Færsluflokkur: Bloggar

Tvöföld kuldaskil

Loksins er eitthvað spennandi að gerast í veðrinu! Amk miðað við veðurvefinn.

Bara Severe Wether Alert!

Það eru líkur á að hitinn nálgist frostmark inn til landsins í Flórída í næstu viku!

Úff hvað það verður kalt fyrir fólkið hér. Sem betur fer er trétjaldið sem við búum í með lofthitunarfídus í loftkælingunni. Og gott er að vita af úlpunni sinni uppi á hillu. En mér finnst samt full langt gengið að senda út veðurviðvörun en það er bara ég.

 En við þurfum að taka inn paprikuplönturnar og jólarósmarínið til öryggis.


Tepása

Ég þarf að labba í Publix til að versla á pitsuna í kvöld. En fyrst er smá te...

Við höfum haft það ágætt það sem komið er af nýja árinu. Áramótin voru róleg en við fórum niður á strönd til að sjá einhverja flugelda. Þeir voru nokkrir en auðvitað bara hjóm á við hvað við erum vön.

Þegar kom að því að borga leiguna fundum við týndu þúsundin sem við höfðum saknað svo yfir jólin. En fundurinn breytti fjárhagstöðunni til betra en jólin voru satt að segja mögur.

Svo þegar ég fékk rosafínu postulínskrónuna mína grenjaði ég bara smá yfir reikningum. Hefði alveg þegið málmkrónu en hér um slóðir þykir slíkt ömurlega ljótt og ekki mönnum bjóðandi. En það er skiljanlegt í samfélagi þar sem hægt er að fara í lýtaaðgerðir á tilboði (Það er auglýst massívt núna sérstakt janúartilboð hjá lýtaaðgerðarstofunni Strax sem mér finnst alveg sérstaklega fyndið).

Jorrit hefur þjáðst fyrir hæðina þessa vikuna. Þar sem hann passar svo illa í flugvélaskóhornin er hann nýttur frekar í flugherminn. Og núna hefur hann verið svo ljónheppinn að vera í flugherminum frá 7 til 1... eftir hádegi! Svo kvöldin hafa verið róleg hjá mér og það er læðst á morgnana í þeirri veiku von að maðurinn sofi eitthvað. En þetta er víst búið í bili, sem betur fer!

Jæja, núna er teið búið og ekki fleiri afsakanir fyrir að sitja hér. Best að rífa Magna hressa af stað!

Labbilabb...


Áramótafærsla

Froskur ársinsÞetta seinasta ár hefur verið ár breytinga, vægast sagt, fyrir mig og mína.

Ég og Jorrit byrjuðum árið á Skólavörðuholti með hinum ferðamönnunum. Það var hífandi rok og stundum rigning en landinn sprengdi samt eins og það væri enginn morgundagur. Það var kannski ekki svo fjarri lagi, í einhverju samhengi.

Jorrit fór svo aftur til Suður Karólínu til að berjast við kerfið, eða flugskólann réttara sagt.

Við Magni fórum aftur í Mývatnssveitina fögru.

Í janúar var ákvörðun tekin og ég sagði upp landvarða og sérfræðings djobbinu í enda mánaðarins. Lét ég af störfum þann 15. maí. Það var að mörgu leiti mikill léttir en að öðru mikil eftirsjá. En kosturinn var þó að við keflinu tók góð landverja.

Daginn eftir giftum við Jorrit okkur hjá sýsluritara og nokkrir græddu mat af því tilefni.

Eftir áhugavert hindrunarhlaup í gegnum skrifræði nokkra Íslenskra og Bandarískra stofnanna hafðist það að fá landvistarleyfi fyrir okkur Magna Stein.

Í enda júní lögðum við í hann. Eftir um 15 tíma ferðalag stigum við fæti á flugbrautina í Myrtle Beach, SC. Loftið var næstum nógu rakt til að leyfa fiskum að synda í því, hitinn um 30 gráður og klukkan var um 11 að kvöldi. Svolítið annað en heima.

Næstu vikurnar bjuggum við í Lendingabúðum í útjarði Conway, SC. Þrumuveður, furur og moskító eru einkennisorð staðarins í mínum huga. Ég gat allavega ekki farið af bæ án þess að vera étin upp til agna og útsýni er ekki til þarna því fururnar eru fyrir.

Í byrjun september dró loks til tíðinda. Með hitabeltisstorminn Hönnuh á leiðinni var flugskólanum lokað, rétt áður en Jorrit átti að fara í próf prófanna, flugkennaraprófið. Í kjölfarið fengu nemendurnir útburðartilkynningu svo það var eftir engu að bíða.

Með bílinn fullann uppí rjáfur og dýnurnar á toppnum lögðum við af stað í um 1000 mílna ferðalag frá norður mörkum Suður Karólínu, í gegnum Georgíu, niður Flórídaskagann og til Pembroke Pines.

Við lögðum af stað tæplega kl 2 eftir hádegi, komum á leiðarenda um áttaleitið daginn eftir. Ég mæli ekki með svona ferð. Sérstaklega ekki að taka þátt í morgunumferðinni á hraðbraut 95 í gegnum Ft. Lauderdale og Hollywood, ósofinn og með yfirhlaðinn bíl.

Við komum okkur fyrir að öðrum Lendingarbúðum, heldur dýrari en með stærri sundlaug. Jorrit náði loks flugkennaraprófinu í byrjum Október.

Auðvitað hafði Fallið Mikla í byrjun Október áhrif á okkur eins og svo marga aðra. En ástandið hefði getað verið verra fyrir okkur því að við vorum ekki háð krónunni.

Í byrjun desember dundi eitt áfallið enn yfir þegar ein flugvél frá flugskólanum lenti í samstuði við tveggja hreyfla vél frá öðrum skóla á svæðinu. Í flugvélunum voru 4 flugmenn sem létust allir. Einn af þeim var yfirflugkennari við flugskólann.

Við héldum jól hér í heita Flórída, innan við pálmatrén. Það tókst ágætlega til þó að við séum staðráðin í að halda jól á kaldari stað að ári. 

Næsta ár verður líklega líka litríkt. Við munum flytja amk einu sinni, í þetta skiptið til Evrópu. Stefnan núna er á AAlasund í Noregi. Við vonum innilega að það gangi eftir en það eru blikur á lofti.

En eins og danskurinn segir: Den tid, den sorg.

Gleðilegt nýtt ár og ég vona svo innilega að við sjáumst sem flest og sem oftast á nýju ári!!!


Milli hátíða

Núna eru við Magni ein heima að vesenast.

Jólin voru ekki svo slæm og margar góðar gjafir. Við drifum okkur á ströndina þann annan í jólum. Þar var búið að slá upp litlu Quebec að því virtist miðað við bílana á bílastæðinu. Sjórinn var blár og ekki of kaldur. Óeðli samt þetta að skemmta sér í honum. Við Magni létum það þó eftir okkur.

 

Strandferð26.12.08

 Svo erum við búin að lesa og spila (aðalega Magni á PSP).

Mér hefur reyndar hefndst fyrir letina því núna hefur bakið ákvað að mótmæla þessum setum og blása upp í heljarinnar vöðvabólgu í mjóbakinu. Jorrit hló að mér í gær og sagði að ég væri eins og gömul kerling. Verð nú að vera sammála.

Við fundum lambakjöt í Whole Foods og eftir miklar pælingar varð skynsemin ofaná og við skelltum okkur á 2 lambaskanka (framlappir) í staðinn fyrir hálft læri. Skankarnir hafa oft verið á borðum hjá mér og Magna og alltaf staðið fyrir sínu. En nýsjálenskar kindur eru greinilega með öðruvísi framlappir en íslenskar! Ugh! Ekkert nema sinar, bein og hlaup. Íslensk lömb skara framúr þarna! Áfram Ísland!

Nokkrar jólamyndir:

Jólamyndir08
:

 

Hún Edda systir á afmæli í dag:

Til hamingju með daginn elsku systir!! 


Fullorðins jól

Magni og Einhvern tíma hlaut að koma að því! Ég, unglingurinn, væri ekki í sama húsi og móðir mín um jólin!

Flórída var eins nálægt því að vera jólaleg og hægt var í gær. 20 stiga hiti og rigning. Bara eins og í Reykjavík, nema hlýrra, sagði Jorrit.

Við hjónin fóru í innkaupleiðangur til að uppgötva jólageðveikina. Það tókst!

Byrjuðum í Whole Foods þar sem Jóla"tréð"* var keypt ásamt ýmsu öðru sniðugu.

Þegar við gengum í bílinn sáum við eina sönnun þess að sumt fólk verður ekki vitrara með aldrinum, bara eldra. Þar var einn bíll að bakka út úr stæði. Fyrir aftan beið æfaforn kall í bílfleka eftir stæðinu. Bíllinn hans náði næstum út að horni á bílastæðinu. Þar fyrir aftan en á götunni hafði annar þúsundára stoppað á fleyinu sínu, algerlega ákveðinn að hann ætlaði þarna inn á bílastæðið en hvergi annar staðar! Flautaði og reifst út um bílgluggann tefjandi umferð á alla kanta. Svo bættist þriðji öldungurinn við en hann virtist vera starfsmaður á svæðinu. Hann spurði þrjóskugemsann hvað væri í gangi. Honum tókst greinilega ekki að hemja gaurinn því að lætin endurómuðu ennþá þegar við vorum komin út í bíl.

Svo var haldið í Wal-Mart. Bara biðin í röðinni var örugglega hálftími en það hafðist að kaupa alla helstu hluti.

Magni var á póstvaktinni á meðan þessi gekk. Við bjuggumst við 3mur pökkum. Þegar við komum heim hafði pósturinn komið og farið en ekki viljað láta barnið fá pakkana. Póstbíllinn var ennþá í hverfinu svo að Jorrit gat náð honum á spretti. Skemmtilega jólalegt eitthvað.

Eftir nokkur ánægjuleg skype símtöl elduðum við alveg fínan jólamat. Skinku með hamborgarhryggshjúp og  meðlæti. Okkur hafði tekist að finna einhverskonar malt og fanta þannig að Magni gat lapið ágætis malt og appelsín-bland á meðan við fengum okkur rauðvín (vantaði í sósuna svo það var alveg eins gott að bæta því á borðið líka).

Svo kom að pökkunum og ég verð bara að lýsa ánægju og þökkum fyrir okkur!

Núna í dag höfum við gert sem minnst, eins og jólahefðir segja til um. Kannski nennum við að hreyfa okkur á morgun, hver veit.

Gleðileg Jól

*Jólatréð í ár er rósmarínrunni klipptur í jólatréslag, agalega góð lykt Grin

 


Þetta er nú meiri letin

Það gengur eitthvað illa að koma frá sér færslunum þessa dagana.

Ég er svona aðeins að pæla í að elta systur mína á nýja vefinn hennar. Það gengur náttúrulega ekki að fólk geti ekki lagt inn athugasemdir á síðuna mína. En við sjáum til með framkvæmdir.

Bergmál flugslysins fyrir tveim vikum heyrast enn. Seinasta laugardag fórum við í minningarþjónustu fyrir Stuart. Stuart var Jamaikískur kaþólikki þannig að athöfnin var auðvitað öðruvísi en maður á að venjast. Samt furðu lík að mörgu leiti. Fyrir utan kannski faðmlögin sem hræddu okkur norður evrópumennina smá.

Ég komst yfir bílinn á ný því að Magni þurfti að fara í seinustu lifrarbólgusprautuna á þriðjudaginn. Ég náði í Jorrit seint um kvöldið. Þegar við runnum út af bílastæðinu voru tveir bílar eftir á stæðinu. Annar var bíllinn hans Stuart, kannski var hinn í eigu flugnemans, við vitum ekki. Allavega var bíllinn hans Stuarts horfinn kvöldið á eftir.

Útsýni yfir EvergladesÉg fór í flugferð með Jorrit og Niclas nemanda, á miðvikudaginn. Sat í aftursætinu og reyndi að vera ekki fyrir. Þetta var ágæt flugferð. Fórum þvert yfir Flórídaskagann, smá upp og svo aftur niður til Pembroke. Þarna sá ég hvað Everglades eru agalega stór og hvernig er eins og það hafi gleymst að hanna landslag hér um slóðir. Allt alveg marflatt. Og blautt. Þar sem er aðeins þurrara eru akrar svo langt sem augað eygir.

Nú er bara málið að reyna að koma sér í smá jólaskap. Það gengur hægt en ég er samt búin að baka smá. Reyndar eigum við ekki mikið af döllum til að setja kökurnar í svo þær eru borðaðar jafnóðum. Ekki mikið kvartað yfir því.

Það var gerð mikil leit í Wal-Mart í gær af kókos. Það virðist ekki vera til þurrkaður kókos en hann fannst loks óþurrkaður. Og sykraður. Ég prófaði að baka úr honum, minnkaði bara smá sykurinn, og það var bara alveg fínt. Þarf bara að klippa þræðina niður svo að lúkkið sé rétt því að kókosinn er í svona grófum þráðum. Þessar fínu kókos-kornflex-súkkulaði kökur.

Við höfum líka náð okkur í nokkur Hollensk jólalög til að hafa á móti þessum 100+ íslensku jólalögum sem ég á. Svo stendur til að horfa á jólamyndir. Þetta hlýtur að hafast, þetta með jólaandann.

Annars er Magni kominn í jólafrí. Hann finnur nú ekki mikið fyrir því, því hann fékk heimavinnupakka með sér heim. Það var jólapartý hjá honum á fimmtudaginn. Hann kom heim alveg að springa af öllu namminu og sætabrauðinu sem hann fékk, agalega hamingjusamur.

 


Bæjarferð Elvu

Sá fáheyrði atburður varð í dag að frúin fór alein og sjálf í bæjarferð á bílnum.

Ég held að Jorrit sleppi mér ekki aftur út á næstunni... amk ekki með kort á mér...

Leiðin lá til tannlæknis, svo í bókabúð, leikfangabúð og svo í verslunarmiðstöð. Nokkur hundruð dollara fátækari kom ég svo heim.

Mest fór þó í tannlækninn sem setti þessa fínu akríl krónu á vesenistönnina mína. Svo á að setja alveg rándýra postulíns krónu seinna.

Það er eins gott að tönnin verði til friðs héðan í frá!

Hún hefur kostað mig andvirði ansi myndalegs flatskjá, sem ég væri mun frekar til í að eiga.

Hins vegar er það ekkert sérstaklega gaman að horfa á sjónvarpið með tannpínu dauðans.

 


Fleiri vondar fréttir

Við vorum að renna inn á bílastæðið þegar símtalið kom.

Jorrit var ekki búinn að tala lengi þegar ljóst var að eitthvað mjög, mjög slæmt hafði skeð.

Á laugadagseftirmiðdag lögðu tvær flugvélar af stað í átt að æfingasvæðinu yfir The Everglades. Önnur frá Ft. Lauderdale, hin frá North Perry, Pembroke Pines. Eitthvað alvarlegt fór úrskeiðis eftir það því hvorug þeirra snéri heim á ný.

Þegar orðið var ljóst að flugvélarnar mundu ekki skila sér var myrkur skollið á. Leit hófst hins vegar í birtingu í gær og um áttaleitið fundust þær. Svo virðist vera að þær hafi skollið saman í loftinu og stungist síðan hver um sig í fenið. En í raun veit enginn núna hvað gerðist. Kannski kemur það í ljós seinna.

Þegar horft er á myndir og vídeó af flökunum er nokkuð ljóst að flugkennararnir og nemendurnir (2 af hvoru) hafa látist samstundist eða því sem næst. Þeir hafa ekki fundist enn en svæðið er afskaplega erfitt til leitar.

Flugvélin frá North Perry var ein af flugvélum Pelican. Í henni var einn af yfirflugkennurunum, hann Stuart, og nemandi hans. Þeir voru báðir frá Jamaica. Þeir voru einnig báðir með flugmannsréttindi og Stuart var reyndur flugkennari. Mér er hugsað til ættingja þeirra sem og ættingja mannanna tveggja sem voru í hinni vélinni.

Núna er Jorrit í flugskólanum. Gerandi hvað veit ég ekki því hann náði ekki neinu sambandi við skólann í gær né Svein Jonni, norska yfirflugkennarann. 

 


Afmælisdrengur

Magni S031_739499.jpgteinn er 9ju ára í dag.

Við vorum ræst fyrir kl 7 í morgun við að afmælisbarnið kom syngjandi inn í herbergið. Svo var kúrt í svona 4 sekúndur og svo: "Hvar er gjöfin?" Það tók smá tíma að finna gjöfina en eftir það var það bara eintóm hamingja.

Það tók innan við klukkustund að raða þessu fína skipi saman.

Svo er búið að vera hellings vinna að taka við símtölum og myndsímtölum.

Og skreita köku...

Ég hafði persónulega afskaplega gaman af því að sjá frænda minn vesenast í Danmörku og kúluna hennar Valdísar. Sniðugar þessar vefmyndavélarnar. Og svo því að heyra í öllum. Alltaf er maður að græða á því að eiga þetta barn InLove


Your Tide is Showing

Ég var að horfa á nýjasta Lipstick Jungle þáttinn áðan. NBC er svo liðlegt að hafa þættina á vefnum sínum endurgjaldslaust...

Ja, fyrir utan að maður verður að horfa á auglýsingar svona 6 sinnum...

Auglýsingarnar eru mismunandi. Einu sinni var einhvert offroad-aksturþema. Sennilega verið að auglýsa raunveruleikaþátt um torfærukeppni. Ég myndi nú segja að áhorfendur Lipstick Jungle séu nú ekki alveg markhópurinn fyrir slíkt.

Í dag voru styrktaraðilarnir Olay, sem auglýsti alveg agalega góðan andlitsfarða (7 yngingaraðferðir í einni dollu), og svo Vicks með kraftaverka kvefmeðal.

Svo voru hinar auglýsingarnar; Kreditkortauglýsing sem sagði m.a. "It's a concumer world, and It's ok". Ef maður fær sér svona kreditkort þá á maður að geta borgað alla hlutina sem manni langar í. Virkar líklega fínt á Kanana en sem úthrópaður Íslenskur eyðsluseggur á batavegi, fæ ég bara hroll.

Seinasta auglýsingin var fyrir "Tide" þvottaefni (sem er víst það heitasta í týskuheiminum í dag, ef maður trúir auglýsingunni). Slagorðið fyrir þvottaefnið er: "Your Tide is Showing".

Hmm...

Ég ætla sko ekki að versla þvottefni sem sýnir "flóðið" mitt. Þess vegna notar maður nú þvottaefni. Svo að flóðið sjáist EKKI ef slys ske.

Ég er bara svo skrítin...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband