Færsluflokkur: Dægurmál
Those Two Girls in the Morning
4.5.2009 | 14:24
Einhverstaðar verður kona að byrja eftir langt blogghlé...
Ég fór áðan í stefnt-á-að-vera-daglega göngutúrinn minn. Þetta er svona um 3ja mílna hringur sem ég geng oftast, því ég er of löt til að ganga almennilegan 4 mílna hring um blokkina mína. Eða kannski of leið því að það er ekki hægt að ganga hérna öðruvísi en meðfram stórum umferðagötum. Svifrykið maður!
Það besta við að fara í svona labbitúra á morgnana er útvarpið. Ég hef það alltaf í eyrunum til að stytta stundir og á morgnana eru þær Julie og Tamara á Strandarstöðinni (The Coast Fm). Þær eru alveg ágætar. Spjalla um daginn og veginn og spila þægilega tónlist. Svo tala þær um veðrið. Það er nú reyndar nánast alltaf eins; "Það verður sól í dag, 10% líkur á rigningu (eða engar) og hitinn á bilinu 74°F til 85°F".
Svo hringja hlustendur inn og segja álit sitt á vandamálum fólk sem þær taka fyrir. Í dag var það hún Jane sem er boðin í brúðkaup/ættarmót í Colarado í Ágúst. Sem er fínt nema að kallinn hennar nennir ekki að fara því hann "þekkir engan". Búin að vera gift í 15 ár og eiga krakka og allt. Flestir voru á því að Jane ætti bara að láta kallinn eiga sig og skemmta sér með ættingjunum. Einn maður benti þó á að almennilegir karlmenn létu óþægindi eins og leiðinlega ættingja ekki stoppa sig í að styðja við bakið á konunni sinni.
Það sem mér datt í hug var: Hvernig stendur á því að maðurinn hafi ekki tengst við neinn í fjölskyldunni eftir 15 ár! Þessi BNA menn! Kunna bara ekki á almennileg fjölskyldutengsl!
Á tíu mínútna fresti fær maður að heyra umferðafréttirnar. Þær eru bæði meira spennandi og mikilvægari en veðurfréttirnar hérna. En mér finnst það samt ennþá truflandi hvað umferðaféttamaðurinn fer auðveldlega úr umferðinni yfir í styrktaraðilana. Gaurinn talar frekar hratt sko, og fer algerlega án viðvörunar frá umferðarslysi á Turnpike* yfir í brjóstastækkanir hjá Strax**. Getur reyndar verið smá fyndið stundum.
Annars er auðvitað ýmislegt búið að gerast seinasta mánuðinn. Vorsumarið er algerlega komið. Fuglar, hiti (meiri hiti altso) og blóm. Magni fékk bara A fyrir 3ja hluta vetrarins og fékk viðeigandi verðlaun (og límmiða fyrir foreldrana til að monta sig með. Svona ef þeir vildu líma eitthvað á stuðarann á bílnum). Jorrit vinnur og vinnur. Og einn froskurinn hvarf úr búrinu. Mjög dularfullt þar sem ekki einu sinni hinar dauðadæmdu krybbur sleppa úr þessu búri. Páskarnir voru ágætir en Nóa-Siríus nr 4 var sárlega saknað.
Flutningaplön ganga hægt en ganga samt. Núna er hugsanlega stefnt á seinnipartinn í júní. En tilkynningar verða gefnar út þegar plön fara að skýrast.
*Tollvegur sem liggur eftir Flórída endilöngu og endar í Miami.
**Lýtalækninga miðstöð sem er frekar dugleg að auglýsa þjónustu sína. Allskonar tilboð og whatnot. Alveg morðfyndið í mínum huga sem tengi "Strax" við langlokur, nammi og kók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hugleiðingar á leiðinni heim
20.1.2009 | 21:18
Ég fór í könnunarferð á bókasafnið í dag. Þetta bókasafn er í Miramar-borg en eins og Pembroke Pines-borg er hún eiginlega bara hverfi og ekki nokkur leið að sjá nein borgarmörk á milli hennar og td Pembroke. Miramar byrjar nefnilega hinum megin við götuna. Pembroke Road til að vera nákvæmari.
Bókasafnið er í hinni nýju borgarmiðju (City Center) Miramar sem samanstendur af menntasetri (sem bókasafnið er í), skrifstofubyggingu með líkamsrækt, og bílastæðahúsi. Restin af svæðinu er óbyggt enn. Þetta er þó meiri uppbygging en í miðbæ Pembroke þar sem núna eru bílastæði og klukkuturn, og já, merkið að þarna sé miðbær.
Annars er tún með nautgripum hinum megin við götuna hjá miðbæ Miramar.
En allavega þegar ég labbaði fram hjá leikskóla á leiðinni heyrði ég klapp og mjóróma raddir kyrja "Obama, Obama" og þá mundi ég eftir deginum. Ég fór passlega út til að vera örugglega ekki við tölvuna þegar forsetaskiptin yrðu. Oh, fjárans.
Ansi var það því gaman að ganga inn í bókasafnið og að sjónvarpinu þar inni alveg passlega til að sjá manninn svarinn inn á afskaplega amerískan hátt. Sjónvarpinu hafði verið komið fyrir sérstaklega fyrir í lesaðstöðunni fyrir tilefnið.
Mér sýndist Obama vera pínu trektur þegar hann var að svara prestinum en kannski gat hann bara ekki beðið með að byrja skítmoksturinn. Því það er það sem hann verður að gera næstu árin.
Svo steig maðurinn í pontu. Alveg afskaplega er hann með mikla útgeislun, maðurinn. Þegar hann talar langar manni bara að lygna aftur augum og hlusta. Ræðan var auðvitað góð. Full af "We Americans" og guði eins og búast má við. Það sem ég sá af henni fjallaði um efnahagsvandann. Obama sagði einfaldlega: Seinustu ár höfum við verið löt og værukær og það er að koma í bakið á okkur. Við höfum leyft óprútnum mönnum að leika sér án hafta og við höfum ekki verið að taka þátt í heimsmálunum eins og við ættum að gera. En nú er kominn tími til að standa á fætur, bretta upp ermar og vinna. Laga það sem þarf að laga og vera skynsöm. "Yes we can" andinn sveif þarna yfir vötnum. "Við getum og gerum og gerum það saman".
Ef Íslendingar eru þjóðin sem eru sokkin í kúk upp að nefi þá eru bandaríkamenn með hann upp að öxlum. Þeim veitir ekki af hughreystingu og að heyra að það sé eitthvað verið að gera til að redda málum. Þetta verður ekkert grín hjá Obama en hann er allavega nýr og það gefur fólki hér smá von.
Fréttirnar að heiman eru ekki eins skemmtilegar. Mótmæli og piparúðar aðra hverja viku núna. Ráðherrar sem virðast vera óhagganlegir og ákveða bara sín á milli hvernig hlutirnir eiga að vera. "Ég og Geir ákváðum...". Viðskiptaforkólfar sem segja "Þetta eru ekkert óeðlileg viðskipti" um eignatilfærslur sem í augum venjulegs fólks virðast vera hrein og klár svik og þjófnaður.
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve samfélagið var geðveikt. Og það gengur illa að vinda ofan af geðveikinni.
Íslendingar hafa í langan tíma haft það svo gott að við höfum ekki séð ástæðu til að vera með vesen. Ástæðan fyrir að sjálfsmorðssprengingar hafa ekki ennþá gerst heima, er einfaldlega sú að enginn nennir að sprengja sig í loft upp ef viðkomandi getur komið viðhorfi sínu á framfæri á auðveldari hátt. Það er svo langt síðan að við höfum haft alvöru ástæðu til óánægju, að sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið sú að við kunnum bara að nöldra. Að kasta grjóti í lögguna hefur verið einstaklingsframtak í drykkjuæði í hugum okkar. Mæta niður á Austurvöll með bílhlass af hrossaskít hefur verið óhugsandi lengi vel. Og afskaplega ókurteist í ofanálag. Ómálefnalegt. Óíslenskt.
Það er líka óíslenskt að vera á hvínandi kúpunni, sem þjóð altso. Að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og húsnæði. Að upplifa sig sem valdalausan lýð sem fáir útvaldir aðilar ráðskast með að vild.
Valdaleysið er líklega verst. Og hættulegast. Það er sennilega vegna þessa valdaleysistilfinningar sem umræðan hefur snúist frá almenni kröfu um afsagnir ráðherra og upptöku eigna auðmanna, yfir í breytingu á stjórnaskránni og uppstokkun lýðræðisins (og líka afsagnir og upptökueigna).
Það er líka líklega vegna þess sem mótmælum fjölgar og löggan þarf að panta meiri byrgðir af piparúða.
Í mínum huga er augljóst að það þarf að kjósa sem fyrst. Og það þarf að endurskoða stjórnarskránna því svo virðist vera að lýðræðið á Íslandi þurfi hressingar við. Því lýðræði er ekki eitthvað sem hægt er að geyma upp í hillu.
Fólki verður að finnast það hafa einhverja stjórn á aðstæðunum. Það verður að hafa á tilfinningunni að það sé verið að gera eitthvað fyrir það. Annars vex bara reiðin. Það hjálpar svo ekki ef fólki fjölgar sem hefur engu eða litlu að tapa.
Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk. Hlutir geta alveg farið fjandans til á Íslandi eins og annars staðar. Það er ekkert rótfast í eðli Íslendinga að nöldra bara og gera svo ekkert alveg sama hvað gengur á. Suma hluti er bara ekki hægt að humma fram af sér. Ég vona bara að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því fyrr en seinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vikan og þakkir
6.12.2008 | 03:19
Nú er ein enn vikan flogin hjá.
Við Magni skreittum aðeins á mánudaginn, Jorrit til mikillar skelfingar... Ég fullvissaði manninn um að ég myndi ekki setja jólaskraut í hjónaherbergið og þá róaðist hann nokkuð.
Við fórum á "bókamarkað" á miðvikudagskvöldið á vegum skólans í Barnes and Noble. Það var ágætt. Magni græddi eina Capt. Underpants bók, á nú allar bækurnar annað hvort á ensku og íslensku. Ég hef nú eina enn ástæðuna til að labba þessar 2 mílur í Pembroke Lakes Mall.
Einn froskurinn slapp á undarlegan hátt í gær, eða fyrradag. Þegar bara 2 mættu í daglega mataraæðið í gærkvöldi var það greinilegt að það voru 2 froskar í búrinu. Enginn eðlilegur grár trjáfroskur sefur af sér hrúgu af iðandi og skoppandi krybbum í nágrenni sínu. Fram að því hefði einn getað verið óvenju góður í að fela sig þennan daginn.
En ein og svo oft áður sveik eðlið flóttafroskinn því að þegar Jorrit kom heim í gærkvöldi fannst skopparinn við Krybbubúrið. Hann var afskaplega pirraður og svangur. Horfði þarna á óteljandi (fyrir frosk, í raun svona 5-10) feitar og lokkandi krybbur alveg við nefið á sér. En þær voru í einhverskonar orkusviði því að í hvert skipti sem hann hafði miðað fullkomlega á eina hitti hann á einhvern vegg eða fyrirstöðu í miðju stökki. Ömurlega pirrandi.
Það var áfall að lesa það í morgun að Rúnar Júl hefði látist.
Ég held að minningin um þegar hann, með fullþingis konunnar sinnar, söng fyrir mig í gæsuninni minn, sé ein af þeim mögnuðustu sem ég á. Þau voru svo æðislegt þarna hjónin og sungu "Þú ein" svo afskaplega vel saman.
Ég þakka bara fyrir mig og sendi samúðarstrauma til Maríu og fjölskyldu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pæluvargur
6.6.2007 | 20:15
Sumarið er svo sannarlega komið við Mývatn!
Það hefur verið þvílíkt heitt og gott veður seinustu daga og vatnið hefur þvílíkt staðið undir nafni. Í fyrra var víst frekar slæmt fluguár (eða gott eftir því hvernig litið er á það) en núna virðist stefna í gott fluguár. Þetta sést á því að það komu hjólför á veginn þegar Þorgeir fór að ljósmynda í morgun. Líka virðist vera að kvikna í jörðinni á vinsælustu flugustöðunum því að strókarnir líkjast helst reyk eða sandfoki. Og þar sem þetta er víst stóra toppfluga sem er svo mikið af, þá heyrist stanslaust suð hvar sem maður er.
Við svona aðstæður kemur sérstæði sveitunga minna vel í ljós. Amk þegar kemur að orðfærinu. Pæluvargur og vargskýla voru orð sem ég kunni ekki fyrir ári. Og ofurfleirtala á orðinu fluga var mér líka ókunn þá; ein fluga, margar flugur, ógeðslega mikil fluga.
En alltaf lærir maður eitthvað nýtt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég þekki hann!!
11.4.2007 | 13:59
Það er ekki á hverjum degi sem vinir manns (og samstarfsfélagar) eru fréttaefni á Mbl.is. Og þess þó heldur svona jákvæðar!
Allir sem þekkja manninn vita að hann er hetja, græn eða ekki. Þó er ekki verra að fá svona plagg um það, afhent af sendiherranum.
Til hamingju með viðurkenninguna, Chas gæji
Umhverfisstofnun fær viðurkenningu fyrir sjálfboðastarf í þjóðgörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kannski maður ætti að setja...
27.12.2006 | 23:41
...upp viðvaranir við Leirhnjúk næsta sumar?
Það gengur náttúrulega ekki að fólk reiti guðina til reiði
Óttaðist reiði guðanna og skilaði hraunmolunum aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áhrýnisorð?
20.12.2006 | 19:58
Seinasta laugadag, svona um 2 leitið, sat ég upp á matarborðinu heima í Teignum (óvani síðan á æskuárum sem hefur ekki ennþá elst af mér) og horfði út um gluggann. Það var 7 stiga frost og þykkur snjór yfir öllu. Einhvern vegin komust hvít jól í umræðuna hjá okkur mæðgum og ég sagði að það þyrfti þvílíka hláku til þess að það yrði ekki hvít jól hérna fyrir norðan.
Haha, sénsinn!
Ja, sénsinn?
Seinustu daga hefur verið þvílík hláka að það horfir bara til vandræða! Heilu bæjirnir hafa skolast á burt og þegar ég gekk niður í Mývatnsstofu áðan var það eins og það var seinasta haust. 10 stiga hiti eða svona næstum því og nánast logn. Ef væri ekki fyrir jólaljósin og einstaka skafl sem þrjóskast enn við þá gæti verið vor.
Ég held að ég hætti að tjá mig um hvít jól. Amk án þess að skoða spána fyrst!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ÉG nenni ekki...
1.12.2006 | 11:55
...að hlusta endalaust á "Ef ég nenni..." ein jólin enn!
Ég hef nú áður tekið smá rant út af þessu "jóla"-lagi en þetta var nú fyrsta þannig lag sem ég heyrði þetta árið. Urr
Þá vil ég frekar heyra "Jólahjól" milljón sinnum!!!!(!)
Annars rakst ég á þessa grein á mbl í morgun: http://mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1238561
Ég held að fréttin sé einka skilaboð til mín frá guði um að slappa aðeins af. Annars mun ég að öllum líkindum hafna riddaranum á hvíta hestinum á þeim forsendum að brynjan hans sé of vel pússuð*
*5 upphrópunarmerki nb, lagast örugglega með vorinu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)