Áramótafærsla

Froskur ársinsÞetta seinasta ár hefur verið ár breytinga, vægast sagt, fyrir mig og mína.

Ég og Jorrit byrjuðum árið á Skólavörðuholti með hinum ferðamönnunum. Það var hífandi rok og stundum rigning en landinn sprengdi samt eins og það væri enginn morgundagur. Það var kannski ekki svo fjarri lagi, í einhverju samhengi.

Jorrit fór svo aftur til Suður Karólínu til að berjast við kerfið, eða flugskólann réttara sagt.

Við Magni fórum aftur í Mývatnssveitina fögru.

Í janúar var ákvörðun tekin og ég sagði upp landvarða og sérfræðings djobbinu í enda mánaðarins. Lét ég af störfum þann 15. maí. Það var að mörgu leiti mikill léttir en að öðru mikil eftirsjá. En kosturinn var þó að við keflinu tók góð landverja.

Daginn eftir giftum við Jorrit okkur hjá sýsluritara og nokkrir græddu mat af því tilefni.

Eftir áhugavert hindrunarhlaup í gegnum skrifræði nokkra Íslenskra og Bandarískra stofnanna hafðist það að fá landvistarleyfi fyrir okkur Magna Stein.

Í enda júní lögðum við í hann. Eftir um 15 tíma ferðalag stigum við fæti á flugbrautina í Myrtle Beach, SC. Loftið var næstum nógu rakt til að leyfa fiskum að synda í því, hitinn um 30 gráður og klukkan var um 11 að kvöldi. Svolítið annað en heima.

Næstu vikurnar bjuggum við í Lendingabúðum í útjarði Conway, SC. Þrumuveður, furur og moskító eru einkennisorð staðarins í mínum huga. Ég gat allavega ekki farið af bæ án þess að vera étin upp til agna og útsýni er ekki til þarna því fururnar eru fyrir.

Í byrjun september dró loks til tíðinda. Með hitabeltisstorminn Hönnuh á leiðinni var flugskólanum lokað, rétt áður en Jorrit átti að fara í próf prófanna, flugkennaraprófið. Í kjölfarið fengu nemendurnir útburðartilkynningu svo það var eftir engu að bíða.

Með bílinn fullann uppí rjáfur og dýnurnar á toppnum lögðum við af stað í um 1000 mílna ferðalag frá norður mörkum Suður Karólínu, í gegnum Georgíu, niður Flórídaskagann og til Pembroke Pines.

Við lögðum af stað tæplega kl 2 eftir hádegi, komum á leiðarenda um áttaleitið daginn eftir. Ég mæli ekki með svona ferð. Sérstaklega ekki að taka þátt í morgunumferðinni á hraðbraut 95 í gegnum Ft. Lauderdale og Hollywood, ósofinn og með yfirhlaðinn bíl.

Við komum okkur fyrir að öðrum Lendingarbúðum, heldur dýrari en með stærri sundlaug. Jorrit náði loks flugkennaraprófinu í byrjum Október.

Auðvitað hafði Fallið Mikla í byrjun Október áhrif á okkur eins og svo marga aðra. En ástandið hefði getað verið verra fyrir okkur því að við vorum ekki háð krónunni.

Í byrjun desember dundi eitt áfallið enn yfir þegar ein flugvél frá flugskólanum lenti í samstuði við tveggja hreyfla vél frá öðrum skóla á svæðinu. Í flugvélunum voru 4 flugmenn sem létust allir. Einn af þeim var yfirflugkennari við flugskólann.

Við héldum jól hér í heita Flórída, innan við pálmatrén. Það tókst ágætlega til þó að við séum staðráðin í að halda jól á kaldari stað að ári. 

Næsta ár verður líklega líka litríkt. Við munum flytja amk einu sinni, í þetta skiptið til Evrópu. Stefnan núna er á AAlasund í Noregi. Við vonum innilega að það gangi eftir en það eru blikur á lofti.

En eins og danskurinn segir: Den tid, den sorg.

Gleðilegt nýtt ár og ég vona svo innilega að við sjáumst sem flest og sem oftast á nýju ári!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt nýtt ár :). Já vona við sjáumst á árinu 2009 :)

Álfhildur (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 22:16

2 identicon

Búin að fá myndirnar frá Pétri og sendi þær á morgun. :)

Mamma

mamma (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 17:39

3 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Oh, takk :)

Elva Guðmundsdóttir, 7.1.2009 kl. 19:09

4 identicon

Gleðilegt nýtt ár:) og takk fyrir það gamla.

Kv Jóa, Óli, Gréta og Viktor.

Jóa (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband