Siðan seinast...

Núna þegar lífið hjá okkur er að komast í fastari skorður er hugsanlega kominn tími til að sinna blogginu betur.

Ferðin hingað frá Conway tók um 17 klst. Við lögðum af stað kl tvö um daginn og renndum að flugskólanum hér á milli 6 og 7 um morguninn eftir.

Hugmyndin var auðvitað að fara af stað í bítið en þið vitið hvernig það gengur fyrir sig. Bara að hlaða bílinn tók margar klukkustundir. Svo þurfti að kveðja fólk og skila þessu og hinu. Binda dýnurnar á toppinn... Svo kl 2 lögðum við svo loks af stað.

Fyrsti stoppustaðurinn var lítill matsölustaður ekki langt frá Florence. Afleggjari 122 á þjóðveg 95. Place of Paradice Cafe. Við höfðum ekki keyrt svo langt en það gleymdist að borða í óðagotinu við að komast af stað.

Jorrit pantaði sér fullorðna máltíð, grísarif eða eitthvað með meðlæti. Við Magni vorum ekki svo svöng svo við pöntuðum okkur kjúklingasamloku. Þegar maturinn kom á borðið áttum við ekki til orð. Ég hef aldrei fengið kjúklinga"samloku" með beini fyrr. Þetta var grillaður kjúklingur (alveg í mauk) með steiktu sætu brauði og með því.  Þvílíkur matur! Grillið var líka almennilegt, með heilu tré í, ekkert gas neitt!

Svo rúlluðum við út í bíl og af stað.

Þegar bíllinn er hlaðinn upp í rjáfur og þess að auki með tvær dýnur á toppnum er ekki hægt að keyra eins og bavíani. Þess vegna sóttist leiðin frekar hægt. Við stoppuðum við og við til að rétta úr sárum útlimum. Reyndum að sofna einhverstaðar nálægt miðbiki Flórída skaga en það gekk ekki. Ekkert hægt að halla sætum og svoleiðis.

Svo það var frekar þreytt tríó sem rann í hlað við Pelican flugskólann.

 Hún Meg, annar eiganda skólans, sendi okkur á Denni's í morgunmat, og svo tók við íbúðaskoðun, og svo undirskrift leigusamninga, og svo búðarferð fyrir nauðsynjar, og svo að bera inn úr bílnum, og svo henda í ískápinn (sem reyndist bilaður eftir allt saman), og svo borða, og svo búa um, og svo detta í rúmin örmagna.

Næstu dagar fóru næstum eingöngu í  verslunarferðir og útréttingar. Til dæmis fórum við og hreynsuðum út úr IKEA. Ekkert smá notalegt að fara þangað. Eins og Mattias (danskur) sagði: "It is just like coming home!"

Hérna eru nokkrar myndir: 

Flutningar til Flórída

Núna búum við sem sagt að öðrum Lendingar Íbúðum (fengum smá hroll þegar við keyrðum fram hjá skiltinu) en þessar eru aðeins íburðameiri en hinar.

Magni er byrjaður í skólanum, Palm Cove heitir hann. Barnið fer núna með rútubíl. Upplifunin af þessum skóla er nú efni í aðra færslu.

 Halakörturnar fíluðu þessa flutninga alveg í tætlur. Við tókum nokkrar af þeim með okkur og þessar fitnuðu þvílíkt í ferðinni og þegar þær voru færðar í nýtt búr voru þær flestar komnar með smá vísi að afturfótum. Núna er ein alveg orðin froskur og nokkrar í viðbót að fullu að breytast. Halakörtunar/froskarnir eru líka efni í aðra færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að skoða þessar myndir hjá ykkur. Ég er ekki hissa þó að það hafi ekki verið mikið sofið í bílnum á leiðinni. Magni Steinn rétt mátulega stór til að passa í holuna sína í öllum farangrinum.

Steini (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband