Gönguferð
20.9.2009 | 12:37
Við Jorrit gerðumst vond í gær og píndum Magna "PS2" Stein í göngutúr í góða veðrinu. Það var sól og logn og þegar þannig stendur á hér um slóðir er örugglega lögbrot að hanga inni allann daginn.
Við löbbuðum yfir á næstu eyju, Hessa, í smá könnunnarleiðangur. Þungur á brún og brá hengslaðist ungi maðurinn á eftir okkur, teljandi upp allar ástæðurnar fyrir að þessi labbitúr væri slæm hugmynd. Til dæmis hafði hann þungar áhyggjur af skýjabakkanum sem rétt hygldi undir á vesturloftinu. Það væri örugglega að koma ringing og við mundum líklegast forkelast á leiðinni til baka. Við, hin óforbetranlegu, hofðum upp í skafheiðann himinninn og létum kvartanirnar sem vind um eyru þjóta.
Á Hessu er nokkuð þétt byggð eins og alls staðar hér sem hægt er að tylla húsi. En eyjan er mun ójafnari yfirferðar en Aspareyja svo að stór hluti hennar er enn hólar og björg hulin lyngi, mosa og trjám. Verulega laglegt. Hverfið sem er næst okkur er annars vegar nýlegt blokkarhverfi, ljótar og leiðinlega byggingar, og hins vegar eldra smáhýsahverfi sem hvert krútt húsið eftir annað kemur í ljós þegar labbað er um það.
Við löbbuðum í gegnum byggðina og yfir öxl þar sem fótboltavöllur hafði verið byggður hinum megin við.
Miklar þjáningar hjá yngsta ferðafélaganum, og áhyggjur af veðrinu.
Loftið var ferskt og haustlegt og í gegnum kyrrðina bárust hvatningarhróp fótbolta foreldana.
Miðja vegu á milli fótboltavallarins og byggðarinnar kom Jorrit auga á stíg sem lá út frá veginum.
Það var eins og við höfðum skipt um barn, þar og þá. Fúli Magni var horfinn og í staðinn var kominn Magni fjallageit sem skoppaði kátur og hress á undan okkur, æstur í að finna nýjar slóðir.
Við klifruðum upp á hólinn og nutum sólarinnar og útsýnisins. Á leiðinni niður fundum við dularfullan niðurgrafinn og steinsteiptann stíg. Stríðs eitthvað sem hafði verið þarna í nokkurn tíma.
Okkur fannst bara verst að hafa ekki með okkur nesti, því það hefði verið svo upplagt.
Athugasemdir
Já dóttir mín er svona líka ;)
Álfhildur (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.