Ýmsar breytingar

Í tilefni af öllu hef ég breytt útliti og nafni bloggsins. Ég hef líka sett inn heimilisfangið okkar í upplýsingum um höfund, svona svo fólk þurfi ekki að stressa sig yfir því að týna því svona ef einhverjum langar til að senda póstkort eða eitthvað.Wink

017Seinustu dagar hafa verið rólegir. Fyrsti dagurinn var alveg suddalega heitur, 30 og eitthvað gráður og agalega rakt eftir þrumuveðrið daginn áður. Svo hefur veðrið verið þokkalega bærilegt fyrir okkur ísfólkið. Sem betur fer er sundlaug rétt hjá húsinu okkar og höfum við Magni verið dugleg að nýta okkur það. Vel smurð af sólarvörn höfum við sullast og synt til að kæla okkur niður. Jorrit fór með okkur í dag en þá fór að rigna. Ég veit ekki hvort þetta tvennt tengist en hvað veit maður.

Það er búið að keyra (maður þrammar ekki neitt hér heldur keyrir) í Walmart og græddi Magni sandala og töffaraleg sólgleraugu. En í staðinn dó hann næstum úr valkvíða þegar kom að því að velja morgunkornið. Ég meina: heill Smáralindar-Hagkaupsgangur af morgunkorni! Hvernig er hægt að leggja þetta á börn! En hann valdi Fruit Loops sem kom svo í ljós að bragðast alveg eins og Trix sem við systur fengum á sértökum últra tyllidögum í gamla daga.  Einnig kom í ljós að Magna finnst ávaxta-sykur bragð ekkert sérstakt svo það er bara mamman sem borðar dýrindin með lokuð augun og í nostralgíu-kasti.

Ég fékk rauðan kjól og sólhatt...

Jorrit er búinn að vera duglegur að fljúga sem er bara fínt. Þá get ég laumast til að húsmæðast aðeins því að hann er miklu eðlisduglegri en ég þegar kemur að húsverkum. Ég vona bara að hann verði ekki orðinn alveg ónýtur þegar ég get loksins farið að vinna aftur.

Annars erum við Magni búin að skoða allskonar pöddur sem búa hérna og á mánudaginn sýndi Jorrit okkur hreiður með nokkrum ungum. Foreldrarnir eru Suður Karólínsk útgáfa af þresti og höfðu komið hreiðrinu fyrir í kassa með afgangsolíubrúsa. Mjög hugað en fínt í sumarhitanum.


Ferðasagan

Ég held að fylgjan mín hafi verið að lenda í Myrtle Beach.

Núna á degi tvö í Conway erum við ferðalangarnir að átta okkur.

Ferðalagið gekk vel. Reyndar fengum við Magni ekki sæti saman í Flugleiðavélinni sem var töluverður stressfaktor í byrjun ferðar. Ég átti að sitja í 10 A og hann í 11 F sem er ekki góðar fréttir fyrir móðurhjartað. Við vorum ekki þau einu sem lentu í þessu því það voru víst einar 4 fjölskyldur í vélinni sem voru tvist og bast. Og fólk var almennt ekki til í að færa sig svo að börnin gætu setið með foreldrum sínum.  En við Magni vorum svo heppin að gömul kona frá Hong Kong sá aumur á okkur og færði sig í sætið hans Magna. Vinkona hennar, hún Irene, hélt mér selskap á leiðinni og reyndist sú skemmtilegasta.

Þegar við komum til Boston fengum við að bíða í mílulangri röð í vegabréfseftirlitinu. Ungi maðurinn sem skoðaði vegabréfin, landvistarleyfin og dulafullu umslögin sem fest höfðu verið í vegabréfin, var bara hress og sagðist vona það að maðurinn minn fengi vinnu hjá Icelandair þegar hann væri búinn að læra.

Svo tók við gangan mikla á milli terminala og eftir það biðstaða í annarri röð. En eftir það fengum við flugmiða fyrir bæði tengiflugin sem var óskup gott. Inni í biðsalnum í Boston náðum við að smakka hina frægu kleinuhringi frá Dunkin Doughnuts (heima hjá mér eru kleinuhringir með gati en greinilega ekki hér umslóðir) áður en komið var að því að fara í næstu vél. Það kom sem sagt í ljós að 3 og hálfur tími var bara alveg passlegur til að komast í gegnum flugstöðina.

Við tók 3ja tíma flug til Atlanta. Við hliðina á okkur sat afskaplega hugguleg stúlka frá Ghana. Hún varð kampakát þegar hún frétti að við værum frá Íslandi. Hún hafði aldrei hitt  svoleiðis fólk. Ég sagði hanni að það væri ekki skrítið þar sem við værum tiltölulega fágæt. Flugvélin var varla komin upp í loftið þegar Magni hringaði sig saman í sætinu og sofnaði. Hann svaf næstum alla leiðina og ég öfundaði hann töluvert. Við sátum nefnilega fyrir framan neyðarútgang sem gerði það að verkum að það var ekki hægt að halla sætunum. Svo ég vakti.

012Þegar nær dró Atlanta tóku skýin að hrannast upp í kringum okkur. Ég hef aldrei séð svona þykka skýjabakka, amk ekki frá þessu sjónarhorni! Enda fór það nú svo að tæpum klukkutíma eftir að við lentum (í brakandi sól)  var orðið skuggsýnt og þrumuveður lokaði vellinum í smá stund. Magni var þokkalega ánægður með að sjá loksins almennilegt þrumuveður. Veðrið var þó á hraðferð og truflaði ferðaáætlanir okkar ekki neitt. Þannig að tæplega 9 á staðartíma stigum við upp í aldraða ATR-72 vél þar sem vinalegur eldri flugþjónn tók á móti okkur.

Þarna fór ekki á milli mála að núna værum við komin í suðurríkin. Flugstjórinn ræddi helling við okkur á leiðinni og líka hann Jooohhn flugmaður. Ástæðan var sú að við þurftum að fljúga í kringum þrumuverðið og það var víst mikil ókyrrð. Ókyrrðin olli því að það var nánast ekki slökkt á sætisbeltaljósunum og drykkjunum var skutlað í okkur á methraða rétt fyrir lendingu. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið sérstakt að sjá eldingarnar blossa fyrir utan flugvélagluggana en ef ókyrrð af þessu kaliberi kæmi í veg fyrir þjónustu um borð í flugvélum heima myndum við varla nokkurtíman fá kaffið! Iss piss.

Það var nú samt gott að komast niður á jörðina í Myrtle Beach. Ja, eftir að flugvélin hætti að skoppa á flugbrautinni. Ég get ekki gefið fugmönnum Delta hátt fyrir farþegavænar lendingar. Úff! Það kemur kannski í staðinn fyrir að vera óskiljanlegur í kallkerfið því það eru flestir Íslenskir flugstjórar en þeir geta lennt nokkuð mjúklega.

Þegar við komum út úr vélinni var klukkan rúmlega 10 og það var svo greinilegt að við höfðum ferðast örfáar breiddargráður til suðurs. Loftið var svolítið eins og í gufubaði. En við fundum Jorrit og töskurnar og héldum svo til Conway. Magni setti örugglega hraðamet í að koma sér inn úr dyrunum og í rúmið, afskaplega feginn.

Jæja, nú nenni ég ekki að skrifa meira í bili. 

 


Flugtak

Við Magni erum núna á Kaffitár í Leifstöð. Einhverjir Ammríkanar eru að leggja saman krónurnar sínar því einum langar í eitthvað í gjafavöruverslunninni. Svona frekar rólegt og klassískt andrúmsloft.

Við gistum hjá Svani og Höllu í nótt og mig dreymdi að við Mamma værum á leiðinni til Danmörku því hún ætlaði að stofna þar leigubílastöð. Og af því að það var svo mikið vesen að borga fólki með ávísunum ætlað hún að gera þetta allt svart. Og ég hafði á tilfinningunni að hún ætlaði að níðast á starfsfólkinu. Hmm... hvernig má skilja þetta?

Annars skutluðu gamla settið okkur á flugvöllinn. Kveðjustundin var stutt, sem betur fer því að það er svo aulalegt að skæla svona á almannafæri. En ég verð að viðurkenna að ég sakna þeirra strax. Og Rögnu, og Valdís, Og Álfhildar, Og, og.... Það er eins gott að þú sért skemmtilegur Jorrit!! Heart

Jæja, ég vona bara að útverðir hins frjálsa heims haldi ekki að ég sé hættuleg fína landinu þeirra. En ég hef nógan tíma til að hafa áhyggjur af því í vélinni. Oh hvað gerði maður án áhyggja...Wink


I'm Too Sexy

Dagurinn í dag hefur verið frekar rólegur. Lagaði til í kössunum smá og tók til flest það sem verður að fylgja okkur vestur um höf.

Rjúpukarrinn sem hefur yfirráð í garðinum flaug niður á pallinn í hádeginu, bara svona til að vísitera held ég. Hann lenti náttúrulega með myndalegu ropi. Þegar hann hélt áfram tónleikunum fór ég að athuga málið.  Hann hafði lent rétt við hliðina á gashitaranum. Gashitarinn er með fallega gljáandi stálfæti sem virkar eins og fínasti spegill fyrir einhvern sem er bara 30 cm hár. Svo karrinn gekk hring eftir hring í kringum gashitarann og ropaði að þessum frekjudalli sem hann sá fyrir framann sig. Alveg óþolandi!006

Hann hélt áfram að ropa í nokkrar mínútur en eftir það rúntaði hann í þögn í töluverðan tíma áður en hann gafst upp. Ég náði mynd af sýningunni.


Stig 4 og 5

Það er mikið búið að ske seinustu daga.

Ég hafði bókað tíma hjá Sendiráðinu á föstudaginn en þar sem Bréfið frá BNA hafði ekki komið á miðvikudaginn ákvað ég að færa tímann aftur um viku. En viti menn! Bréfið var barasta í póstkassanum á fimmtudagsmorguninn svo að mín stökk af stað. Valdís var á leiðinni suður og hafði fallist á að taka Magna með sér svo ég skellti mér bara með.

Við skiluðum Magna af okkur og svo fékk ég að leggja mig á sófanum hjá Tryggva. Heimilisflugan hafði  þó afskaplegan áhuga á mér svo að svefninn var frekar snubbóttur.

Í gærmorgun fylgdi ég Valdísi út á völl. Svo fórum við Accent í borgina aftur, náðum í Tryggva hjá B og L og fórum með hann í vinnunna. Svo tók við smá stress og þvælingur til að ná öllum skjölum og myndum fyrir viðtalið. En það hafðist nú allt saman. Og rúmlega 12 sat ég fyrir framan hvíttennta myndalega konu um þrítugt og tjáði henni að ég vildi fara til BNA til að halda heimili fyrir eiginmann minn. 

Svo þegar Tryggvi var búinn í vinnunni brunuðum við norður. Þetta var ágætis upprifjun á gömlu góðu dögunum þegar við Magni ferðuðumst með TV-ferðum.

Það var agalega notalegt að leggja sig í gærkvöldi.

Í dag lagaði ég til í fötunum okkar Magna og pantaði flug til Ammríku. Við förum þann 29. júní! W00t


Stig 3

Jæja, núna er eitthvað að gerast! Ég og MSÞ eru komin með einhver númer sem eru víst nauðsynleg til að geta fengið landvistarleyfi í BNA.

Í dag hef ég verið önnum kafin við að pirrast á útlendingaeftirlitsbatteríinu vestur í hreppum. Auðvitað þarf maður að fylla út endalaust af eyðublöðum og veseni, þó líklega bara til að sanna það að manni langi alveg rosa, rosa, rosalega til að búa í landi hinna frjálsu og hugrökku.

Nú hefði ég haldið að ástæður fyrir öllum eyðublöðunum væru að fá upplýsingar um umsækjendur (svona ef þeir ætluðu að drepa forsetann eða eitthvað). En miðað við þessi eyðublöð getur það varla verið satt. Því að á sumum þeirra er lífsins ómögulegt að koma umbeðnum upplýsingum til skila á skiljanlegan hátt, amk fyrir fólk sem er ekki algerlega innvinklað í Íslenska staðhætti.  Til dæmis verða yfirlesendur að vita hvar Suðurlandsbraut 24 er sem og Hafnarstéttin, því það var ekki pláss að skrifa "Reykjavík" og "Húsavík" á eftir þar sem beðið var um heimilisföng. Kannski hefði ég átt að skrifa bara Reykjavík og Húsavík? Svo verða þeir að láta sér lynda eftirnafnið Þorvarðardó.

Ég er líka guðs lifandi fegin að ég hafi ekki brugðið mér í Evrópureisu seinustu 10 ár því þá hefði verið gaman að koma landaheitunum fyrir nema í skammstöfunum. Danmörk x4 og Noregur x1 fer langt með að fylla plássið sem var gefið fyrir þennan lið.

Ef ég hefði verið félagsmálafrík hefði sá liður verið ansi skemmtilegur fyrir kanana. Allar íslensku skammstafirnar! Og ekkert pláss til að útskýra hvað SUNN þýðir eða eitthvað annað skemmtilegt.

Ég verð bara að segja það: Það eru um 300 milljónir manna í þessu landi og þetta var það besta sem þau gátu gert? Eiginlega svolítið sorglegt. Er svona ömulegt að vinna hjá Ríkinu þarna fyrir vestan?

Ég vona bara að mér verði ekki neitað um landvistarleyfi vegna þessara andbandarísku skrifa en ég meina þetta á besta hugsanlega hátt.

Og ég vona að heimavarnarskrifstofunni beri sú gæfa að verða sér út um tölvukunnáttufólk sem fyrst! Amk einhverja sem kunna ágætlega á exel. Fínt ef þeir þekktu líka til internetsins og svolleiðis...


Ekki nógu menntuð...

Ragna er núna á einhverju túrhesta-björgunar-námskeiði á Höfn fyrir Norðursiglingu. Hún ætlar víst að taka nokkra túra hjá þeim í sumar. Það vantar víst gæda. Vesen að ég skuli ekki hafa svona tbn því ég væri alveg til í að skuttlast aðeins með nokkra enskumælandi út á sjó á meðan ég bíð. En ég er ekki nógu menntuð...

Annars mjakast. Eftir samtal við konu hjá Þjóðskrá í dag fengust þær að útbúa vottorð um ektaskap okkar Jorrit. Magni leikur á alls oddi núna þegar M&P eru mætt til að skemmta honum. Hann er líka alveg til í að aðstoða þau við hitt og þetta eins og að fara með ruslið og hressa upp á spilakunnáttuna.

Fer til tannlæknis á  morgun, bakið er að lagast og þetta vottorðsmál í höfn (vonandi) svo allt er að komast á réttan kjöl. Er samt ennþá smá illt í ökklanum. Þessir móar eru stórhættulegir. 


Nokkrir stuttir dagar

Við Ragna og Magni höfum haft  það ágætt í góða veðrinu.  Emax hefur reyndar verið að stríða okkur svo við vorum netlaus í gær og á sunnudagskvöldið. Alltaf gaman að vera svona dreifbýlis.Angry

Ég skrapp uppeftir á sunnudagskvöldið, náði í dekk sem ég hafði gleymt í Lynghrauninu og hitti Þorgeir aðeins. Sveitin skartaði sínu fegursta, logn og 20 stiga hiti. Og flugur...

006Þegar ég kom niðureftir aftur fór ég út í garðinn og gerði aðra tilraun til að ljósmynda nýjustu nágrannanna okkar sem komu úr eggjunum einhvertíman um helgina. C. Ixus fannst nefnilega runninn miklu áhugaverðari en ungarnir í fyrri tilraun. Ljósmyndunin hafðist þrátt fyrir hávær mótmæli foreldranna.

Núna er komið svona venjulegt sumarveður; 10 stiga hiti og rigningaleg ský. Passar fínt því Ragna fór áðan og hengdi út þvott.

Þjóðskrá og Síminn eru stofnarnir vikunnar. Síminn fyrir að geta ómögulega lofað að lokað símanum á ákveðnum degi. "Hann lokast kannski á sunnudaginn en gæti bara lokast núna á eftir" var mér tjáð á föstudaginn. Það var ekkert skárra að panta lokun á mánudag nb. Ástæða: Þeir eru með svo stórt kerfi. Eiginmaðurinn datt næstum af stólnum af hlátri. Hollendingar ætti miðað við þetta að kallast á því kerfið væri löngu hrunið hjá þeim. Ég gat ekki hugsað mér að hlusta bara á itunes í þrifunum og niðurpökkuninni svo ég þakkaði bara pent fyrir og hringdi aftur í gær.

Þjóðskrá er bara lík sér og öðrum sniglastofnunum Ríkisins með það allt tekur heila eilífð. Svona standard meðferð. Allavega hafa konurnar á símanum verið ágætar. Stofnunin fær þó plús fyrir það. 


Stig 2

Núna erum við búin að koma sér út úr húsi.

Og bílskúrinn hjá M&P er orðinn fullur af þessum 60 og eitthvað kössum og meððí sem við eigum.

 Og það er nú meira rykið sem hefur safnast bak við húsgögnin. Eins og ég er nú dugleg húsmóðir!!

Seinast þegar ég flutti voru það um 2 stórir svartir sem fóru í ruslið. Núna voru það 8 eða 9. Ég hélt að húsið væri ekki nægilega stórt til að innhalda allt þetta rusl.

En allavega er allt hreint og hendurnar á mér eru orðnar eins og á gömlum bónda. Ekki en heil nögl og rétt nóg naglalakkið á nöglunum rétt nægilegt til að þekja svona 3 neglur. 


Sjálfskaparvíti

Ef hann Magni Steinn minnist á það hálfu orði næstu 3 vikurnar að honum vanti meira dót mun ég örugglega missa mig!

Dagurinn hefur farið í það að pakka niður endalausu magni af lego, playmó, bókum og öðru dóti.

Jesús Kristur hvaðan fékk barnið allt þetta drasl?? 

Og svo þjáist hann af of nískri mömmu eða svo segir hann... 

Restin af húsinu hlýtur að vera lautarferð eftir þessi skemmtilegheit. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband