Hvað er brúnt?

Og dettur af loftinu niður í rúmið?

Conway 002Ég var eitthvað að letihaugast áðan, gleraugnalaus, liggjandi upp í rúmi. Þá tók ég eftir ókunnum brúnum bletti á loftinu. "Hvaða blettur er þetta á loftinu?" hugsaði ég um leið og bletturinn hreyfði sig. "Hmm, kakkalakki?" náði ég að hugsa rétt um það leyti sem "bletturinn" datt af loftinu og niður í rúmið við hliðina á mér. Ég hef bara aldrei verið eins fljót út úr rúminu æpandi "Jorrit! Kakkalakki!" Jorrit kom, afskaplega fagmannlega,  með inniskóinn sinn og barði kvikindið vandlega og svo var því sópað upp í flösku. Þetta er hinn glæsilegasti kakkalakki og hann var merkilega kvikur þrátt fyrir lífhættulega áverka. En hann er eiginlega dauður núna.

 Við erum annars búin að vera dugleg seinustu daga.

Á laugadaginn fórum við til Charleston sem er um 100 mílur fyrir sunnan okkur. Nafnið vekur upp minningar um þætti úr þrælastríðinu, á Hverfanda hveli og slíkt. Og svo er bærinn Savannah þarna rétt hjá. Hér má sjá myndir úr ferðinni:

Charleston

En allavega, eftir leiðbeiningar frá innfæddum stimpluðum við inn "Rainbow st, Charlston, SC" inn í Charleene (GPS tækið) og lögðum af stað. Charleene vildi greinilega sýna okkur Conway aðeins áður en við lögðum af stað en eftir sikksakk í gegnum bæinn komumst við á þjóðveg 701, suður.

Miðja vegu fórum við í gegnum Georgetown. Því miður datt mér ekki í hug að taka myndir af kirkjunum fyrr en aðeins of seint því að við keyrðum fram hjá svona 10 kirkjum á leið í gegnum bæinn! Á þjóðbrautinni nb. Sumar voru ágætar en flestar eru svona kassar með svona oddmjóu græ á þakinu og 2-4 súlum fyrir dyrunum. Ein var svona stálgrindahús með steingafli sem var bæði turn og súlur saman í eitt. Hefði sómt sér vel í Hvellbæ.

Við stoppuðum til að borða í einhverju Deli. Maturinn var ágætur. Magni var reyndar ekki ánægður því það var laukur í sósunni á pitsunni. Það var hægt að fá 5 laga gulróta- eða súkkulaðiköku í eftirrétt. Ekki svona lagtertu-stíls kökur. Ónei! Við erum að tala um svona 20 cm háar kökur! 5 fullvaxnir tertubotnar plús 1 cm af kremi á hvern botn! Halelúja!

Ég stóðst freistingunna, naumlega.

Þegar maður keyrir inn í borgina norðanfrá er keyrt yfir hengibrú. Þetta er geggjað flott brú. Við Magni vorum eins og hinir verstu sveitalúðar og göptum yfir ferlíkinu.

Charleston sjálf er heldur meiri borg en Myrtle Beach. En það er annað hvort eða, afskaplega falleg hús og staðir eða afskaplega ljót. Til dæmis skil ég ekki þetta skiltaæði sem hefur heltekið BNA menn. Maður sér ekkert fyrir skiltum!

Við fundum Rainbow street og Rainbow drive og hvorugt reyndist áhugavert. Reyndar var þarna vígvöllur úr Þrælastríðinu.

Þegar við vorum búin að skoða túristakortið okkar ákváðum við að fara og skoða Charles Towne Landing sem reyndist vera afskaplega áhugaverður staður. Þar var hægt að sjá hvernig landnemar lifðu á fyrstu árum landnáms í Suður Karólínu. Þar er líka lítill dýragarður með dýrum sem mátti finna á staðnum þegar landnám byrjaði. Það þótti okkur áhugavert að sjá. Við vorum reyndar á ferðinni rétt fyrir lokun þannig að rándýrin voru orði svolítið óþolinmóð eftir matnum sínum.

Þegar við vorum búin að skoða nægju okkar fórum við niður í miðbæ og fundum okkur ítalskan veitingastað og fengum okkur pitsu. Þetta voru alveg þær bestu pitsur sem við Jorrit höfum borðað í langan tíma. Magni var líka frekar ánægður. Svo var tíramísú og vanilluís í eftirrétt. Óguð hvað þetta var góður matur!

Svo var brunað aftur heim.

Á sunnudaginn bankaði skólafélagi Jorrit upp á og bauð Magna og Jorrit í vatnsslag. Hann var með fjölskyldu sína í heimsókn (konu og 6 ára dóttur plús bróður son sinn á sama aldri) og þeim datt í hug að lífga upp á daginn. Þeir drifu sig út og komu svo svona klukkutíma seinna alsælir og blautir til baka. Og með boð í grillveislu heima hjá öðrum flugnema.

Við eltum flugnemana og co upp í hverfin fyrir ofan Myrtle Beach. Við keyrðum fram hjá amk 2 lokuðum hverfum (svona gated communities) fyrir utan öll hin sem voru merkt "Avalon" eða eitthvað slíkt. Strákurinn átti heima hjá mömmu sinni og systur í einu af þessum hverfum. Svona aðeins fínna en Landing Appartments þar sem við búum.

Þetta var mjög gaman. Magni lék sér við krakkana og æfði enskuna. Systirin átti 5 ára dúllulega stelpu svo Magni var eins og aldraður risi. Við fengum góðan mat og spjölluðum helling. Svo var farið í lókal sundlaugina um kvöldið. Krökkunum hafði verið lofað sundlaugarferð og það var sko engin miskunn. Sundlaugin var svosem ekkert hoj. Það var ein leiklaug og ein laug til að synda í. Svo var kaldur pottur (svona í staðinn fyrir heita pottinn sem væri hér). Það var aðstöðuhús með snyrtingum (sem voru í lagi og hreinar ólíkt við sundlaugina hér) og svo sýndist mér að það væri annað hús sem gæti verið veitingasala á daginn. Sundlaugarnar voru upplýstar og vatnið kom í þær í svona fossi. Það var nánast enginn klór í vatninu og laugin var þægilega heit. Svolítið annar klassi en laugin hér.

Í gær fór Jorrit í æfingarflugpróf og bakaði skonsur. Við Magni höfðum það af að fara í sund og skipta á rúminu hans. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að Magni hafi hitt önnur börn. Er hann ekki leiður að vera alltaf bara með ykkur? Er pakkinn ekki kominn?

mamma (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 09:31

2 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Nei, hann er ekki ennþá kominn. Magni er samt spenntur.

Elva Guðmundsdóttir, 31.7.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband