Krúnk krúnk
18.9.2007 | 19:47
Þegar ég var að ganga heim úr vinnunni í dag kváðu við tveir skothvellir. Eða ég held að það hafi verið skothvellir. Ég sá svo sem engan veiðimann. Ég vona bara að það hafi ekki verið einn af dýrasiðferðissérfræðingunum að freta á krummana sem hafa verið að skemmta sér í uppsteyminu við hæðina hliðina á þorpinu.
Mér finnst krummar skemmtilegir fuglar og að sjá þessa félaga snúa sér og vinda í vindinum hefur farið alveg ágætlega í mig.
En hrafnar eru með þeim ósköpum gerðir að þeir hafa aldrei kynnt sér mannlegar siðferðisreglur, sérstaklega þær sem snúa að hvernig maður finnur sér næringu. Þeir eru til dæmis ekki mikið að fetta tær út í það hvort maturinn sé enn á hreyfingu eða hvort hann hafi verið dauður mánuðum saman. Matur er matur og hann á að borða, svona ef fugl nær honum.
Þetta hefur ekki gert þá vinsæla á meðal bænda sem hneykslast á skorti á siðferði fuglanna.
Svo eru þeir líka ekki nógu sætir, svartir sem þykir ekki nægilega krúttlegt.
Þeir ættu kannski að fá sér PR-gaurinn sem höfrungarnir hafa? Höfrungar sem geta leyft sér að vera ótrúlega andstyggilegir og alltaf verið jafn sætir.
Það þarf varla að taka fram að krummar eru ekki vinsælir hér um slóðir, svona nánast eins óvinsælir og tófan en þó skárri en minkurinn.
En það fer alltaf ákaflega í taugarnar á mér þegar fólk vill láta skjóta þá vegna þess að þeir séu svo vondir fuglar.
Þetta er oft sama fólkið sem vilja banna fólki að kalla hundana sína stráka og stelpur. Því að það má ekki gera dýrum mannlega eiginleika.
Hmm...
En kannski voru þetta ekkert skothvellir bara eitthvað annað.
Athugasemdir
piff, í sambandi við heila dæmið þá er ég grænn heili, en ég vissi samt ekkert hvað ég átti að velja í sambandi við ferðalögin, það vantaði alveg "all of the above" takka :P
Ragna (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.