Færsluflokkur: Bloggar
Rúmrusk og náttúra norðmanna
9.7.2009 | 16:35
Núna erum við hjónakornin að strögglast í gegnum dag 2 í Álasund.
Við erum búin að labba og labba til að koma ákveðnu skipulagi á lífið og hlutirnir mjakast. Komin með frelsiskort og svoleiðis.
Álasund virðist vera ágætis staður með sjávarlykt og göngum fyrir bíla og fólk. Bílstjórar stoppa fyrir vegfarendum ef þeir svo mikið sem líta í átt að götunni, svona eins og þeir gera á Akureyri. Kannski andlega skyldir enda eru Álasund og Akureyri vinabæir.
Við búum núna hjá Svein Jonny sem er einn af eigendum flugskólans. Herbergið okkar er upp undir rjáfri í blokkinni sem hann býr í. Er svona einskonar geymsla/gestaherbergi. Fyrstu nóttina vorum við svo þreitt til að vera með neinar sérþarfir. Reyndar vöknuðum við snemma útaf birtu og vorum þar af leiðandi pínu þreytt í gær.
Í gærkvöldi fór Jorrit tímanlega í rúmið, skynsemin uppmáluð, en ég spjallaði aðeins lengur við Svein Jonny og skreið upp í kannski kl hálf eitt.
Um þrjúleitið vöknuðum við upp við að maður og kona komu inn í næsta herbergi og fóru, að því virtist, að laga til eða henda hlutum til og frá. Eftir einhvern tíma kom smá þögn. Og svo upphófst þessi skemmtilegri "ástarsöngur" þeirra skötuhjúa. Alltaf er náttúran söm við sig. Gjörningurinn virtist fara ágætlega fram og pilturinn greinilega mikill herramaður og var ekkert að drífa sig. En okkur fannst þó vanta svolítið á cresetóið í endan. Kannski fannst honum það líka því að eftirá hélt maðurinn þvílíka einræðu. Hún hafði greinilega ekki alveg eins mikla þörf á að tjá sig. Rétt um það leyti sem við vorum eiginlega orðin til í að banka uppá og biðjast vægðar þagnaði elskhuginn. Þá var klukkan örugglega orðin meira en fjögur.
Við vonumst til að þau geri það bara snemma í kvöld svo við fáum svefnfrið, gamla fólkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hitabylgja og ferðaplön
29.6.2009 | 13:37
Við erum búin að vera voða dugleg síðan seinast.
Hjóla helling, fara í dýragarð, út í eyju, sullast, labba og skoða ost svo fátt eitt sé nefnt.
Svo skyldi Magni okkur eftir og fór til Íslands. Hann hefur það víst ágætt en við söknum hans auðvitað hellings.
Pælingin var að fara til Álasunds á morgun en vegna óhagstæðra skilyrða (Jorrit nennir ekki að pakka held ég) og svo óhagstæðra fargjalda er ferðalaginu frestað um viku. En núna er búið að panta miðana!
Hérna eru nokkrar myndir af ævintýrum okkar:
Dýragarðsferð |
Ameland |
Norg |
Alkmaar |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ferðin mikla
17.6.2009 | 18:25
Það eru margir ánægðir flugnemar í The Landings núna.
Þegar við settumst í bílinn til að keyra á flugvöllinn á laugadagsmorguninn voru flestar eigur okkar komnar til nýrra eiganda sem höfðu fengið þær á mjög hagstæðu verði, eða engu. Þær seinustu hurfu út úr dyrunum á svipuðum tíma og við sjálf.
Þegar við settumst inn í bílinn lak svitinn, bókstaflega, af Jorrit og Stein (sem keyrði okkur á völlinn) því að hitinn var um 35 í skugga, og það var ekkert sérstaklega mikið af honum á bílastæðinu.
Við höfðum það af að ferðast eftir The Turnpike (betra er seint en aldrei) á leiðinni á völlinn, örugglega svona 4 mílur!
Þegar við beygðum upp að hringdi síminn. Í símanum var Sean að segja okkur að það gæti verið að það væri ekki pláss fyrir okkur í flugvélinni frá Philly til Amsterdam. Bara til að bæta á stemminguna.
Jorrit og Stein fóru að finna töskuvagna þegar við komum að flugstöðinni. Við Magni biðum eftir þeim. Þegar 2 starfsmenn sem gengu hjá fóru að benda á framendann á bílnum röltum við til að athuga hvað vandamálið væri. Þá minnti aumingja bíllinn svolítið á deyjandi flug-Cylon þar sem kælivökvinn spíttist út um grillið og lak niður á jörðina!
Sem betur fer var starfsfólkið á Míamí flugvelli alveg afskaplega vinalegt og liðlegt því við vorum orðin aðeins kvumpin.
Flugferðin til Philadelfi gekk ágætlega. Jorrit fékk ekki að sitja hjá okkur Magna en Magni fékk gluggasæti.
Þegar við komu út úr vélinni tók við sprettganga í gegnum flugstöðina því við höfðum frekar stuttan tíma og þegar maður er á hoppmiða í næstum fullri vél, borgar sig ekki að vera sein. Við náðum miðum en ekkert sæti saman. Magni var fyrir framan Jorrit og ég allt annar staðar (reyndar við hliðina á klóinu). Þegar það var komið á hreint höfðum við 20 mínútur til að grípa eitthvað í gogginn og andlegt sem og líkamlegt nesti (bók og nammi).
Þegar í flugvélina var komið miskunnaði gömul kona, sem var sessunautur Jorrits, yfir okkur og skipti um sæti við mig. Svo var hægt að færa aðeins meira til svo á endanum sátum við öll saman.
En þá tók við biðin mikla. Þegar okkur var bakkað frá flugstöðunni tilkynnti flugstjórinn með mæðu í röddinni að við værum flugvél nr 20 í röðinni og við myndum þurfa að bíða amk 30 mínútur eftir að komast í loftið. Amerískar flugsamgöngur í hnotskurn (og ekki bara þar).
En við komumst í loftið og þaðan í frá hefur ferðin gengið hnökralaust fyrir sig. Töskur komust alla leið, maturinn var í lagi og fjölskyldan hans Jorrit mundi eftir að ná í okkur á völlinn.
Reyndar komu þau öll, með blóm og allt. Og allt í einu vorum við komin í kaffi til Ninke, systur hans Jorrit. Og fengum almennilegt brauð, almennilegan ost og súkkulaði álegg.
Eftir kaffið fórum við til Sneek með Sjoerd, litla bróður, og höfum nú dreift úr okkur í húsinu hennar Lijdu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sneek
15.6.2009 | 09:24
Vid erum komin til Sneek og hofum sofid eina nott.
Ferdin gekk vel og hratt fyrir sig.
Eg skrifa meira seinna. Jorrit aetlar ad gera tilraun med thradlausa sendirinn okkar og ef thad gengur vel get eg skrifad a mina hafjallatolfu i kvold.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dagur mínus 2...ööö...1?
13.6.2009 | 03:03
Alltaf gaman að hafa nóg að gera er það ekki?
Vegna hluta sem ég hef ekki tíma í að fara út í nú erum við að fljúga á morgun. Um 2 leitið.
Við erum nú eiginlega búin að pakka niður og græja en eigum eftir töluverð þrif. Það er bara gaman af því.
En sem sagt þá verðum við í stopulu internet og símasambandi næstu daga, mæli með að skrifa tölvupóst ef það er eitthvað mikilvægt.
Sjáumst síðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Dagur mínus 4, eða nei annars: 3
11.6.2009 | 23:49
Pökkun gengur ágætlega hjá okkur. Ég vaknaði reyndar með nettan (en bara nettan) vöðvabólguhöfuðverk sem er sennilega afsprengi hefðbundinna flutningsáhyggna.
Ferðatilhaganir Magna Steins eru allar að skýrast og er það gott.
Við Magni ákváðum að kíkja í sund í tilefni af því öllu og urðum fyrir óvæntri ánægju á leiðinni. Við sáum Anolu-eðlu kall ekki bara stoppa og virða okkur fyrir sér heldur líka sýna okkur rauðu veifuna sem hann er með undir kverkinni. Ég veit ekki hvaða bjartsýniskast var í honum en hann var svona eins og 2 þumalputtar á lengd og breidd. Við vorum amk ekki neitt skelkuð. Mér sýnist á wikipediunni að þetta hafi verið svona Brún Kúbversk anóla, frekar stór, en þær eru hérna út um allt en eru ekkert æstar í að sýna sig.
Jorrit slóst í sundhópinn þegar hann kom úr flugskólanum og kom með spennandi fréttir. Gaurinn sem reddaði flugmiðunum okkar var orðinn eitthvað stressaður yfir því hve mikið er bókað á mánudaginn flutti okkur yfir á sunnudaginn!
Ókey ðenn! Þá fljúgum við þá bara á sunnudaginn! Það er hvort sem er skítaspá fyrir helgina, svækja og hiti og smá þrumuveður.
Eftir sund og mat fórum við Jorrit að versla. Eða Jorrit fór að versla, ég gerði svolítið sem ég hef barasta ekki gert áður: Fór í fótasnyrtingu. Þeir Magni gáfu mér svoleiðis í afmælisgjöf en ég hafði ekki náð að koma mér í hana fyrr (eða kannski náð að forðast staðinn?).
En þetta var bara voða gott og eins og myndin sýnir er ég núna með alveg öfga breikt naglalakk og voða fín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dagur mínus 5
10.6.2009 | 22:39
Það var smá útréttingadagur í dag.
Við þruftum að fara í skólann hans Magna til að ná í pappírsdótið hans. Einnig var nauðsynlegt að kíkja í gleraugnabúðina því að gleraugun hans Magna höfðu orðið fyrir óhappi og vantaði að setja einn púða á sinn stað. Svo vantaði mér brjóstahaldara. Við (ég og Jorrit, við skulum ekki blanda Magna í þetta mál) höfðum frétt af sérstakri búð með svoleiðis dulítinn spotta til suðurs. Og svo auðvitað þar sem fólk var að gera svona leiðinlegt, kíkja aðeins í GameStop.
Við byrjuðum á Gleraugnabúðinni. Eða reyndum það því að í glugganum var stórt hvítt spjald sem sagði frá því að augnlæknirinn væri fluttur og það væri hægt að panta tíma í síma blabla. Ekkert heimilisfang. Hins vegar var lítill bleikur miði á hurðinni sem stóð á bankruptcy og eitthvað annað lagamál sem við lásum ekki.
Oh, well, annar lítur í duft í kreppunni. Leiðinlegt samt fyrir hjónin sem ráku búðina. Þau virtust vera ágæt.
Það var lítið hægt að gera þarna svo við fórum bara í skólann í staðinn. Það voru ekki lokaðar dyr. Skrifstofufólkið næstum knúsuðu Magna og lofuðu hann í hástert. Aðstoðaskólastjórinn hann Mr. Baer (borið fram eins og Bear) kom og kvaddi Magna og okkur. Alveg indælis fólk og við munum sakna þeirra svo sannarlega.
Á leiðinni út sagði Magni frá því að Mr. Baer (sem er í miklum metum hjá krökkunum) hafði svarið þess dýran eið að lita hárið á sér fjólublátt á seinasta skóladaginn ef 5. bekkingum gengi vel á FCAT. Og það gekk eftir. Krakkarnir sem voru hæstir á prófinu fengu eina skrifstofudömuna í lið með sér og lituðu hárið á kallinum. Svo fór hann í hverja stofu til að sýna krökkunum. Magni var agalega ánægður með þetta framtak.
Eftir þetta fórum við í Miami International Mall og fundum þessa hræðilegu brjóstahaldarabúð. Á meðan ég mátaði miskunnaði Jorrit sig yfir barnið og þeir fóru í GameStop og fundu PSP leik. Hann má reyndar ekki spila fyrr en á Mánudaginn en samt...
Núna liggur það helst fyrir okkur að reyna að losna við sem mest af dótinu okkar því að það er svo dýrt að senda það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Statusupdeit
4.6.2009 | 21:14
Ég hef komist að því einu sinni enn að sonur minn er hetja. Á svona hljóðlátann hátt.
Ég tók eftir því að hann var eitthvað að hósta um seinustu helgi og fékk upp úr honum að líklega væri hann með kvef. En það væri ekkert slæmt! Var bara með smá kítl í hálsinum í gær!
Og svo var ekkert talað meira um það.
Í gær fór mér að klæja í hálsinn, og hnerra, og líða bara almennt eins og tusku. Í dag er ég með endalaust nefrennsli, hósta og beinverki. Barnið hlær bara þegar barma mér og Jorrit segir bara "Æji, Greyið" í svona tón sem gefur til kynna að hann vorkenni mér ekki hætishót.
Það var seinasti dagur í skólanum í dag. Ég var að skoða á heimasíðu Álasunds kommúnu að á næsta ári eigi Magni eftir að vera í hálfan mánuð í skólanum á sama tíma. Þeir eru nefnilega með 190 skóladaga í Norge og byrja ekki fyrr en 19. ágúst.
Svo Magni fær "langt" sumarfrí núna en heldur styttra næsta sumar.
Við erum smá saman að græja flutningana en mér finnst að ég gæti nú verið duglegri en ég er. En ég hef bara svo lélegan verkstjóra, mig sjálfa. Og núna kvef, búhú...
En ég hef nú trú að ég smelli í gírinn fyrr en varir.
Reisudagurinn er 15. Júní og förum við fyrst til Amsterdam þar sem planið er að leika túrista smá og hitta vonandi ættingjana hans Jorrit. Svo fer Magni þann 21. til Íslands og við höldum norður á boginn einhvertímann eftir það.
Alveg agalega vel planað, ég veit en þetta græjast allt jafnóðum, er ég viss um. Ekki það að mér verður hugsað aðeins til Eddu systur þegar ég hugsa um nánustu framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það er komið sumar...
24.5.2009 | 22:08
og sól í heiði skín?
Nei, ekki alveg hér í Flórída.
Ekki misskilja samt, þetta er "sólskins fylkið" svo það er ekki eins og það sé sólarlaust alla daga. En sumarkoman einkennist greinlega af öðru hér en heima.
Núna, þegar það er tæp vika í fellibyljatímann, er búið að vera þrumuveður á hverjum degi síðan á þriðjudag. Og rigning. Svona smá hér og þar. Og stundum hellings, en bara í stuttan tíma. Þrumurnar byrja að bresta svona á milli 9 og 11 á morgnana og rigningin lætur sjá sig einhvertíman eftir hádegið. Og svo er sól í smástund áður en það kvöldar.
Akkúrat núna er risa þrumuveður fyrir suðvestan okkur. Við sáum það þegar við fórum að versla. Það er víst alveg séns á hvirfilbyljum úr því, því það er svo massívt. Enda er pínu spes að sjá svona ský. Það er næstum eins og himinninn sjálfur sé bara orðinn blágrár en ekki venjulega blár. Eða að það sé risastórt geimskip búið að planta sér yfir svæðinu. Svona Independence Day geimskip. Og svo murrar það og urrar og við og við sjást eldingar og flöss inn í því.
Við túristaaularnir vildum næstum óska að það væri nær svo að það væri eitthvað aksjón í gangi. En bara næstum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pappírsbrúðkaup
16.5.2009 | 20:25
Já, svona er tíminn fljótur að líða!
Fyrir einu ári síðan pússuðum við Jorrit okkur saman. Dagurinn í dag er nú rólegri en þessi fyrir ári síðan. Við fengum okkur þrándheimsrós (því miður fyrir Magna, með rúsinum) og te í morgunmat og þar sem Jorrit þurfti að fara í vinnuna kl 2, pitsu í hádegismat.
Svo horfi ég með öðru auganu á Júróvison.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)