Ferðasagan
1.7.2008 | 18:43
Ég held að fylgjan mín hafi verið að lenda í Myrtle Beach.
Núna á degi tvö í Conway erum við ferðalangarnir að átta okkur.
Ferðalagið gekk vel. Reyndar fengum við Magni ekki sæti saman í Flugleiðavélinni sem var töluverður stressfaktor í byrjun ferðar. Ég átti að sitja í 10 A og hann í 11 F sem er ekki góðar fréttir fyrir móðurhjartað. Við vorum ekki þau einu sem lentu í þessu því það voru víst einar 4 fjölskyldur í vélinni sem voru tvist og bast. Og fólk var almennt ekki til í að færa sig svo að börnin gætu setið með foreldrum sínum. En við Magni vorum svo heppin að gömul kona frá Hong Kong sá aumur á okkur og færði sig í sætið hans Magna. Vinkona hennar, hún Irene, hélt mér selskap á leiðinni og reyndist sú skemmtilegasta.
Þegar við komum til Boston fengum við að bíða í mílulangri röð í vegabréfseftirlitinu. Ungi maðurinn sem skoðaði vegabréfin, landvistarleyfin og dulafullu umslögin sem fest höfðu verið í vegabréfin, var bara hress og sagðist vona það að maðurinn minn fengi vinnu hjá Icelandair þegar hann væri búinn að læra.
Svo tók við gangan mikla á milli terminala og eftir það biðstaða í annarri röð. En eftir það fengum við flugmiða fyrir bæði tengiflugin sem var óskup gott. Inni í biðsalnum í Boston náðum við að smakka hina frægu kleinuhringi frá Dunkin Doughnuts (heima hjá mér eru kleinuhringir með gati en greinilega ekki hér umslóðir) áður en komið var að því að fara í næstu vél. Það kom sem sagt í ljós að 3 og hálfur tími var bara alveg passlegur til að komast í gegnum flugstöðina.
Við tók 3ja tíma flug til Atlanta. Við hliðina á okkur sat afskaplega hugguleg stúlka frá Ghana. Hún varð kampakát þegar hún frétti að við værum frá Íslandi. Hún hafði aldrei hitt svoleiðis fólk. Ég sagði hanni að það væri ekki skrítið þar sem við værum tiltölulega fágæt. Flugvélin var varla komin upp í loftið þegar Magni hringaði sig saman í sætinu og sofnaði. Hann svaf næstum alla leiðina og ég öfundaði hann töluvert. Við sátum nefnilega fyrir framan neyðarútgang sem gerði það að verkum að það var ekki hægt að halla sætunum. Svo ég vakti.
Þegar nær dró Atlanta tóku skýin að hrannast upp í kringum okkur. Ég hef aldrei séð svona þykka skýjabakka, amk ekki frá þessu sjónarhorni! Enda fór það nú svo að tæpum klukkutíma eftir að við lentum (í brakandi sól) var orðið skuggsýnt og þrumuveður lokaði vellinum í smá stund. Magni var þokkalega ánægður með að sjá loksins almennilegt þrumuveður. Veðrið var þó á hraðferð og truflaði ferðaáætlanir okkar ekki neitt. Þannig að tæplega 9 á staðartíma stigum við upp í aldraða ATR-72 vél þar sem vinalegur eldri flugþjónn tók á móti okkur.
Þarna fór ekki á milli mála að núna værum við komin í suðurríkin. Flugstjórinn ræddi helling við okkur á leiðinni og líka hann Jooohhn flugmaður. Ástæðan var sú að við þurftum að fljúga í kringum þrumuverðið og það var víst mikil ókyrrð. Ókyrrðin olli því að það var nánast ekki slökkt á sætisbeltaljósunum og drykkjunum var skutlað í okkur á methraða rétt fyrir lendingu. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið sérstakt að sjá eldingarnar blossa fyrir utan flugvélagluggana en ef ókyrrð af þessu kaliberi kæmi í veg fyrir þjónustu um borð í flugvélum heima myndum við varla nokkurtíman fá kaffið! Iss piss.
Það var nú samt gott að komast niður á jörðina í Myrtle Beach. Ja, eftir að flugvélin hætti að skoppa á flugbrautinni. Ég get ekki gefið fugmönnum Delta hátt fyrir farþegavænar lendingar. Úff! Það kemur kannski í staðinn fyrir að vera óskiljanlegur í kallkerfið því það eru flestir Íslenskir flugstjórar en þeir geta lennt nokkuð mjúklega.
Þegar við komum út úr vélinni var klukkan rúmlega 10 og það var svo greinilegt að við höfðum ferðast örfáar breiddargráður til suðurs. Loftið var svolítið eins og í gufubaði. En við fundum Jorrit og töskurnar og héldum svo til Conway. Magni setti örugglega hraðamet í að koma sér inn úr dyrunum og í rúmið, afskaplega feginn.
Jæja, nú nenni ég ekki að skrifa meira í bili.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Samgöngur, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gott að þið komust alla leið heil á húfi og ég tel það alveg ótrúlegt að þið hafið fengið allar töskurnar ykkar vandræðalaust. Þið verðið síðan að miðla til okkar heima á klakanum heimilisfanginu ykkar í úgglandinu.
Valdís (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 20:03
ég hélt að það væri þannig að ef þú tékkar þig inn með einhverjum þá fáið þið sætisnúmer saman... en annars, það er pakki til þín frá J. de Jager í tollinum og tollurinn vill vita hvað er í honum :P og svo eruð þið búin að fá einhvern póst (já, Magni líka) en ekkert of merkilegt, nema jú þú og mamma voruð báðar stílaðar á póstkort frá Lydu (sp??) og svo fékk Magni náttúrulega kort frá henni líka.
Ragna (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 21:16
Ég skal skrifa heimilisfangið hérna á síðuna þegar dugnaðurinn nær tökum á mér. Í pakkanum er íshræridót fyrir Kitchenaid hrærivél. Jorrit sendi það til Ísland til að sjá hvort það passi. Ef það virkar við hrærivélina hennar mömmu megið þið passa það fyrir okkur Ef tollurinn vill pína pening út úr ykkur reddum við því.
Ég held að þetta með sætisnúmerin sé tilkomið vegna þess að nú getur fólk valið sér sæti á netinu, amk sumir, og þá verða þessir aular (eða þeir sem panta þannig að sætisval er ekki möguleiki eins og ég) sem gera það ekki að sitja í sætunum sem ganga af.
Elva Guðmundsdóttir, 1.7.2008 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.