum og 1/2 gangur var sérstaklega helgaður "etnísku" hári.

Ef ég hefði ekki vitað neitt um BNA fyrir en fengið að labba um Walmart í svona korter og fengið svo að giska hverjir væru með "etnískt" hár í merkingunni minnihlutahópur hefði ég giskað á að hillurnar innihéldu "more curles" hárfroðu og hárlitunarvörur fyrir slétt ljóst hár. Svona hár sem er hannað fyrir rigningu og langa vetur undir húfu.  En auðvitað ekki. Þrátt fyrir að vel flestir sem eiga heima á svæðinu hafi ekkert að gera með "sleek and shine" sjampó heldur sléttiefni og krulluolíu, eru hárvörur fyrir þannig hár sérstaklega merkt "ethnic", öðruvísi og til hliðar.

Það verður nú að nota hvert tækifæri til að njörva niður hugmyndir fólks um stöðu sjálfs síns og annara.

Ég mæli annars með að kynna sér Hollenska þjóðarbrotið, sérstaklega siði þess og helstu einkenni. Einstaklingar af þessu afbrigði mannskepnunnar ku vera frekar hávaxnir (sennilega aðlögun að fjölmenni?) en með kaldhæðin húmor. Einnig eru þeir þekktir fyrir að koma hreint fram, stundum aðeins of hreint, og eiga erfitt með að skilja aðdróttanir og rósatal. LoL

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband