Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hækkaður græjustuðull heimilisins

Við Magni fórum á Eyrina í dag. Hittum þar fyrir Valdísi og héldum svo í eyðsluferð.

Valdísi vantaði reyndar eina flúrperu sem hún fann í Byko. Ég fann örbylgjuofn í Byko Happy. Slíkt tæki hefur ekki verið til heima hjá mér árum saman, ég er alltaf að bíða eftir hinum fullkomna örrara, sem ég sá svo í dag. Ódýr, hvítur og lítill!

Ástæða ferðarinnar var samt sú að fjárfesta í síma. Ég hef tekið eftir ýmsum furðu uppátækjum hjá gamla Nokia s.s. að læsa sér með ógnarhraða þannig að ég kemst nánast ekki í símnúmeralistann í honum hvað þá meira. Annað er að kveikja á ljósinu á undarlegustu stundum og slökkva svo seint og um síðir á því. Svo frýs hann gjarnan þegar ég skoða SMS, kom vel í ljós á áramótunum.

En allt þetta er hægt að lifa með, amk um tíma, ef ekki væri það að Nokia gamli er hættur að gagnast almennilega til þess sem er kjarni tilveru hans: sem fjarskiptatæki. Hann hefur gert það nokkrum sinnum upp á síðkastið að slíta samtölum upp á sitt einsdæmi. Fyrst gerði hann þetta bara við einn síma, sem vill svo til að er sömu gerðar og hann sjálfur. Þannig það var ekki gott að vita hverjum væri um að kenna. Og kannski var Nokia bara að hinta að því að eigandi hans gæti nýtt tíma sinn betur en að blaðra endalaust við hinn aðilann. Woundering

En svo færði Nokia sig upp á skaftið og sleit símtali við annan síma. Það hefði hann ekki átt að gera (og bæta svo öllum hinum stælunum við) því nú er kominn inn á heimilið nokkur Sony Eirikson frá Svíþjóð (á sennilega japanska móður) sem mun nú taka við af Nokia frá og með deginum á morgun.

Húrra fyrir því!! W00t


Gleðileg jól!!

Já, nú er komið að þeim, einu sinni enn!!

Það var pínu skrítið að kíkja á hitamælinn áðan. Tæplega 10 stiga hiti á 24. des er ekki alveg eftir uppskriftinni.

Jólafílingurinn komst loks á fullt sving í gær. Við systurnar (mínus Edda) týndumst ásamt viðhengjum í Teiginn seinnipartinn í gær. Þar tók við jólaþrif sem setur mann alltaf í gírinn. Svo fórum við Valdís í hina hefðbundnu þorláksmessu-reddingar-ferð út á Húsó kl hálf tíu í gær. Það var fullt af fólki á röltinu og góður andi í bænum. Við ákváðum að gerast ævintýragjarnar og fórum inn í Skuld og fengum okkur latte. Það var nú aldeilis punkturinn yfir I-ið. Algerlega frábært latte í glasi (svolítið annað en gutlið sem ég fékk nokkrum metrum norðar um daginn) og jólatónlist við kamínueld. Kannski aðeins of mikill reykur þó.

Nú stendur aðeins til að prófa nýju sturtuna. Það er reyndar ekki "organ-interlock" takki í henni en nánast þó Joyful

Svo gleðileg jól!!

Grin


Nýjir fjölskyldumeðlimir

Það varð gríðarleg fjölgun í fjölskyldunni okkar Magna í gær.

Þá komu gaukarnir tveir sem hafa verið á leiðinni norður síðan í sumar. Aumingja greyin þurftu að láta sig hafa jeppaferð inn á Akureyri þann 20., í roki og allt. Svo þegar þeir héldu að allt væri komið í samt lag var þeim dröslað aftur út í bíl og keyrðir, líka í roki, upp í Mývó. Þeir eru nú byrjaðir að rífa sig á fullu svo ég held að þeim hafi ekki orðið meint af ferðalaginu.

Ég var svo andstyggileg að taka mynd af þeim, sem þeim fannst nýmislegt 014ú alger óþarfi.

 Við Magni þurfum bara að hringja í Eddu frænku og fá upp nöfnin á þeim því við munum þau ekki.


Jólageðveiki!!!!!

Fór á Eyrina í gær. Sannaði ást mína á systrum mínum svo það verður ekki um villst! Þessi ferð verður sko notuð sem dæmi um hana ef einhver efast í framtíðinni!

Það skall á asahláka í gærdag þannig að glæra-hálka varð úr. Svo kom rok... stundum þvert yfir veginn. Í þessum aðstæðum fór ég með eina afkomanda minn inn á Akureyri í gær!!

Bilun?

Já alveg örugglega. Mér til varnar var það að þegar ég lagði af stað var ekki rok.

Þegar út á Eyrina var komið þeyttumst við systurnar búð úr búð og redduðum alveg ótrúlega mörgum jólagjöfum. Magni var frekar sáttur. Hann fékk að vera endalaust lengi í Dótabúðinni á meðan ég og Edda fórum með Rögnu eða Valdísi til að velja gjöf handa hinni.

Svo tók við nett stressandi heimferð. Rokið var samt við sig en hálkan var heldur á undanhaldi. Þannig var ég ekki nema svona 1 1/2 tíma á leið heim í staðinn fyrir 2 tíma að heiman.

Á leiðinni heim sáu náttúruöflin fyrir þeirri mögnuðustu ljósasýningu sem ég hef barasta séð! Amk hef ég ekki áður séð norðurljósin lýsa upp umhverfið eins og þau gerðu í gærkvöldi. Himininn logaði! á tímabili var einskonar hringiðu-munstur rétt norðan við hvirfilpunktinn. Og litirnir!

Ég hélt nefnlega lengi að bleik, blá og rauð norðurljós væru bara fyrirbæri sem væru til í sögum sem sagt væri útlendingum af Two-flower gerðinni. En ég get núna staðfest að það er ekki rétt!

Ég mæli samt ekki með því að reyna að keyra við þessar aðstæður Sideways

 


Seinasta helgi fyrir jól

Nú er maður staddur enn og aftur í Hrísateignum.

Það stendur til að baka laufabrauð og hugsanlega einhverjar jólasmákökur.

Þar sem ég er bara 2. kynslóðar innflytjandi í Þingeyjarsýslum þá erum við ekki með eins háttþróaðar hefðir í laufabrauðsbakstri og margir innfæddir. Við gerum laufabrauðið til þess að borða það, ekki til þess að horfa á það. Þess vegna er hámark útskurðarlistarinnar hér á bæ að gera upphafstafina okkar á kökurnar með laufabrauðshjólinu og bretta uppá. Þetta er gert við svona 10 kökur, hinar 50 eru bara steiktar óbrettar. Ég veit að þetta er hjóm eitt við alvarlega laufabrauðgerð.

Svo stendur til að baka klassískar smákökur eins og loftkökur ( aka þingeyinga, aka mývetninga), Hvesperstikk, kornflekskökur og sörur Happy


Kúrt-heima-dagur

Magni var bara hress í morgun þegar hann vaknaði. Enginn hiti eða neitt. En það breytti því ekki að hann varð að vera heima í dag og þar af leiðandi ég.

Þetta var rólegur dagur. Þegar búðin opnaði fór ég og verslaði bökunarvörur og skellti svo í 2 sortir af jólasmákökum, piparkökum og bóndakökum. Ég er ekki frá því að ég hafi fundið fyrir örlitlu jólaskapi við þessar aðgerðir. En ekki nægu til þess að setja upp skraut eða hugsa uppbyggjandi um jólagjafir.

Þar sem ég er búin að kúra svo mikið í dag sé ég varla fram á að sofna á eðlilegum tíma í kvöld. Það má þó alltaf reyna.


Magni veiki

Magni var eitthvað þreytulegur í dag og þegar ég kom heim lá barnið í sófanum og tilkynnti mér að hann væri voða þreyttur og hefði sofnað áðan.

Ekki alveg eðlileg hegðun hjá drengnum svo ég rauk með hendina á ennið á honum og viti menn! Alveg glóandi!

Svo það verður legið heima í veikindum á morgun. Vonandi verða þau nú skammvinn. Frown


Mentionitis

Er til eitthvert íslenskt heiti á þessari áhugaverðu og algengu geðhliðrun? Bara að spá?

Annars er það að frétta hér að norð-austur sellur mósaik-stofnunarinnar skutu suðurliðinu ref fyrir rass í dag og héldu sinn eigin jóla-hádegismat. Hann var bara ágætur þó að latte-ið hafi verið heldur undir meðalagi. Það var frekar bara eins og kaffi með mjólk sem er auðvitað ekki það sama! Shocking

Magni Steinn er afskaplega dulegur þessa dagana og virðist vera algerlega ákveðinn í að sleppa við kartöflu þessi jól (svona því hann hefur hingað til fengið svo margar). Hann lagaði til í herberginu sínu í gær og tók dótið sitt úr stofunni í dag, nánast án þess að mögla.

Svo tók hann upp á því að lesa eina og eina blaðsíðu af bókinni sem við lásum fyrir svefninn, nánast eins hratt og ég, og með leikrænum tilburðum. Móno-tónninn er á hröðu undanhaldi hjá honum. Happy


Þolraunin

Þetta er búin að vera alveg ágæt helgi hjá okkur Magna.

Við fórum niður í Hrísateig á föstudagkvöldið. Þar voru Edda og Hrafnkell fyrir ásamt gamla settinu og Rögnu. Við skelltum okkur í pottinn eftir kvöldmatinn. Eitthvað var fólk ósammála um hvað væri nægilegur hiti í pottinum. Sumum fannst óþarfi að kæla hann niður með snjó. En allt fór vel að lokum (ég vann og potturinn varð rosa heitur).

Ég brunaði, í slyddu og leiðindar færi, upp eftir um kvöldið. Hugmyndin var að þrífa húskofann áður en ég færi niður í Mývatnsstofu á laugadaginn. Það gekk eitthvað hægt að koma sér úr bólinu en ástandið var þó heldur betra kl 2 en um morguninn.

Svo var aftur brunað niður að sjó. Liðið var búið að fara í pottinn þegar ég og Valdís komum svo við létum bara renna í aftur og fórum ofan í þegar Jersey Girl var búin. Þegar það var að renna í stóðum við eitt sinn við stofugluggann og virtum fyrir okkur öldurnar í pottinum. Það eiga náttúrulega ekki að vera háar öldur í heitapottum en það var smá rok. Errm

Þar sem við erum djarfar konur létum við rok og skafrenning ekkert stoppa okkur. Það var reyndar ekki gert nægilega ráð fyrir vindkælingu þegar skrúfað var frá upphaflega svo að ég þurfti að fara aftur upp úr og ganga í gegnum snjóinn inn í bílskúr og bæta við hitann. Enn Íslenskar konur eru alls engar gungur, frekar en mótpartar þeirra! Og við þurftum að halda á rauðvínsglösunum svo þau fykju ekki um koll. En þetta var ákveðin þolraun og á endanum varð potturinn almennilega heitur og það dró úr vindinum. Sem sagt við stóðumst prófið, hetjurnar  Cool


Santa baby...

...slip a sable under the tree, for me
I've been an awful good girl... Kissing

Ég á reyndar ágætis feld, sem ég nota lítið sem ekkert, en mig langar reyndar í ýmislegt annað...

  • Ilmvatn. Átti lengi NoaNoa sem var alveg æðislegt en nýjir tímar, nýr ilmur...
  • Legghlífar. Ekki svona 80', bleikar úr stroffi heldur svona 00', svartar og með stáli undir ilina.
  • Best of Queen, 1, 2, og 3. Need I say more?
  • Myndavél. Svona fyrir þá sem vilja gefa mér eitthvað almennilegt.
  • Nýjan síma. Sama og fyrir myndavélina.
  • Allskonar sætt, húslegt, helst eitthvað sem hægt er að hengja á veggi eða leggja á gólf.
  • Bækur. klikka aldrei.´
  • Tónlist. Það er þá alltaf hægt að skipta ef þið veljið eitthvað úr fasa við mig.
  • Útivistardót. Ég veit... vinnan... en samt...
  • Og fleira og fleira...

...and hurry down the chimney tonight Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband