Lítið að ske

Það er rólegt í henni Mývatnssveit núna. Amk þegar kemur að mér. Enda væri annað kannski ekkert gott. Hvað gæti svo sem skeð?

Nú jæja, ég sá manni bregða fyrir um daginn sem ég hafði ekki séð síðan á seinasta hlýskeiði. Ég var farin að halda að viðkomandi ferðaðist um neðanjarðar, því það væri ekki einleikið að rekast aldrei á hann, i 400 manna samfélagi. En þarna var hann skyndilega að taka bensín. Grunsamlega syfjulegur og illa til hafður. Örugglega að sofa yfir sig. Ég hugsaði málið smá en sá mér ekki annað fært en að halda upp á tímamótin með SMS þar sem ég hældi honum fyrir "right out of bed" lúkkið. Ok kannski ekki hældi Devil

Fékk ákaflega kurteist svar, enda maðurinn kurteis þegar aðrir sjá ekki til. En ég er akkúrat öfugt; ókurteis í einrúmi þannig að ég býst við að sjá hann næst þegar fer að hlána Errm

Ekki alveg það sem ég var að reyna að gera en ég ræð greinilega ekki við óþokkann í mér.

Ówell Wink

 

 


For English Version Press...

Þessum úttlensku vinum mínum finnst pínu skítt að ég þurfi endilega að tjá mig eingöngu á hinu ylhlýra.

Þetta væri náttúrulega gullið tækifæri fyrir þá að ná tökum á Íslenskunni, amk eru orðin ekkert á förum af síðunni. En ég væri náttúrulega að svíkja lit ef ég myndi ekki alla vega hugleiða að gera eitthvað í málinu.

Að öðru: ég sé að eftir að ég flutti á síðu með teljara að heldur fleiri koma inn á hana en hægt sé að skíra með endurteknum heimsóknum náinna ættingja. Og örugglega ekki með þeim sem kvitta fyrir sig. Ég er svo forvitin... hverjir eru að skoða? Woundering 

(Those foreign friends of mine thinks it is a little bit shitty of me to exclusively write in Icelandic.

Of course this would be a excellent opportunity to learn the language, at least the words are not going anywhere. But I would be cheating my conscience if I would not at least consider listening to them.

To other things: I can see since I moved to a site were I can see how many hits I get, that I get rather more hits than can be explained by repeated visits by my close relatives. And there are more hits than the people that comment. I am so curious.. Who are looking at my site?

NB. The English version of this blog is a special thing because of the title. Little bit like subtitles for the hard of hearing when there is something about them in the TV. But we will see...)

 


Alkul eða tannakul?

Ég sótti son minn í afmæli í gær. Gerði húsmóðirinni greiða og borðaði smá perutertu (alveg sérlega góða) hjá henni á meðan að leikurinn var að klárast. Það var fleira fullorðið fólk að bjarga verðmætum við borðið (þeas kökunum). Ég var náttúrulega spurð hvernig mér finndist að búa í hálendustu sveit landsins. Ég sagði að það væri kalt og þetta reynda fólk gat sagt mér að það væri heldur kaldara en venjulega. miðað við aðra þætti veðursins (rokið, snjókomuna). Ég venst örugglega. Cool

Húsmóðirin spurði mig líka hvort ég væri frá Ísafirði því hún þekkti konu sem væri svo lík mér þar. Ég gat sagt henni að ég ætti örugglega ættingja þar en ég þekkti ekkert til þeirra. Það er stundum skrítið að vera svona furðulega til komin.

Ég var að lesa matskýrslu í dag. Ég hélt að matskýrslur ættu að vera svona hlutlægar og hlutlausar, jafnvel þurrar í orðalagi, en höfundar þessarar skýrslu höfðu greinilega gleymt sér hér og þar. Td stóð á einum stað; "Jarðböðin eru einstök perla". Devil

Hehe. Er það sem sagt vísindilega sannað? Ég hélt að perlur væru svona harðar og kringlóttar og yfirleitt frekar litlar. Ekki risastór mannvirki úr steini, viði og vatni. En svona er stundum erfitt að halda tilfinningum manns utan við vinnuna sína. Ég skil höfundana alveg, ég hef líka farið í Jarðböðin og ætti í raun að fara miklu oftar en ég geri því að þetta er örugglega besti baðstaður landsins.

Ég komst líka að því í dag að sumir eru algerir ljúflingar. Mér grunaði það reyndar en algerlega væri ég til í að faðma einn mann. Verst er hvað það er langt í hann. Ég held að ég nái ekki alla leið til Wales.

Ég vona bara að skriftir mínar á öðrum vettvangi valdi ekki handalögmálum eða fýlu einhver staðar í Tjallkistan núna um helgina. Býst nú varla við því þar sem karlmenn missa sig sjaldan í slíkt heldur fjalla karlmannlega um málin, klappa hvorir öðrum á bakið og drekka sig svo aðeins fyllri. Amk þegar þeir tilheyra hinum Norður Evrópska menningarheimi.

Annars er spáð alkuli á Íslandi núna um helgina þannig að hún verður örugglega róleg hér. Wink


Megas

Núna þegar Megas keppist við að kyrja hærra í útvarpinu en Kári hér fyrir utan verð ég að segja að gott sé orðið gott!! Angry

Núna er búið að vera bylur, rok, skafrenningur, snjókoma og frost nánast síðan að ég kom úr Reykjavíkur reisunni. Ég get alveg lofað ykkur að skapið er löngu komið á réttan kjöl svo að veðrið endurspeglar svo sannarlega ekki mína innri konu.

Ég vona bara innilega að veðrinu fari að slota svo ég komist í stórmarkað. Smámarkaðurinn sem er hérna stendur alveg fyrir sínu en það er samt farið að minnka í nýja fína frystinum mínum.

Ég ætla að fara heim og baka eitthvað. Hlusta á eitthvað af góðu tónlistinni sem ég hef fundið undanfarið í geisladiskasafninu mínu og hugsanlega að slá á þráðinn til einhvers ykkar.

Heyrumst Smile


Fyrsta tönnin fallin!!

Það var kátur drengur sem kom að morgunverðarborðinu í dag.

Framtönnin sem hefur verið að losna seinustu vikur lét sig loks í morgun. Þannig að þegar frændi hans er að bæta í tanngarðinn er Magni að  grisja í sínum. Það varð reyndar ekki almennilegt skarð þar sem fullorðinstönnin hafði misst þolinmæðina og kom upp fyrir aftan þessa fyrir svona mánuði síðan. Grin


Skíta veður

Skafrenningur
Það er búið að vera rok, skafrenningur og snjókoma í dag og í gær. Veðrið er þó heldur að skána.

Feeling Little Bit Alien

Nú er ég komin aftur á fagrasta stað landsins. Og góða veðrið hefur elt mig.  En það er alltaf gaman þegar veðrið endurspeglar innri líðan manns sjálfs. Mér líkar reyndar betur við það þegar það er sól og blíða því hvers eigið þið hin að gjalda?

Jamm, helgin var svosem ágæt. Fínn fundur og ennþá betri skoðunarferð og meððí á eftir. Var reyndar komin á Þjórsárgötuna fyrir kl 12 en bætti nú úr því daginn eftir.

Chas var svo elskulegur að elda alveg ágætis grænmetispasta fyrir mig á laugadagskvöldið. Svo hlustuðum við á tónlist og horfðum á Trainspotting sem er alls ekki verri nú en seinast sem ég sá hana. Það var ekki fyrr en eftir það sem glæpurinn var framinn. Það var þá sem Chas, elskan, dró upp viskíflöskurnar! "Elva, would you like to try some Whisky?"

Aulinn ég.

Svo nú er ég búin að komast að því að viskí er alveg ágætt svona eitt sér, kvöldið sem það er drukkið þeas. Daginn eftir... ahh

Ég þjáðist ekki svo af líkamlegum kvillum í gær heldur frekar andlegum. Ég hugsa að seratónín magnið í toppstykkinu hafi verið í sögulegu lágmarki í gær. Það er heldur skárra í dag en ekki gott. Ég hugsa td að ég myndi þola að hlusta á "Under Pressure" í dag en þegar einhver sniðugur plötusnúður spilaði það í gær var mér allri lokið.

Ég held samt að ég geti ekki kennt guðaveigunum um alla vanlíðanina. Ef ég dreg þær frá sem og hvítvínið sem kom á undan, óhollar svefnvenjur og mishollar matarvenjur seinustu daga stendur þetta eftir:

Öllu gríni fylgir nokkur alvara.

Sem leiðir að:

Vogun vinnur, vogun tapar.

En eins og kötturinn sagði við Lísu þegar hún spurði hann vegar:

"Leiðin fer eftir því hvert þú ætlar"

Og  til þess að enda á réttum nótum:

Þar stendur hnífurinn í kúnni! Frown


Suðurferð

Núna þegar veðrið er að gíra sig upp í almennilegt rok erum við mægðinin á leið suður á boginn. Ég á víst að vera stödd í Hafnarborg kl 8:30 á morgun og Magni ætlar að vesenast eitthvað með hinu foreldrinu þessa helgina.

Það verður ágætt að skoða sig aðeins um í Borg Bleytunnar. Rifja upp áttirnar í Kringlunni og Smáralind og kíkja aðeins í hræðilegustu verslun norðan Alpafjalla, IKEA.


Skemmtileg tilviljun

Það sannast enn og einu sinni að "greate mind think alike". Svo virðist vera að Valdís og ég höfum ákveðið að velja sömu vél suður á fimmtudaginn. Þetta er náttúrulega alveg ferlega ánægjulegt.

Annars slepptum við Magni kvöldmatnum núna áðan og bökuðum í staðinn köku. Magni fékk að ráða svo að það var bökuð brún rúlluterta með hvítu kremi (svona 5 millj hitaeiningar) og einhvern vegin vorum við ekki neitt svöng eftir baksturinn. Hvernig sem stendur á því? Whistling

 


Elgir

Ég er með strengi í maganum.

Ástæðan er sú að við horfðum á Monty Python's Holy Grail í gærkvöldi í staðinn fyrir hina hefðbundnu laugadagsdagskrá.

Ómy god! Það er svo langt síðan að ég horfði á myndina að ég var algerlega búin að gleyma elgunum í byrjuninni! Og ég varaði mig ekkert á því þegar Edda talaði um að hafa stoppað myndina í kynningu seinasta þegar hún horfði á hana, vegna hláturverkja.

Ég hélt í alvörunni að það myndi líða yfir mig af súrefnisskorti ég hló svo mikið. En hvað er svona fyndið við sænska elgi? Ekki gott að segja. Ég er bara fegin að þau dýr sem bíta helst heima hjá mér eru flugur en ekki 500 kg klaufdýr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband