Þetta er nú meiri letin

Það gengur eitthvað illa að koma frá sér færslunum þessa dagana.

Ég er svona aðeins að pæla í að elta systur mína á nýja vefinn hennar. Það gengur náttúrulega ekki að fólk geti ekki lagt inn athugasemdir á síðuna mína. En við sjáum til með framkvæmdir.

Bergmál flugslysins fyrir tveim vikum heyrast enn. Seinasta laugardag fórum við í minningarþjónustu fyrir Stuart. Stuart var Jamaikískur kaþólikki þannig að athöfnin var auðvitað öðruvísi en maður á að venjast. Samt furðu lík að mörgu leiti. Fyrir utan kannski faðmlögin sem hræddu okkur norður evrópumennina smá.

Ég komst yfir bílinn á ný því að Magni þurfti að fara í seinustu lifrarbólgusprautuna á þriðjudaginn. Ég náði í Jorrit seint um kvöldið. Þegar við runnum út af bílastæðinu voru tveir bílar eftir á stæðinu. Annar var bíllinn hans Stuart, kannski var hinn í eigu flugnemans, við vitum ekki. Allavega var bíllinn hans Stuarts horfinn kvöldið á eftir.

Útsýni yfir EvergladesÉg fór í flugferð með Jorrit og Niclas nemanda, á miðvikudaginn. Sat í aftursætinu og reyndi að vera ekki fyrir. Þetta var ágæt flugferð. Fórum þvert yfir Flórídaskagann, smá upp og svo aftur niður til Pembroke. Þarna sá ég hvað Everglades eru agalega stór og hvernig er eins og það hafi gleymst að hanna landslag hér um slóðir. Allt alveg marflatt. Og blautt. Þar sem er aðeins þurrara eru akrar svo langt sem augað eygir.

Nú er bara málið að reyna að koma sér í smá jólaskap. Það gengur hægt en ég er samt búin að baka smá. Reyndar eigum við ekki mikið af döllum til að setja kökurnar í svo þær eru borðaðar jafnóðum. Ekki mikið kvartað yfir því.

Það var gerð mikil leit í Wal-Mart í gær af kókos. Það virðist ekki vera til þurrkaður kókos en hann fannst loks óþurrkaður. Og sykraður. Ég prófaði að baka úr honum, minnkaði bara smá sykurinn, og það var bara alveg fínt. Þarf bara að klippa þræðina niður svo að lúkkið sé rétt því að kókosinn er í svona grófum þráðum. Þessar fínu kókos-kornflex-súkkulaði kökur.

Við höfum líka náð okkur í nokkur Hollensk jólalög til að hafa á móti þessum 100+ íslensku jólalögum sem ég á. Svo stendur til að horfa á jólamyndir. Þetta hlýtur að hafast, þetta með jólaandann.

Annars er Magni kominn í jólafrí. Hann finnur nú ekki mikið fyrir því, því hann fékk heimavinnupakka með sér heim. Það var jólapartý hjá honum á fimmtudaginn. Hann kom heim alveg að springa af öllu namminu og sætabrauðinu sem hann fékk, agalega hamingjusamur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli ég geti sent komment frá Noregi?

Edda Rós (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 21:11

2 identicon

Núna er ég hneigsluð fyrir hönd Danmerkur!

Edda Rós (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 21:11

3 identicon

Maður gat svo sem vitað að Nojararnir væru á bak við þetta. Þetta er allt saman eitt stórt samsæri!

Valdís (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 12:44

4 Smámynd: Elva Guðmundsdóttir

Jíbbý! En samt undarlegt... Eru Danskir internetþrjótar að reka fleyg í samskipti saklausra Íslendinga?

Elva Guðmundsdóttir, 23.12.2008 kl. 16:07

5 identicon

Þetta er einstaklega sérstakt þar sem að mbl er amk að hluta til vistað á dönskum server (amk hef ég heyrt það einhverstaðar)

Edda Rós (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband