Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
Breytt barn!!
9.1.2007 | 16:19
Nýja dótið mitt!!
5.1.2007 | 23:27
Núna er ég búin að hafa tækifæri til þess að leika mér með nýja dótið mitt í tvo daga. Það verður gaman að vita hvenær síminn hættir að vera skínandi nýtt dót sem gaman er að fikta í og verður að nytjahlut.
En ég skemmti mér alla vega ágætlega núna. Það kemur sniðugt hljóð þegar ég fæ SMS og ennþá sniðugara þegar einhver hringir í mig. Svo endilega hringið og sendið SMS. Ef ég svara ekki þá er ég hugsanlega bara að hlusta á lagið
Hækkaður græjustuðull heimilisins
3.1.2007 | 23:19
Við Magni fórum á Eyrina í dag. Hittum þar fyrir Valdísi og héldum svo í eyðsluferð.
Valdísi vantaði reyndar eina flúrperu sem hún fann í Byko. Ég fann örbylgjuofn í Byko . Slíkt tæki hefur ekki verið til heima hjá mér árum saman, ég er alltaf að bíða eftir hinum fullkomna örrara, sem ég sá svo í dag. Ódýr, hvítur og lítill!
Ástæða ferðarinnar var samt sú að fjárfesta í síma. Ég hef tekið eftir ýmsum furðu uppátækjum hjá gamla Nokia s.s. að læsa sér með ógnarhraða þannig að ég kemst nánast ekki í símnúmeralistann í honum hvað þá meira. Annað er að kveikja á ljósinu á undarlegustu stundum og slökkva svo seint og um síðir á því. Svo frýs hann gjarnan þegar ég skoða SMS, kom vel í ljós á áramótunum.
En allt þetta er hægt að lifa með, amk um tíma, ef ekki væri það að Nokia gamli er hættur að gagnast almennilega til þess sem er kjarni tilveru hans: sem fjarskiptatæki. Hann hefur gert það nokkrum sinnum upp á síðkastið að slíta samtölum upp á sitt einsdæmi. Fyrst gerði hann þetta bara við einn síma, sem vill svo til að er sömu gerðar og hann sjálfur. Þannig það var ekki gott að vita hverjum væri um að kenna. Og kannski var Nokia bara að hinta að því að eigandi hans gæti nýtt tíma sinn betur en að blaðra endalaust við hinn aðilann.
En svo færði Nokia sig upp á skaftið og sleit símtali við annan síma. Það hefði hann ekki átt að gera (og bæta svo öllum hinum stælunum við) því nú er kominn inn á heimilið nokkur Sony Eirikson frá Svíþjóð (á sennilega japanska móður) sem mun nú taka við af Nokia frá og með deginum á morgun.
Húrra fyrir því!!
Nýársfærsla
1.1.2007 | 21:08
Þar sem ég var ekki nægilega framtaksöm í gær til að pikka gamlársfærslu, verður nýársfærsla að duga.
Það skeði ýmislegt á seinasta ári eins og ég spáði reyndar sjálf fyrir.
Ég kláraði Meistaraverkið í janúar og hef þar af leiðandi getað kallað mig mannfræðing síðan í febrúar.
Það gekk nú upp og ofan að sannfæra atvinnurekendur þessa lands um ágæti þess að ráða mig í vinnu. Eftir á að hyggja er ég bara alveg ferlega ánægð að ég gat ekki prangað sjálfri mér inn á eitthvað almannatengsla fyrirtækið eða hvað annað sem stóð til boða. Þá hefði ég ekki fengið símtal ársins, klukkan rúmlega fjögur, föstudaginn fyrir Pálmasunnudag.
Í kjölfar þessa símtals tók ég upp allt mitt hafurtask og kvaddi Dalabúð, íbúð 254, Hjónagörðum, sem hafði verið vetrarheimili okkar Magna í 6 ár. Það tók okkur reyndar eina 4 mánuði að finna okkur annað heimili en það er önnur saga.
Magna fannst þessi flutningahugmynd frekar ómöguleg þangað til að hann uppgötvaði með haustinu að mývetnskir strákar eru bara ágætis leikfélagar*, þó hann hafi ekki skipst á snuddum við þá í leikskóla eins og gömlu leikfélagana.
Ég held að ég hafi aldrei náð að læra eins mörg örnefni á einu ári eins og á árinu 2006. Enda eru örnefni ekkert til að spauga með við Mývatn. Ég hef líka sjaldan hitt eins margt áhugavert fólk eins og á liðnu ári. Og ég get núna lagt trégöngubraut blindandi (eða amk sagt til um hvernig eigi að bera sig að).
Sumarið helltist yfir með mikilli vinnu og endalausum gönguferðum sem urðu til þess að Elva rýrnaði um rúm 10% á nokkrum mánuðum. Sem var bara gott, það sem eftir var var almennilega stuffið. Enda hef ég sjaldan verið kátari með sjálfan mig en í enda sumars.
Mér finnst alveg synd og skömm að ég hafi ekki uppgötvað þetta landvarða-jobb fyrr. En þá hefði ég líklega ekki haft tækifæri til þess að hvalasafnast eins mikið.
Talandi um Hvalasafnið þá gerðist sá fáheyrði atburður að ég og Elke vinkona lögðum land undir dekk og brunuðum niður til Skaftafells í endaðan september. Það löbbuðum við helling og keyrðum enn meira. Þar drakk ég latte ársins og sá alveg ótrúlega náttúrufegurð. Þetta ferðalag var afskaplega tímabært og vonandi getum við haldið áfram að ferðast hingað og þangað saman.
Seinasti partur ársins hefur heldur einkennst af naflapælingum og rólegheitum. Þarf greinilega að vera duglegri í gönguferðunum því þá hef ég ekki tíma hvorki í naflapælingar né rólegheit.
Þegar allt er lagt saman þá finnst mér að seinast ár hafi verið gott. Þá er bara að stefna að öðru ekki síðra árið 2007!
*Mér finnst Mývetnskir strákar (ekki þeir sömu) líka ágætir, en hef ekki gert það upp við mig ennþá hvort ég nenni að leika mikið við þá. Né nokkra aðra stráka sem ég hitti seinasta sumar, innlenda eða erlenda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)