Naglasúpa

Þetta er búinn að vera laangur dagur.

Ég átti að mæta í skólann í dag og segja krökkunum frá Íslandi. Átti að vera þar klukkan átta þannig að Jorrit hafði hagrætt deginum sínum svo að ég væri komin heim áður en hann þyrfti að fara í vinnuna.

En nei, það gekk nú ekki alveg eftir. Í gærkvöldi hringdi yfirmaður Jorrit og sagði honum að hann ætti að mæta í flug klukkan 6. Hann þarf nefnilega að ná sér í nokka tíma á fjölhreyflavél til að ná kennaraprófi á svoleiðis. Fjölhreyflavélarnar eru meira og minna bilaðar þessa dagann og þess vegna verður að grípa til þessara ráðstafanna.

En allt í lagi, flug klukkan 6. Þá er bara málið að fara snemma að sofa og láta frúnna skutla sér á völlinn svo að hún geti fengið bílinn. Og, já, endurraða dagskánni aðeins svo að lausi tíminn á milli átta og ellefu nýtist eitthvað.

Þannig að við hjónakornin vöknuðum fyrir allar aldir til að koma Jorrit í flug. Eftir hefðbundið morgunstúss fórum við út í bíl rúmlega korter yfir fimm.

Bíllinn komst svona rúma bíllengd út úr stæðinu þegar það uppgötvaðist að eitt dekkið var punkterað.

Jæja, þá er bara að rífa fram tjakk og kross og skipta um dekk. Ja, svona ef krossinn finnst altso, sem gerðist ekki í þessu tilfelli. Nújá, þá er um að gera hringja í einhvern sem á kross, þeas ef klukkan væri eitthvað meira en hálf sex.

Svo bílnum var bakkað voða varlega aftur inn í stæðið og farið í það verk að láta vita að Jorrit væri seinn, jafnvel láta sækja sig.

En þá kom í ljós að Jorrit var ekki með númerið hjá flugkennaranum og það fannst ekki á innri síðu flugskólans, þar sem það á að vera (held ég). Og yfirmaðurinn svaraði ekki og Jorrit var ekki alveg viss um að hann væri með rétt númer. Það var auðvitað enginn mættur í flugskólann.

Rúmlega sex náðist samband við flugskólann. Þar var enginn sem gat sótt, amk ekki strax svo Jorrit lagði gangandi af stað með allt draslið sitt. Annars var flugkennarinn ekki mættur svo að Jorrit var ekki að missa af neinu.

Þegar í skólann var komið kom í ljós að grænu og rauðu gaumljósin virkuðu ekki og þar af leiðandi var flugvélin óflughæf nema að ef maður væri í leyniför.

Eg komst gangandi í skólann svona 2 mínútur yfir átta, rauð, sveitt og másandi. Skrifstofudömurnar vorkenndu mér agalega. Ég sagðist bara að vera sýna þeim sérstaklega íslenska hlið á mér. Kynningin var agalega skemmtileg. Það var gaman að sjá krakkana og líka hvað hinar útlensku mömmurnar voru að sýna.

Þegar Jorrit kom heim hófst seinni hálfleikur í að eiga við bílinn. Hann kom á risa bílnum yfirmanns síns sem kom með risa útgáfu af kross sem passaði ekki við indjánann. Svo fengum við lánaðan kross hjá einum að vinnumönnunum hérna en það fór ekki betur en svo að hann hreinlega rifnaði í átökunum því að rærnar voru frekar fastar á. Málið fór ekki að ganga fyrr en Púerto Rikneskur nágranni okkar skarst í leikinn. Hann talar reynda enga ensku og Jorrit enga spænsku en hann átti almennilegar græjur og vegur örugglega 50 kg meira en Jorrit sem telur þegar maður þarf að standa á krossinum. Svo fóru þeir með dekkið til að blása í það lofti og til að skoða það. Þá kom í ljós nagli sem olli öllu þessu veseni. Nágranninn gerði sér litið fyrir og gerði við dekki bara þarna á staðnum.

Glæsilegt það!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband