Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Skjól og bækur

Dagarnir líða áfram hérna við Heissafjöðinn.

Í gær fórum við að skoða íbúð á Aspareyju. Hún kom alveg ágætlega út. Er með húsgögnum sem er ágætt og einnig, sem er enn betra, með öllum raftækjum í eldhúsinu. Íbúðin er í eigu Skipstjóra nokkurns sem var ansi ánægður með að við værum svona virðulegt gift par. Og svo þegar hann frétti af Magna Steini varð hann ennþá ánægðari. Hann var nefnilega að leita að fólki sem væri síður líklegt að stofna til mannfagnaða og náinna kynna við lögregluna. Gift par með 9 ára gutta er ekki sérstaklega líklegt til slíks.

Hann bauð okkur upp á sterkt og sýndi okkur mynd af sér í matarboði hjá Casto sjálfum. Áhugaverður gaur.

En allavega... við fáum líklega íbúðina í næstu viku en þar sem hann þarf að fara í vinnuna aftur í kvöld á systir hans að sjá um pappírsvinnuna.

Þá er það frá...

Í dag reyndum við að fara í bankann með eyðublaðið fyrir D-númerið mitt en það tókst ekki þar sem Nordea lokar víst kl 3 á föstudögum. Jæja, þá mætir maður bara í bítið á mánudaginn.

Í staðinn fundum við bókasafnið. Þegar við vorum búin að skoða okkur um smá stund kom starfmaður þar að og spurði hvort okkur vantaði eitthvað. Upp úr því ákváðum við að fá okkur bókasafnskort og fá lánaðar smá bækur. Þá kom í ljós að maðurinn skildi íslensku og var að lesa Höfundur Íslands á hinu ilhýra á leiðina í vinnuna. Amtsbókasafnið á Akureyri og bókasafn Álasunds höfðu þá skipst reglulega á bókum í gegnum tíðina og því sé hægt fyrir td mig að fá lánaðar Íslenskar bækur þegar heimþráin kemur yfir mig. Þetta voru góðar fréttir og það var gaman að spjalla við manninn, ég á íslensku og hann svaraði á norsku.

Heimsóknin endaði á því að við tókum sína bókina hvora og hljóðbók sem passaði við. Ég tók Augu Evu eftir Karin Fossum en hana hef ég lesið líklega 2svar og þess vegna ætti að vera auðveldara að lesa hana á frummálinu.


Rúmrusk og náttúra norðmanna

Núna erum við hjónakornin að strögglast í gegnum dag 2 í Álasund.

Við erum búin að labba og labba til að koma ákveðnu skipulagi á lífið og hlutirnir mjakast. Komin með frelsiskort og svoleiðis.

Álasund virðist vera ágætis staður með sjávarlykt og göngum fyrir bíla og fólk. Bílstjórar stoppa fyrir vegfarendum ef þeir svo mikið sem líta í átt að götunni, svona eins og þeir gera á Akureyri. Kannski andlega skyldir enda eru Álasund og Akureyri vinabæir.

Við búum núna hjá Svein Jonny sem er einn af eigendum flugskólans. Herbergið okkar er upp undir rjáfri í blokkinni sem hann býr í. Er svona einskonar geymsla/gestaherbergi. Fyrstu nóttina vorum við svo þreitt til að vera með neinar sérþarfir. Reyndar vöknuðum við snemma útaf birtu og vorum þar af leiðandi pínu þreytt í gær.

Í gærkvöldi fór Jorrit tímanlega í rúmið, skynsemin uppmáluð, en ég spjallaði aðeins lengur við Svein Jonny og skreið upp í kannski kl hálf eitt.

Um þrjúleitið vöknuðum við upp við að maður og kona komu inn í næsta herbergi og fóru, að því virtist, að laga til eða henda hlutum til og frá. Eftir einhvern tíma kom smá þögn. Og svo upphófst þessi skemmtilegri "ástarsöngur" þeirra skötuhjúa. Alltaf er náttúran söm við sig. Gjörningurinn virtist fara ágætlega fram og pilturinn greinilega mikill herramaður og var ekkert að drífa sig. En okkur fannst þó vanta svolítið á cresetóið í endan. Kannski fannst honum það líka því að eftirá hélt maðurinn þvílíka einræðu. Hún hafði greinilega ekki alveg eins mikla þörf á að tjá sig. Rétt um það leyti sem við vorum eiginlega orðin til í að banka uppá og biðjast vægðar þagnaði elskhuginn. Þá var klukkan örugglega orðin meira en fjögur.

Við vonumst til að þau geri það bara snemma í kvöld svo við fáum svefnfrið, gamla fólkið.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband