Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Norðurmýrarfílingur
30.4.2008 | 17:35
Það er allt að koma til í hitamálum hjá okkur Magna, núna þegar búið er að skipta um allskonar pípur og loka í kyndiklefanum. Ég lærði nýtt orð í dag: Danfossloki. Það er nefnilega frekar hamlandi fyrir félagslega auðmagnið ef maður talar um "þetta-gráa-þarna-sem-maður-fiktar-í-til-að-fá-meiri-hita".
En núna er húsið að þorna smá saman.
Og oj...
Lyktar eins og gamall blautur hundur sumstaðar en annars staðar eins og gömul tuska.
Ætli það sé gamall Mývetningur hangandi á skólplögninni?
Hann mætti reyndar ekki vera mjög gamall þar sem ég held að flest lífrænt efni umbreytist frekar hratt í jörð hérna. Svo notalega hlýtt.
En ég get allavega opnað glugga núna og hætt að hamstra hitann.
Magni og Viktor hafa nú ekki látið þetta vatnsvesen trufla sig mikið. Þeir hafa verið að byggja metnaðafyllsta sköpunarverk sitt hingað til; risa kall úr lego. Nú er hann tilbúinn og ég mátti ljósmynda snilldina og setja hana á netið. Svo Volla!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Smá æfing...
28.4.2008 | 20:26
Það skeði eitthvað skrítið við hitakerfið á höllinni sem við Magni búum í rétt fyrir helgi.
Útrennslið hefur löngum verið svolítið spes þannig að það er ævinlega smá pollur við hliðina á útidyrunum. Með alveg svakalega heimilislegu slými og fíflum sem uxu á bakkanum. Allt að því næs.
En allt í einu fór þrýsingurinn upp úr öllu valdi á kerfinu. Það var hægt að láta þrýstingslokann (eða hvað sem græjan heitir) frussa 80 gráðu vatni á gólfið í kyndklefanum og búa til gufubað (bæði í klefanum og í húsinu), eða skrúfa frá svona framhjá kerfi og láta sjóðheita vatnið renna beint út (eða svona undir húsið og svo út í gamla pollinn), eða skrúfa fyrir heita vatnið. Aðgerð 2 seinkaði bara gróðurhúsaástandi innanhúss eins og ég hef komist að. Meira að segja hús þola ekki endalaust heitt vatn undir sig. Gróðurinn í pollinum er löngu soðinn.
Semsagt afskaplega skemmtilegt ástand.
Ég endaði með að skrúfa fyrir heita vatnið í gærkvöldi þegar brunaboðinn var búinn að fara á stað og það sló út vegna raka. Svo var hreppsráðsmaðurinn ræstur út í morgun. Hann hafði greinilega gert eitthvað þegar ég kom heim áðan og ástandið leit ágætlega út.
Þangað til að ég vildi fá aðeins meira hita í húsið (var svona 17-18 gráður eftir 12-14 tíma hitaleysi). Við að skrúa inntakið frá 1 yfir á 2 fór þrýstingurinn allur af stað aftur.
Núna er bara smá innrennsli í húsið (fyrir uppvask og svoleiðis), það verður æðislegt að fara í sturtu á eftir og ég sé fram á að skrúa fyrir vatnið aftur í nótt.
En ég og Magni erum búin að fá smá æfingu í að búa við 90-100 % raka ef við viljum finna ljósu fletina á málinu.
Hins vegar er ég viss um að silfurskottu ættflokkurinn sem bjó í kyndiklefanum hefur orðið fyrir miklum búsifum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Amk eldri
23.4.2008 | 20:09
Annar í afmæli fór ágætlega fram. Akureyrarferð með dekkjaskiptum og tannlækni. Kom líka hleðslutæki á Rögnu systur sem launaði greiðan með leiðsögn um MA. Það tók nefnilega smá göngutúr að finna stærðfræðimærina Valdísi.
Fyrsti í afmæli var alveg ágætur. Byrjaði daginn með rafrænu, heimatilbúnu, afmæliskorti frá Eddu og co. Svo fékk ég skemmtilega mikið af skilaboðum og símhringingum. Meira að segja sendi Magni sms í gegn um netið. Þegar börnin fara að senda manni afmæliskveðjur í símann er nauðsynlegt að átta sig á því að þau eru engin smábörn lengur.
Svo buðu Ma&Pa okkur í mat. Rauðsprettan rann ljúflega niður sem og grilluðu banarnir.
Bara fínt allt saman.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ofur-smáhestur
21.4.2008 | 18:22
Aumingja smáhesturinn minn er svo óheppinn að eigandi hans er frekar trassasamur. Og á það til að mikla fyrir sér verkin. Þess vegna hafði nú liðið óþægilega langur tími á milli skoðana hjá gæðinginum. Eigandinn var alveg viss um að núna kæmi að því að Skoðunarmaðurinn sæi innsta eðli hans og tæki ekki í mál að bíl-greyið færi feti lengra (eða svona næstum því).
En loksins hafðist það að panta tíma fyrir bílinn. Var bara merkilega auðvelt. Var bara ekki svo sárt.
Á leiðinni niður brekkurnar hlustaði eigandinn eftir hverju hringli og rörhljóði. Var alveg viss um að núna væri eitthvað að fara, perur að springa, púst að detta í sundur eða bremsur að bila. Bara af því að þarfasti þjónninn væri á leið í próf.
Með hjartslætti lögðu þeir við hliðina á skoðunarstöðinni en vorum of snemma í því. Þess vegna hafði Eigandinn trassasami nægan tíma til að velta fyrir sér af hverju númerslausri Nissan Mikra væri lagt við húshornið. Svona næstum eins og henni hefði verið trillað út af skoðunarstöðinni eins stutt og hægt væri. Sennilega vegna einhverra ófyrirgefanlegra synda eiganda hennar. Hann sá Smáhestinn alveg fyrir sér rétt hliðina á henni, umkomulaus og númerslaus.
Eftir óralangan tíma, örugglega svona 5 mínútur, kom Skoðunarmaðurinn úr hádegismat. Eftir að hafa greitt viðeigandi gjald keyrðum við löturhægt og kurteisislega inn í skoðunarstöðina. Þar skyldust leiðir og Eigandinn fór eirðarlaus inn á biðstofuna, fletti ósjáandi í blöðunum og stjákklaði um.
Eftir svolitla stund var kallað. Eigandinn lúskraðist fram, tilbúin til að taka örlögum sínum. En kraftaverkin gerast enn því þar stóð Skoðunarmaðurinn örlítið sporskur á svip. Engar athugasemdir og Smáhesturinn kominn með nýja flotta miða á sig. Ekki græna heldur svona gula með 09!
Ótrúlegt!
Og bara betri en seinast!
Þá er bara um að gera og vinda sér í dekkjaskipti og smur. Fyrst við lifðum skoðunina af verður það bara sunnudagsgöngutúr í skrúðgarðinum...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Gamall hundur kennir ungum hvolpi...
14.4.2008 | 21:59
Þegar Magni Steinn var að munda sig við að byrja á stærðfræðidæmunum í kvöld heyrði ég hann muldra "Hvernig gerði Viktor þetta?". Ég spurði barnið hvað hvað hann væri að tala um og hann sagði mér að Viktor, stórvinur, hefði sýnt honum þessa líka fínu aðferð við að reikna saman stórar tölur. Eitthvað með striki og geyma og svoleiðis.
Aha, hugsaði ég, svo þannig fer þegar börnin eru látin uppgötva stærðfræðina sjálf. Þegar komið er út í 43+56+8 eða 35*15 er orðið seinlegt að telja á fingrum sér (og tám, bringunni eða stöfunum á blýantinum eins og ég hef séð son minn gera). Þá þarf maður stórtækari vinnuvélar við verkið. Mér sýnist að Viktor hafi gert það sniðugasta í stöðunni og virkjað foreldrana til að leysa dæmið og þau kenndu honum að setja dæmin upp á gammel dags máta. Svo reyndi Magni að tileinka sér tækniframfarir vinar síns og kunni kannski ekki við að ónáða upptekna móður sína.
Ég hugsaði mig aðeins um... Börnin eiga jú víst að læra þetta sjálf á einhvern hippalegan og frumlegan máta... Kannski væri ég að skemma stærðfræðiupplifun sonar míns fyrir lífstíð með að skifta mér af og koma með úreltar og lummó útreikni-aðferðir...
Úr varð að ég stóðst ekki freistingunna (enda heyrði ég að drengurinn var farinn út af sporinu í fingratalningunni) og bauðst til að hjálpa. Hjálpinni var tekið fegins hendi og minn maður var ekki smá kátur þegar hann uppgötvaði þægindin við "nýju" aðferðina.
Ég vona bara að þessi afskiptasemi hafi ekki haft djúpstæð og óafturkræf áhrif. Kannski nær Magni aldrei að botna í heildun eða sínus-fallinu út af mér. Hver veit...?
Ég verð bara að lifa með óvissunni. Við höfðum bæði mjög gaman af heimadæmunum, aldrei þessu vant.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Nokkrar myndir og þannig
9.4.2008 | 19:01
Ég fór á smá skreppitúr á embættisbílnum í gær. Veðrið var svona um frostmark og þið megið geta þrisvar hvert ég fór. Fallegt kögur er það ekki?
Þegar ég hlóð þessari inn á Blánna fann ég aðra sem var tekin þegar Magni var á leið að gista hjá Viktori um daginn. Ef barnið reynir að segja ykkur að hann sé látinn þræla við að þrífa gólfið með tannbursta þá er það EKKI satt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vimeslegt
7.4.2008 | 19:11
Ég hef verið að lesa í gegnum "Löggubækurnar" úr Diskworld seríunni þannig að það er kannski eðlilegt að hugurinn sé fljótur að tengja þegar kemur að uppátækjum lögreglunnar í raunheimum. Það að taka þennan hættulega kyndil, sem fólk er að æsa sig yfir, og slökkva í honum væri mjög Vimeslegt. Þá væri vandamálið úr sögunni og friðurinn tryggður í bili en það er nú helsti tilgangur allra löggæslumanna; að halda friðinn (to keep the peace). Hann hefði reyndar líklega handtekið allt liðið fyrir einhverskonar þjófnað. Því allir glæpir eru í raun þjófnaðir, það er bara mismunandi hverju sé stolið.
Svo er nú alger spurning hvað franska löggan geri næst því eitthvað er ég viss á að friðurinn hafi ekki haldist lengi. Ef þetta væri bók um Vimes væri næsta skref að handtaka Kína fyrir þjófnað... á landi. Hann náði nú einu sinni að handtaka heilan hervöll (m.a. fyrir samsæri um að valda öðru fólki líkamsmeiðingum og dauða og vera vopnaðir á almannafæri ) en þá komu pólitíkusarnir og eyðilögðu allt. Eitthvað vesen með pappíra og viðskiptahagsmuni.
Sem virðist vera málið í raunheimum.
Slökkt á ólympíueldi í París | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veður, dýralíf og annað
1.4.2008 | 22:44
Snjór út um allt. Nýr snjór sem er últra hvítur (eða últra ljós blár eins og myndavélin heldur fram) og það er búin að vera miskunnarlaus sól seinustu tvo daga. Úff hvað er erfitt að koma inn úr þessari birtu! Kannski er sniðugt að endurnýja í sólgleraugnabyrgðunum.
Annars er ég ekki að kvarta, alls ekki! Betra er sól og snjór heldur en bara snjór eins og það var á sunnudaginn.
Við Þorgeir fengum heimsókn í dag. Smiðirnir á staðnum höfðu fundið skrítna flugu á verkstæðinu sínu og vildu fá tegundagreiningu. Við skoðuðu fyrirbærið og skaut ég á að það væri svokölluð trjávespa. Þegar við skoðuðum google og wikipediuna þá sýndist okkur að það væri nálægt lagi.
Hérna er mynd af svipaðri flugu:
Annars er Jorrit búinn að panta flug til landsins um miðjan maí mánuð svo tími dagsetninganna fer líklega að renna upp
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)