Alveg ofboðslega margt

Það er búið að vera hellingur að ske seinustu daga, mest af því eitthvað sem ætti alveg skilið sína eigin færslu en svona er þetta stundum.

Ég brenndi suður á fimmtudaginn til að sækja Jorrit. Ég hafði leigt kofa í Keflavík og var bara á góðum tíma þangað þegar merkingakerfi Reykjavíkurborgar náði mér. Hvað hjálpar það manni að vita hvert skuli begja eftir að maður hefur beygt? Jú nema til að vita að maður er á kolvitlausri leið... Sem sagt að ég tók löngu leiðina til Keflavíkur og ég var farin að halda að ég væri dæmd til að ráfa stefnulaust um Breiðholtið til eilífðarnóns.

En þetta hafðist að lokum og ég brunað eftir upplýstri og merkjaprýddri Reykjanesbraut og sá enn og einu sinni hve skortur á grunnþekkingu í eðlisfræði er útbreiddur meðal höfuðborgarbúa. Svona um hluti eins og tregðu.

Kofinn var ágætur, svona eins og trétjald eignlega.

Jorrit var sóttur og við útréttuðum í höfuðstaðnum áður en við lögðum í hann. Leiðin lá í Hrútafjörðinn þar sem hvorugt okkar treystum okkur (Jorrit) lengra. Sem betur fer þar sem það var alveg nóg að lúsast yfir eina slabbaða heiði á sumardekkjunum.

Staðarskálinn var bara fínn, betur einangraður og veglegri en kofinn. Hinir djammandi bæjarstjórar voru líka til friðs, sem var léttir.

Á laugardaginn höfðum við okkur til Akureyrar þar sem Tryggvi tók við Jorrit og fór með hann í Heiðardalinn og videre. Valdís klófesti mig.

Mér var afhent einkennilegt höfuðfat og svo var frænkum og systur safnað saman. Stefnan var tekin á Hauganes og þar var skoðuð bjórverksmiða Kalda. Alveg agalega gaman og hápunkturinn var þegar Rúni Júl sjálfur söng, með aðstoð konunnar sinnar, "Þú ein" fyrir mig. Það var alveg æðislegt vægast sagt. Þau hjónakornin voru víst í ferðalagi til Dalvíkur og höfðu beðið um að skoða verksmiðjuna. 

Eftir bjórsmakkið, fræðsluna og sönginn var farið á Eyrina aftur og á Dominós á Pitsuveiðar. Ég fattaði fljótlega að það var einn staður í Kalda sem ég gleymdi að skoða svo að það var pínu erfitt að bíða eftir pitsunni. En það hafðist allt saman og loks komumst við heim til Valdísar. Ég hafði pantað frekar sterka pitsu en þegar kassinn var opnaður kom í ljós jalapeno-fjall. Ómægod, ég svitna enn við tilhugsina.

Sem betur fer hafði systir mín skipulagt ferð í heitan pott svo ég gat jafnað mig á matnum. Líka mjög fínt...

Þegar enn var heim komið mætti ung en sterk stúlka, með tvo stóra pappakassa fulla af fullorðins leikföngum. Þar sem Valdís býr á 4 hæð verð ég að dást af konunni fyrir dugnaðinn. Við fengum að skoða græjurnar og þetta var hið fróðlegasta spjall. Einnig fengum við til eignar sölulista frá einum framleiðandanum og hann reyndist mikil skemmtun. Ef einhver vill upplifa sakleysi sitt þá mæli með að fletta í gegnum einn slíkan. Sakleysið verður reyndar horfið á harðaspretti en þú finnur fyrir því hverfa. Það sem fólki dettur í hug!

Kvöldið endaði á því að Ragna keyrði Pony í Teiginn innanborðs.

Ég bara verð að lýsa ánægju mína með kvöldið. Ég skemmti mér konunglega LoL

Mér varð reyndar hugsað til Danmerkurfarans sem hefði sómt sér í hópnum en við verðum bara að eiga það inni...

Við Jorrit og Magni komum svo heim á Hvítasunnudag með stoppi í Máskoti. Jóa bauð okkur með sér í mat sem við þáðum með þökkum.

Annar í Hvítasunnu var alveg æðislegur. Við fórum í sund og ég brann smá á bringunni. Ég fer bráðum að ná í heilt sett af vægum sólbrunum. Kannski væri ekki vitlaust að pæla í sólarvörn.

Í dag brunuðum við Jorrit niður á Víkina og skiluðum inn vottorðum fyrir föstudaginn. Á leiðinni heilsuðum við upp á hina og þessa og Dimma sannaði að hún er ekki með gullfiskaminni. Hennar heilsa til Jorrit var hunda útgáfan af "Sæll og blessaður, langt síðan ég hef séð þig"!! Agalega sætt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með daginn!

Edda Rós (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 07:45

2 identicon

Innilegar hamingjuóskir kæru hjón!!

Elva Ásgeirs (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 14:49

3 identicon

Innilegar hamingjuóskir frá Hauganesi

Gerða (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 21:09

4 identicon

Elsku Elva mín,

Til hamingju með daginn, óska ykkur alls hins besta.

Hittumst vonandi í sumar

Gunna gamla vinkona (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 21:40

5 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar allar

Álfhildur: Jorrit er byrjaður að hafa áhyggjur. Í tvo daga í röð hef ég verið bæði með varalit og naglalakk. Hann er að velta því fyrir sér hvort ég sé að breytast í Barbí.  Ég sagði honum að ég hefði ekki gengist undir persónuleikaskipti við að giftast honum. 

Elva Guðmundsdóttir, 17.5.2008 kl. 22:42

6 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Og hvað það er gaman að sjá þig, Gunna, skrifa hér inn. Það var sko mynd af þér í Elvu-seríunni sem gekk yfir veislugestum í gær. Vá hvað við vorum miklar pæjur, eða þannig...

Verðum að hittast í sumar... 

Elva Guðmundsdóttir, 17.5.2008 kl. 22:44

7 identicon

Til hamingju Elva mín. Þú verður svo fín frú í Ameríku að þú verður með gervineglur á tám og fingrum. Mikið eruð þið falleg á myndunum hans pabba þíns. Hlakka til að sjá manninn í alvöru einhvern tíman seinna.

Gunna frænka (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband