Fleiri vondar fréttir
8.12.2008 | 16:13
Við vorum að renna inn á bílastæðið þegar símtalið kom.
Jorrit var ekki búinn að tala lengi þegar ljóst var að eitthvað mjög, mjög slæmt hafði skeð.
Á laugadagseftirmiðdag lögðu tvær flugvélar af stað í átt að æfingasvæðinu yfir The Everglades. Önnur frá Ft. Lauderdale, hin frá North Perry, Pembroke Pines. Eitthvað alvarlegt fór úrskeiðis eftir það því hvorug þeirra snéri heim á ný.
Þegar orðið var ljóst að flugvélarnar mundu ekki skila sér var myrkur skollið á. Leit hófst hins vegar í birtingu í gær og um áttaleitið fundust þær. Svo virðist vera að þær hafi skollið saman í loftinu og stungist síðan hver um sig í fenið. En í raun veit enginn núna hvað gerðist. Kannski kemur það í ljós seinna.
Þegar horft er á myndir og vídeó af flökunum er nokkuð ljóst að flugkennararnir og nemendurnir (2 af hvoru) hafa látist samstundist eða því sem næst. Þeir hafa ekki fundist enn en svæðið er afskaplega erfitt til leitar.
Flugvélin frá North Perry var ein af flugvélum Pelican. Í henni var einn af yfirflugkennurunum, hann Stuart, og nemandi hans. Þeir voru báðir frá Jamaica. Þeir voru einnig báðir með flugmannsréttindi og Stuart var reyndur flugkennari. Mér er hugsað til ættingja þeirra sem og ættingja mannanna tveggja sem voru í hinni vélinni.
Núna er Jorrit í flugskólanum. Gerandi hvað veit ég ekki því hann náði ekki neinu sambandi við skólann í gær né Svein Jonni, norska yfirflugkennarann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.