Jeminn

Við Magni erum að gera íslenskuverkefni.

Amman er búin að eyða fjármunum í að barnið verði ekki mállaust á þessu útstáelsi móðurinnar og við erum að nota okkur það.

Við (ég) völdum að lesa um Hellisbúa í þetta skiptið. Magni er alveg til í að lesa um hellisbúa og ég er nú mannfræðingur og þar af leiðandi áhugasöm um hellisbúa.

 Magni las textann og svo las ég textann. Byrjaði og endaði allt í lagi en svona var sagt frá þróun mannsinns:

 

Það er samdóma álit flestra fræðimanna að maðurinn sem tegund hafi þróast á milljónum ára til að verða það sem hann er í dag og útfrá því má reikna með að hann sé enn að þróast og væri fróðlegt að vita hvernig mannskepnan komi til með að líta út eftir einhver þúsund ár. Telja margir að maðurinn hafi fyrst þróast frá öpum, en fyrir um það bil tveimur og hálfum milljónum ára kom hinn svokallaði hæfimaður, Homo habilis, fram á sjónarsviðið. Hafði hann yfir að ráða hæfileikum sem ekki höfðu þekkst fyrr, en hann virðist hafa lifað mestmegnis á veiðum dýra, sem hann sótti í vatn og á landi. Með hæfimanninum kemur fyrst fram hæfileikinn til að smíða verkfæri og nota þau til að búa til önnur. Þeir byrjuðu að höggva steina til og nota þau í vopn, sem gerði þá mun hæfari til að lifa af og stunda veiðar. Reismaðurinn, Homo erectus, birtist svo fyrir u.þ.b. 1.8 milljónum ára, og með honum virðist verkkunnáttu fleygja fram og verkfæri þau sem hann framleiðir taka meira mið af útliti, ekki bara notagildinu. Með bættum vopnum gátu reismennirnir veitt stærri dýr, sem aftur auðveldaði þeim að safna upp matarforða.

Í kringum árið 400.000 þúsund fyrir Krist virðist hann hafa áttað sig á eldinum og þá fer hann meira að huga að bústað sínum. Í staðinn fyrir náttúruleg afdrep fer hann að búa um sig í dýpri hellum og vandaðri byrgjum.1

Það er svo u.þ.b. 40.000 árum fyrir Krist að ný undirtegund manna, Neanderdalsmaðurinn, kemur fram. Með Neanderdalsmanninum virðast enn koma fram nýjar eiginleikar. Greftrunarsiðir þeirra sýna t.a.m. að þeir líta á dauðann með táknrænum augum.

Skömmu síðar eða um 35.000 f.Kr. kemur svo fram á sjónarsviðið önnur tegund, Homo sapiens, en auk þess sem sköpulag þeirra er í mörgu frábrugðið Neanderdalsmanninum, virðast þeir vera farnir að gera sér grein fyrir stöðu sinni í heiminum, og þeim yfirburðum sem greind þeirra gefur þeim.

Það er svo talið að nútímamaðurinn, Homo sapiens sapiens, hafi fyrst komið fram í Ástralíu í kringum 40.000 f.Kr. og síðan virðist hann vera kominn til Ameríku og Síberíu um 25.000 f.Kr. Upp úr því fer þróunin að verða örari og þróaðri menningarsamfélög í ætt við þau sem við þekkjum fara að líta dagsins ljós.

 

Ég skáletraði það sem mér fannst vera kynlegt. Það sem er líka feitletrað er það sem mér fannst vera alveg út úr kú. Þetta með Ástralíuna vona ég bara að sé klaufalega orðuð setning en ekki staðhæfing um að nútíma maðurinn eigi sér uppruna í eyjaálfu!

Bara alveg agalegt!

Við Magni nýttum það úr verkefninu sem við gátum. Svo fórum við og kynntum okkur þróunarsögu mannsins með hauskúpumyndum og alles!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú átt eftir að rekast á meira svona skrítið. Það hefur oft verið hugsað meira um magn en gæði á skólavefnum.

mamma (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 13:04

2 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Ég skrifaði frekar harðort bréf til þeirra. Þau hafa ekki fundið verkefnið ennþá en ég er alveg til í að endurskrifa ef þau vilja.

Elva Guðmundsdóttir, 10.10.2008 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband