Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Það er komið sumar...

id4newyorkog sól í heiði skín?

Nei, ekki alveg hér í Flórída.

Ekki misskilja samt, þetta er "sólskins fylkið" svo það er ekki eins og það sé sólarlaust alla daga. En sumarkoman einkennist greinlega af öðru hér en heima.

Núna, þegar það er tæp vika í fellibyljatímann, er búið að vera þrumuveður á hverjum degi síðan á þriðjudag. Og rigning. Svona smá hér og þar. Og stundum hellings, en bara í stuttan tíma. Þrumurnar byrja að bresta svona á milli 9 og 11 á morgnana og rigningin lætur sjá sig einhvertíman eftir hádegið. Og svo er sól í smástund áður en það kvöldar.

Akkúrat núna er risa þrumuveður fyrir suðvestan okkur. Við sáum það þegar við fórum að versla. Það er víst alveg séns á hvirfilbyljum úr því, því það er svo massívt. Enda er pínu spes að sjá svona ský. Það er næstum eins og himinninn sjálfur sé bara orðinn blágrár en ekki venjulega blár. Eða að það sé risastórt geimskip búið að planta sér yfir svæðinu. Svona Independence Day geimskip. Og svo murrar það og urrar og við og við sjást eldingar og flöss inn í því.

Við túristaaularnir vildum næstum óska að það væri nær svo að það væri eitthvað aksjón í gangi. En bara næstum.

 


Pappírsbrúðkaup

Já, svona er tíminn fljótur að líða!

Fyrir einu ári síðan pússuðum við Jorrit okkur saman. Dagurinn í dag er nú rólegri en þessi fyrir ári síðan. Við fengum okkur þrándheimsrós (því miður fyrir Magna, með rúsinum) og te í morgunmat og þar sem Jorrit þurfti að fara í vinnuna kl 2, pitsu í hádegismat.

Svo horfi ég með öðru auganu á Júróvison.


Mömmudagur

011.jpgÁ morgun er Mother's day í Ameríkunni.

Á föstudaginn fengu börnin tækifæri til þess að skreita klassískar hvítar vanillu samptertur með smjörkremi. Magni lagði sig allan fram og gerði afskaplega fallega köku handa mér.

En þar sem hann er nú líkur móður sinni feilaði hann aðeins á skynseminni. Þegar það kom að því að fara heim stakk hann kökunni niður í tösku og hélt glaðbeittur heim.

Þegar heim var komið var kakan auðvitað, í köku. Það var agalega sár strákur sem sat á gólfinu yfir brotnu kökunni sinni og mömmu hjartað gat ekki annað en að finna lausn á sorginni.

Sem betur fer var það hægt í þessu til felli og eftir að hafa kafað í rústunum eftir skreitingum bjuggum við bara til meira smjörkrem og skreittu hana aftur. Kakan er auðvitað ekki eins en Magni er búinn að gefa það út að hún sé líklega bara flottari núna, og með meira kremi Wink

Og núna eru menn miklu upplýstari um hvað megi og megi ekki fara ofan í tösku.

Nb. Magna sagði að það yrði að standa "Mom" á kökunni því að þetta væri svona bandarískt en mér grunar að ástæðan sé líka að "Mamma" er svo langt...


Those Two Girls in the Morning

Einhverstaðar verður kona að byrja eftir langt blogghlé...

Ég fór áðan í stefnt-á-að-vera-daglega göngutúrinn minn. Þetta er svona um 3ja mílna hringur sem ég geng oftast, því ég er of löt til að ganga almennilegan 4 mílna hring um blokkina mína. Eða kannski of leið því að það er ekki hægt að ganga hérna öðruvísi en meðfram stórum umferðagötum. Svifrykið maður!

Það besta við að fara í svona labbitúra á morgnana er útvarpið. Ég hef það alltaf í eyrunum til að stytta stundir og á morgnana eru þær Julie og Tamara á Strandarstöðinni (The Coast Fm). Þær eru alveg ágætar. Spjalla um daginn og veginn og spila þægilega tónlist. Svo tala þær um veðrið. Það er nú reyndar nánast alltaf eins; "Það verður sól í dag, 10% líkur á rigningu (eða engar) og hitinn á bilinu 74°F til 85°F".

Svo hringja hlustendur inn og segja álit sitt á vandamálum fólk sem þær taka fyrir. Í dag var það hún Jane sem er boðin í brúðkaup/ættarmót í Colarado í Ágúst. Sem er fínt nema að kallinn hennar nennir ekki að fara því hann "þekkir engan". Búin að vera gift í 15 ár og eiga krakka og allt. Flestir voru á því að Jane ætti bara að láta kallinn eiga sig og skemmta sér með ættingjunum. Einn maður benti þó á að almennilegir karlmenn létu óþægindi eins og leiðinlega ættingja ekki stoppa sig í að styðja við bakið á konunni sinni.

Það sem mér datt í hug var: Hvernig stendur á því að maðurinn hafi ekki tengst við neinn í fjölskyldunni eftir 15 ár! Þessi BNA menn! Kunna bara ekki á almennileg fjölskyldutengsl!

Á tíu mínútna fresti fær maður að heyra umferðafréttirnar. Þær eru bæði meira spennandi og mikilvægari en veðurfréttirnar hérna. En mér finnst það samt ennþá truflandi hvað umferðaféttamaðurinn fer auðveldlega úr umferðinni yfir í styrktaraðilana. Gaurinn talar frekar hratt sko, og fer algerlega án viðvörunar frá umferðarslysi á Turnpike* yfir í brjóstastækkanir hjá Strax**. Getur reyndar verið smá fyndið stundum.

Annars er auðvitað ýmislegt búið að gerast seinasta mánuðinn. Vorsumarið er algerlega komið. Fuglar, hiti (meiri hiti altso) og blóm. Magni fékk bara A fyrir 3ja hluta vetrarins og fékk viðeigandi verðlaun (og límmiða fyrir foreldrana til að monta sig með. Svona ef þeir vildu líma eitthvað á stuðarann á bílnum). Jorrit vinnur og vinnur. Og einn froskurinn hvarf úr búrinu. Mjög dularfullt þar sem ekki einu sinni hinar dauðadæmdu krybbur sleppa úr þessu búri. Páskarnir voru ágætir en Nóa-Siríus nr 4 var sárlega saknað.

Flutningaplön ganga hægt en ganga samt. Núna er hugsanlega stefnt á seinnipartinn í júní. En tilkynningar verða gefnar út þegar plön fara að skýrast.

*Tollvegur sem liggur eftir Flórída endilöngu og endar í Miami.

**Lýtalækninga miðstöð sem er frekar dugleg að auglýsa þjónustu sína. Allskonar tilboð og whatnot. Alveg morðfyndið í mínum huga sem tengi "Strax" við langlokur, nammi og kók.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband