Tannlæknir og útbrot

Ég fór til rótartannlæknisins í morgun. Það þurfti krafta bæði mín og Jorrit að fylla út öll eyðublöðin á réttum tíma fyrir heimsóknina. Bandaríkjamenn á Íslandi og í Evrópu hlýtur að líða illa þegar þeir fara til lækna. Bara farið inn á stofuna og stokkið út í óvissuna! Læknirinn gæti bara gert hvað sem er!

En ég verð að segja að það er til fyrirmyndar að tannlæknirinn lætur mann vita hvað hlutirnir kosta áður en eitthvað er gert. Ekki að maður fái svona óvæntan "glaðning" í hvert skipti sem maður stígur upp úr tannlæknastólnum.

Hins vegar var ekki gaman að reiða fram 450 dollara í morgun og eiga annað eins eftir.

Annars ákváðu froskarnir að, fyrst þeir fengu ekki krybbur heimsendar, að senda einn út af örkinni til að útvega mat. Allavega leit það þannig út þegar ég kom fram í morgun. Þá horfðist ég í augu við einn snjóhvítan svarteygan frosk við hliðina á krybbubúrinu. Hann var örugglega að spá í hvernig hann kæmist inn.

Flóttafroskurinn var handsamaður snarlega og settur á sinn stað. Svo var honum og co boðið upp á vítamín-dustaðar krybbur sem runnu ljúflega niður. Ég vona að þetta dugi til að slá á frelsisþránna.


Á meðan barnið lærir

Ég er mun betri í tönninni og á tíma hjá djúpkafaratannlækni á morgun. Guði sé lof fyrir fúkkalyf. Svo er bara að sannfæra tannsa að ég muni borga honum fyrir greiðann, þrátt fyrir þjóðernið. Hann geti svo skroppið til Íslands næsta sumar fyrir aurana.

 Magni er að læra heima. Valstafsetningaverkefni. Þar fær hann að velja um 9 mismunandi verkefni til að gera 1 hvern dag. Þau ganga út á að hann hefur lista af orðum (svona 15 stk) og á að vinna með þau. Verst að flest verkefnanna eru alltof erfið fyrir hann. Hann er td ekki alveg tilbúinn í að semja súpersetningu (10 orð eða meiri) um hvert orð. Eða sögu sem notar öll orðin. Svo hann er aðallega í því að raða orðunum í stafsetningaröð eða skrifar hvert þeirra þrisvar.

Núna er það stafsetningaröð. Og öll orðin byrja annað hvort á t eða s! Svo er stafur 2 í s-orðunum næstum bara c. Og þriðji stafur í ÖLLUM orðunum er r. Barnið er byrjað að átta sig á að það var kannski auðveldara að skrifa stutta setningu um hvert orð. Pínu pirraður þangað til að hann fattaði að klippa orðin út. 

Nóvembermánuður er víst mánuður afskipta foreldra af menntun barna sinna (Parental Involement in Education). Við fengum alveg almanak fyrir mánuðinn hvað væri sniðugt að gera hvern dag. Í dag átti að tala um uppáhalds fag barnsins í skólanum. Við ræddum um Egypta og sólkerfið því það finnst Magna skemmtilegast. Ekki út af því að það sé endilega fræðandi og þannig, heldur af því að hann þarf oftast ekki að skrifa neitt! Alltaf duglegur, Magni.

Við höfum verið að horfa á líf með kalt blóð, fundum það á veraldarvefnum, og fræðst mikið. Eitt af því sem ég tók eftir var hvað allir trjáfroskarnir voru spengilegri en gráyrjunnar þrjár okkar. Kannski hafa þeir það aðeins of náðugt. 3 krybbur á dag er kannski full veglegt fæði. Allavega hafa þeir ekki fengið neitt að narta í dag og virðast ekkert kippa sér upp við það. Liggja bara á greininni sinni í sólbaði. En þeir fá nú örugglega eitthvað gott á morgun.


Vinaleiðin virkar

Ég er með almennilega fullorðins tannpínu!

Þetta reddast aðferðin hefur steytt á skeri hjá fleirum en bankamönnum. Bráðabirgða/ekki alveg bráðabirgða fyllingin sem ég fékk á jaxl í sumar hefur gefið sig. Afleiðingin er þessi fína rótarbólga.

Við ákváðum á fimmtudaginn að finna bara tannlækni í nágrenninu og fá hann til að redda málum fram að næstu heimferð (hvort sem það yrði Ísland eða Holland). Sá sem varð fyrir valinu hafði auglýst fyrir nokkrum dögum allskonar fínt. Það var ekkert mál að fá tíma seinna um daginn og ég mætti vongóð.

Forstofan á tannlæknastofunni var voða fín og ritarinn vingjarnleg svört kona með langar fléttur. Það voru teknar upplýsingar um mig og svo þurti ég að bíða helling. Loksins var mér vísað inn í stól.

Stóllinn var nú frekar vel notaður. Ég sem er vön þvílíkum flottheitum heima fannst mér ég komin aftur til 1980. Það eina sem var svolítið fínt var rönkentækið sem var tölvutengt. Þegar búið var að taka rönkenmyndina beið ég aðeins meira. Hlustaði á þegar klíníkdaman í næsta herbergi lét sjúklinginn þar horfa á kynningarmyndband um tannstein og hvernig eigi að fjarlægja hann. Svo las ég auglýsingarnar sem voru út um allt þarna, m.a. í loftinu.

Svo kom tannlæknirinn, kíkti á rönkenmyndirnar og svo rétt upp í mig. Hann sagði eitthvað um hita og kuldaleiðandi rótarfyllingar og krónur. Ég varð nú að leggja orð í belg út af rótarfyllingunum. Ég er nú með eina og tönnin með hana er, eðlilega, alveg dauð fyrir hitabreytingum. Hann heillaðist held ég ekki af visku minni og fór fljótlega.

Aftur beið ég. Svo kom ritarinn með blað. Þar var útprentuð viðgerðaráætlun. Upp á tæpa 5 þúsund dollara!

Þar var innifalin komugjald á 100 dollara, rönken á 35 dollara og jú, rótarfylling upp á 1000 dollara. En svo voru liðirnir fyrir krónuísetningu, nokkrir upp á þúsund dollara.

Ég sagði við ritarann að það væri ekki inn í myndinni að setja krónu á þessa tönn. Að ef til þess kæmi yrði það gert heima í samráði við tannlækninn minn. Hún fer með þetta í tannlækninn og kemur svo til baka með það að hann telji að það verði að setja krónu og það sem meira er að ég þurfi amk 2 krónur!

Hmm...

Maðurinn skoðaði 2 tennur í rönken og svo varla upp í mig...

Það var greinilegt að ég fengi ekki bót meina minna þarna svo ég fór út frekar foj og heim.

Nú voru góð ráð dýr og vond greinilega dýrari svo Jorrit fór í flugskólann í gær með verkefnið að finna tannlækni hjá starfsfólkinu.

Það tókst.

Karla, sem sér um viðhaldskrárnar, benti okkur á tannlæknirinn sinn sem er með stofu upp í Silverlakes. Það er hverfi heldur nær Neverglades en okkar.

Ég hringdi pronto og fékk tíma kl 9 í morgun.

Eftir ömurlega nótt og allnokkrar parkódín (sem Jorrit á síðan í fyrra) fórum við til nýja tannlæknisins. Þokkalega stressuð yfir að vesenið síðan á fimmtudaginn myndi endurtaka sig.

En guði sé lof! Þessi tannlæknir virtist vera í allt öðrum bransa en hinn. Græjurnar sem ég sá voru kannski ekki alveg geggjaðislega fínar eins og heima en hins vegar passaði biðstofan við það sem tók við fyrir innan. Þessi tannlæknir talaði við mig. Hann virtist hafa einhvern áhuga að lækna sýkinguna og létta sársaukan en ekki bara að létta veskið mitt.

Því miður gat hann ekki gert rótarfyllingu en þurfti að senda mig til einhvers öðruvísi tannlæknis en hann gat skrifað upp á fúkkalyf og últrasterkar verkjatöflur sem ég tók fegins hendi.

Svo þurftum við að punga út 50 dölum sem var eitthvað annað en 135 dalirnir sem ég borgaði fyrir ekki neitt um daginn.

Svo núna er ég á verkjalyfjum og fúkkalyfjum og á leiðinni í ameríska rótrarfyllingu eftir helgina.


Hver er fyrsta regla ljósmyndarans?

Ég var á labbinu áðan, á leið til að finna tannlækni þar sem hinn stóri jaxlinn í neðri kjálka virðist vera að gefa sig. Agalega sniðugt svona langt frá Kristjáni og Villa tannlæknum en hvað um það.

Ég var búin að sjá þennan fína skutulsfugl (hvað sem þeir heita nú), hegra og var að virða fyrir mér tvo Flórídanska blue jay fugla (hvað sem þeir heita nú á Ísl), hugsandi "oh afhverju er ég ekki með myndavélina?" þegar ég heyrði skrjáfur úr laufblaðahrúgu rétt hjá mér. Og viti menn! Haldið þið að það hafi ekki verið þessi hlussu iguana-eðla í hrúgunni. Alveg djúp græn, næstum sægræn! Svona 50-60 cm stór!

Fjandans!

Ég reif upp símann en það er ekkert súmm á honum og ég stór efast að það hafi tekist að ná mynd.

En alla vega: Þá á ég pantaðan tíma klukkan 20 mín yfir 3. Úff hvað ég tími þessu ekki en...


Langþráður draumur

Það var gaman að fara að sofa í gærkvöldi.

Jorrit var að vinna til 11 þannig að það var enginn að trufla mig við að fylgjast með forsetakostningum á RUV, með öðrum verkum.

Ja, nema RUV því að dagskrárvefurinn datt út kl 10, sennilega af æsingi. Þá var allt óráðið en greinilegt í hvað stefndi. Flórída auðvitað ekki búin að ákveða sig og allt það.

Þegar ég var rétt skriðin upp í rúm varð allt vitlaust úti. Hróp og köll og blístur glumdu við. Obama, Obama, Obama heyrðist kyrjað. Og svo efndi einhver til heljarinnar flugeldasýningar í nágrenninu.

Fólk var ennþá að missa sig aðeins þegar Jorrit kom heim klukkan hálftólf.

Og svo liðum við inn í draumalandið undir ræðu Obama, í boði einhvers nágrannans.

Gleðin er ennþá í loftinu. Ég vona bara að hann standi undir þessu maðurinn.


Bumbult í heilanum

Þetta hefst upp úr því að horfa á viðtal við Ólaf Stefánsson (forvitni út af Spaugstofunni) og Zeitgeist: Addendum á sama deginum.

Mér líður pínu eins og þegar ég fór að sofa á föstudaginn en þá var það ofneysla á snakki og nammi.

Úff


Vetrartími

Oh, það var svo notalegt að sofa lengur í morgun.

Í dag breyta Bandaríkjamenn klukkunni yfir í vetrartíma. Þannig græðum við 1 klst í svefn.

Þetta er kallað "daylight saving" en hefur álíka mikla merkingu hérna og slíkt myndi hafa heima. Hérna er myrkur í 12 tíma og bjart í 12 tíma svo að maður finnur afskaplega lítinn mun. En ég á eftir að meta áhrifin almennilega á morgun. Það hefur nefnilega verið ágætt að vakna í birtingu.

Heima hefur svona tímaflakk heldur litla merkingu því að það er alltaf dimmt á veturnar. Það er alveg komið jafnmikið myrkur þegar maður er á leiðinn heim klukkutíma fyrr en seinna. 

Nú er bara verkefni dagsins að stilla allar klukkur rétt!

016.jpgHalloween var róleg hjá okkur. Jorrit þurfti að vinna til kl 11 svo að við Magni vorum heima, horfðum á mynd, borðuðum snakk og nammi og gáfum krökkum Halloween piparkökur. Þau voru nú ekki mörg svo núna neyðumst við til að klára piparkökurnar alveg sjálf.


Gey

Magni á að fara með smábarnamynd af sér í skólann á morgun. Við könnuðum málið og fundum enga í tölvunni. Magni er nefnilega svo aldraður að myndir voru framkallaðar þegar hann var ungur.

Svo við leituðum hjálpar á venjulegum stað: Afi og Amma.

Og auðvitað reddaði Afinn þessu!Smile

Ég var að skoða myndirnar í morgun. Agalega var maðurinn sætur!  Eftir smá tíma heyrðist í Jorrit sem sat í stofunni: Ég kem ekki nálægt þér næstu vikurnar! Það sést hingað eggjasvipurinn á þér!

Hva!?Shocking

Ég var bara að rifja upp hvað Magni var skemmtilega þægilegur á þessum aldri. Hvaða paranója er þetta?!

Það hjálpaði ekkert að þegar ég var að skoða hljómaði lag sem ég held að heiti "Búum til börn" í internetútvarpinu og það festist svona ferlega í hausnum á mér. Því fékk ég augnatillit reglulega klukkutímann á eftir þegar brot af laginu hrökk upp úr mér við og við.

Ef þetta virkar ekki til þess að fá aðstoð við pillutökuna þá veit ég ekki hvað virkar! Devil


Það haustar hér sem annars staðar

Þegar við Magni gengum í veg fyrir rútuna var kuldalykt í loftinu. "Hvaðan kemur þessi kuldi?" spurði barnið og hryllti sig.

Það er ekkert skrítið að hann spurji. Seinustu mánuði hefur hitinn ekki farið niður fyrir 25 gráðurnar í nánasta umhverfi hans. Börn eru svo fljót að aðlagast.

Hitinn á mælinum var 22 gráður þegar ég kom aftur heim. Ekki það sem við mundum kalla kalt en lyktin var samt til staðar.

 Það er nú samt ekki laust við að við séum byrjuð að sakna vetrarins, frostsins og snjósins. Svona er maður aldrei ánægður!


Skólaverkefni

Við Magni vorum agalega amerísk þessa helgina. Og frekar íslensk líka í senn.

Magni á nefnilega að skila heimaverkefni á morgun.

Verkefnið felst í því að gera bækling. Svona A4 (eða rúmlega) brotinn í þrennt. Bæklingurinn átti að fjalla um einhverja borg og vera svona ferðamanna. (Sem var leiðinlegt því það eru svo margir áhugaverðir staðir sem eru ekki borgir. Satt að segja er ég svo skrítin að mér finnast borgir almennt ekki áhugaverðar). Sérstaklega var tekið fram að það mætti ekki fjalla um skemmtigarða.

Magni valdi að skrifa um Húsavík.

Og við eyddum helginni í að gera bækling. Fyrst svona beinagrind, svo var texti skrifaður á íslensku og svo var hann þýddur og myndir settar við.

Voða fínt og voða amerískt.

Voða íslenskt að gera þetta svona rétt fyrir skil. Tounge


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband