Færsluflokkur: Bloggar

Leiðist

Jorrit er að lesa undir próf sem hann fer í á morgun. Magni er í tölvunni. Og mér leiðist...

Af hverju er ég ekki búin að versla Civ 4?

Þá gæti ég verið að rústa nærliggjandi siðmenningum í staðinn fyrir að gaufast þetta.

Svona kemur nískan aftan af manni alltaf hreint! 


Hvað er brúnt?

Og dettur af loftinu niður í rúmið?

Conway 002Ég var eitthvað að letihaugast áðan, gleraugnalaus, liggjandi upp í rúmi. Þá tók ég eftir ókunnum brúnum bletti á loftinu. "Hvaða blettur er þetta á loftinu?" hugsaði ég um leið og bletturinn hreyfði sig. "Hmm, kakkalakki?" náði ég að hugsa rétt um það leyti sem "bletturinn" datt af loftinu og niður í rúmið við hliðina á mér. Ég hef bara aldrei verið eins fljót út úr rúminu æpandi "Jorrit! Kakkalakki!" Jorrit kom, afskaplega fagmannlega,  með inniskóinn sinn og barði kvikindið vandlega og svo var því sópað upp í flösku. Þetta er hinn glæsilegasti kakkalakki og hann var merkilega kvikur þrátt fyrir lífhættulega áverka. En hann er eiginlega dauður núna.

 Við erum annars búin að vera dugleg seinustu daga.

Á laugadaginn fórum við til Charleston sem er um 100 mílur fyrir sunnan okkur. Nafnið vekur upp minningar um þætti úr þrælastríðinu, á Hverfanda hveli og slíkt. Og svo er bærinn Savannah þarna rétt hjá. Hér má sjá myndir úr ferðinni:

Charleston

En allavega, eftir leiðbeiningar frá innfæddum stimpluðum við inn "Rainbow st, Charlston, SC" inn í Charleene (GPS tækið) og lögðum af stað. Charleene vildi greinilega sýna okkur Conway aðeins áður en við lögðum af stað en eftir sikksakk í gegnum bæinn komumst við á þjóðveg 701, suður.

Miðja vegu fórum við í gegnum Georgetown. Því miður datt mér ekki í hug að taka myndir af kirkjunum fyrr en aðeins of seint því að við keyrðum fram hjá svona 10 kirkjum á leið í gegnum bæinn! Á þjóðbrautinni nb. Sumar voru ágætar en flestar eru svona kassar með svona oddmjóu græ á þakinu og 2-4 súlum fyrir dyrunum. Ein var svona stálgrindahús með steingafli sem var bæði turn og súlur saman í eitt. Hefði sómt sér vel í Hvellbæ.

Við stoppuðum til að borða í einhverju Deli. Maturinn var ágætur. Magni var reyndar ekki ánægður því það var laukur í sósunni á pitsunni. Það var hægt að fá 5 laga gulróta- eða súkkulaðiköku í eftirrétt. Ekki svona lagtertu-stíls kökur. Ónei! Við erum að tala um svona 20 cm háar kökur! 5 fullvaxnir tertubotnar plús 1 cm af kremi á hvern botn! Halelúja!

Ég stóðst freistingunna, naumlega.

Þegar maður keyrir inn í borgina norðanfrá er keyrt yfir hengibrú. Þetta er geggjað flott brú. Við Magni vorum eins og hinir verstu sveitalúðar og göptum yfir ferlíkinu.

Charleston sjálf er heldur meiri borg en Myrtle Beach. En það er annað hvort eða, afskaplega falleg hús og staðir eða afskaplega ljót. Til dæmis skil ég ekki þetta skiltaæði sem hefur heltekið BNA menn. Maður sér ekkert fyrir skiltum!

Við fundum Rainbow street og Rainbow drive og hvorugt reyndist áhugavert. Reyndar var þarna vígvöllur úr Þrælastríðinu.

Þegar við vorum búin að skoða túristakortið okkar ákváðum við að fara og skoða Charles Towne Landing sem reyndist vera afskaplega áhugaverður staður. Þar var hægt að sjá hvernig landnemar lifðu á fyrstu árum landnáms í Suður Karólínu. Þar er líka lítill dýragarður með dýrum sem mátti finna á staðnum þegar landnám byrjaði. Það þótti okkur áhugavert að sjá. Við vorum reyndar á ferðinni rétt fyrir lokun þannig að rándýrin voru orði svolítið óþolinmóð eftir matnum sínum.

Þegar við vorum búin að skoða nægju okkar fórum við niður í miðbæ og fundum okkur ítalskan veitingastað og fengum okkur pitsu. Þetta voru alveg þær bestu pitsur sem við Jorrit höfum borðað í langan tíma. Magni var líka frekar ánægður. Svo var tíramísú og vanilluís í eftirrétt. Óguð hvað þetta var góður matur!

Svo var brunað aftur heim.

Á sunnudaginn bankaði skólafélagi Jorrit upp á og bauð Magna og Jorrit í vatnsslag. Hann var með fjölskyldu sína í heimsókn (konu og 6 ára dóttur plús bróður son sinn á sama aldri) og þeim datt í hug að lífga upp á daginn. Þeir drifu sig út og komu svo svona klukkutíma seinna alsælir og blautir til baka. Og með boð í grillveislu heima hjá öðrum flugnema.

Við eltum flugnemana og co upp í hverfin fyrir ofan Myrtle Beach. Við keyrðum fram hjá amk 2 lokuðum hverfum (svona gated communities) fyrir utan öll hin sem voru merkt "Avalon" eða eitthvað slíkt. Strákurinn átti heima hjá mömmu sinni og systur í einu af þessum hverfum. Svona aðeins fínna en Landing Appartments þar sem við búum.

Þetta var mjög gaman. Magni lék sér við krakkana og æfði enskuna. Systirin átti 5 ára dúllulega stelpu svo Magni var eins og aldraður risi. Við fengum góðan mat og spjölluðum helling. Svo var farið í lókal sundlaugina um kvöldið. Krökkunum hafði verið lofað sundlaugarferð og það var sko engin miskunn. Sundlaugin var svosem ekkert hoj. Það var ein leiklaug og ein laug til að synda í. Svo var kaldur pottur (svona í staðinn fyrir heita pottinn sem væri hér). Það var aðstöðuhús með snyrtingum (sem voru í lagi og hreinar ólíkt við sundlaugina hér) og svo sýndist mér að það væri annað hús sem gæti verið veitingasala á daginn. Sundlaugarnar voru upplýstar og vatnið kom í þær í svona fossi. Það var nánast enginn klór í vatninu og laugin var þægilega heit. Svolítið annar klassi en laugin hér.

Í gær fór Jorrit í æfingarflugpróf og bakaði skonsur. Við Magni höfðum það af að fara í sund og skipta á rúminu hans. 


Allt að koma

Eftir að hafa sofið lungan úr seinustu viku er mín að koma til.

Það er nú meira hvað ég var sæt, rauð, upphleypt og bólgin!

Núna er skinnið eins og aðeins of lítið en útbrotin eru horfin.

Jorrit og Magni tóku þyrnirósarsvefni mínum með þolinmæði. En í gær vélaði Jorrit okkur Magna í búðarferð.

Við fórum í Tangers sem er svona Outlet-staður með alveg helling af búðum. Það er eitt svona Tangers á milli Conway og Myrtle Beach en Jorrit ákvað að fara í hitt sem er í North Myrtle Beach. Svo hann fann það í gagnagrunninum í Mio (sem er nýja GPS græjan okkar, Mio talar með ástralskri kvenröddu sem er snilld. Við erum ekki búin að skýra græjuna ennþá) og off we went...

Við komumst á staðinn á endanum en ekki fyrr en Mio hafði reynt að leiða okkur eftir göngustíg við ánna sem rennur framhjá Conway. Áhugvert en við erum viss um að við ættum að vera á bílabrúnni beint fyrir OFAN göngustíginn. Svo lentum við í smá veseni  þegar rigning í öðruveldi skall á okkur á hraðbrautinni. Alveg snilld að sjá ekki út úr augum vegna rigningar og vera á 55 mílna hraða í þungri umferð!

En búðarröltið var ágætt. Það var ekki ein einasta flík keypt en töluvert að bókum og bökunarvörum. Fundum nefnilega búð sem heitir Harry and David sem er alveg agalega skemmtileg. Allskonar gúmmilaði og sniðugt dót. NammNamm.

Pitsa dagsins var snædd í matarkjarnanum og kvöldmaturinn var Ben and Jerrys ís. Meira namm.

Kannski hefði ég keypt eitthvað að fötum ef ég hefði verið í meira stuði en í gær var ég ekki alveg í skapi fyrir að skoða mig í speglum. Og svo voru búðirnar mest með íþróttaföt eða barnaföt. Edda, vantar stubbinn eitthvað? Wink

Eftir búðarferðina fórum við á bíó. Á Journey to the Center of the Earth auðvitað.

Svona meðal ræma. Ekki fyrir fólk sem þolir ekki mótsagnir eða ónákvæmni! Það var samt gaman að sjá smá mosa og hraun. Og mikið hlógum við yfir framburðinum á íslensku staðarnöfnunum amk mun meira en hitt fólkið í bíóinu.

Og það voru risaeðla og ljótir fiskar og salíbunur niður hitt og þetta. Það gerði unga manninn ánægðan.

Dagurinn í dag hefur farið í að þvo þvott og svoleiðis. Jorrit gerði ammrískar pönnukökur með nýju deig könnunni sem hann keypti í H og D í gær. Þær voru afskaplega góðar og ekkert subb.

Og hann fann frosk á svölunum. Við tókum auðvitað myndir af greyinu þangað til að hann flúði. Ég gúglaði hann og wikipedíaði og fann út að hann væri svona grænn trjáfroskur. Er hann ekki sætur?Conway 006


Lesa leiðbeiningarnar!

Það eru góðar fréttir og það eru slæmar fréttir.

Góðu fréttirnar eru þær að sjúkratryggingin okkar Magna er komin í gegn.Smile

Vondu fréttirnar eru þær að ég er með ofnæmiskast!Frown

Ég á bara svo erfitt með að venjast því að vera svona ofnæmiskeis. Að ég eigi að prófa nýjar snyrtivörur á lítt áberandi stöðum (td olbogabótinni) áður en ég nota þær á áberandi stöðum (td á ANDLITIÐ).

Ég held að ég geri slíkt framvegis.

Ég notaði afskaplega þægilegt andlitvax í fyrradag til að létta á efri vörinni. Agalega sniðugt, þarf ekki einu sinni svona efnisstymla eins og með Veet vaxið. Pínu sárt en virkaði vel.

Í gær vaknaði ég smá útbrot á vinsta augnlokinu og með pínu rauða efri vör. Ekkert óeðlilegt miðað við misþyrmingarnar kvöldið áður, þeas roðinn ekki útbrotin. Tók þessu nú létt, sleppti þó sundferð. En í morgun... jesús og allt hans slekti! Þvílík útbrot og bólga á efrivörinni, í kringum augað og kunnuglegur kláði á eyrunum. Þegar mér byrjaði að klæja undan giftingahringnum og við fundum útbrot á vinstri öklanum var brennt í Wal-mart. Þar benti indæll lyfjafræðingur  mér á 2 gerðir af ofnæmislyfjum, eina veika (svo hægt sé að keyra) og eina sterka (sem slær mann út). Við keyptum báðar takk fyrir. Þessa sterku fyrir núna og hina til að eiga.

Ég skellti  einni pillu í mig á bílastæðinu og það passaði fínt, þegar við vorum komin heim var bara alveg passlegt að skríða upp í rúm. Og þar er ég búin að vera síðan. Hrjóthrjót.

En núna er ég eldhress (1 1/2 tími í næstu inntöku) og sit ein frammi á meðan kallarnir sofa. Ég held, og vona, að ástandið sé að batna. Það er svo dýrt að fara til læknis, þrátt fyrir trygginguna, og ég er ekki viss um að hann gæti gert eitthvað. En ég ætla að vera forsjál í þetta skiptið og eiga innhaldslýsinguna af vaxinu. Og næst ætla ég að gera prufu!!


Lífið í Lendingaríbúðum

Við Magni erum óðum að aðlagast loftlaginu hér um slóðir. Hin daglegar sundferð hefur gert það að verkum að við erum orðin frekar brún þrátt fyrir þvílíkt magn af sólarvörn.

Veðurlag hér um slóðir er svolítið annað en heima. Ég er td viss um að Suður Karólínubúar tali ekki mikið um veðrið. Hvað er um að tala? Það er alltaf eins! Heitt og rakt, heitt, rakt og sól, og svo þrumuveður. Þrumuveðrið er samt frekar kúl fyrirbæri (innan dyra nb) og því fylgir almennileg rigning. "Eins og sturtað úr fötu" fær nýja merkingu í mínum huga. Og svo verða froskarnir svo ánægðir á eftir. Þeir syngja fagurlega úti núna. 

Ég er búin að hafa það af að vera stungin af moskítóflugu. Ég held að við Magni höfum vakið hana af værum dagssvefni og hún ákvað að nýta tækifærið. Þar sem ég uppgötvaði kvikindið á öxlinni of seint fylgdumst við mæðginin með því þegar hún belgdi sig út. Því miður náði ég henni ekki þegar hún flaug á braut en ég hef náð nokkrum síðan. Fann ekki neitt til en er núna með rauðan blett á öxlinni.

Við fórum í skemmtiferð á laugadagskvöldið. Kíktum á Broadway on the Beach í Myrtle Beach. Þar keyptum við okkur inn í sædýrasafn Ripley's  Magna til mikillar ánægju.

Okkur reyndar líka því að safnið var ágætt. Góð sýning um sjóræningja og afskaplega flott göng undir aðal fisktankinn. Þar svömluðu hákallar af ýmsum gerðum og flullt af öðrum fiskum. Svo var hellings stórt ker með skötum og þar var staður sem sköturnar gátu synt um grynningar og leyft gestum að koma við sig. Magni datt næstum út í við að reyna en það hafðist að lokum. Núna á hann bol til sönnunnar! Á einum stað var líka ker með skeifukröbbum sem mátti taka upp og skoða. Við kerið var starfsmaður sem fylgdist með gestum og fræddi um þessi stórmerkilegu dýr. Reyndar sá maður mikið af svoleiðis starfsfólki á vappi sem mér finnst vera gæðastimpill á svona söfnum.Smile

Svo þegar við komum út löbbuðum við aðeins eftir göngugötunni. Þar er hellingur af litlum búðum sem okkur fullorðna fólkinu fannst áhugavert að skoða en Magni var ekki alveg eins hrifinn. Til dæmis fundum við sólgleraugnabúð með Ray Ban og Oakley. Jorrit sýndi mér afhverju hann á ekki Aviator gleraugu og ég asnaðist til að prófa græn Oakley gleraugu. Þau voru alveg æðisleg! Líka þessi brúnu sem ég prófaði á eftir. En verðmiðarnir sögðu 90$ og 170$ og ég var rétt búin að ræða um hvað skeður venjulega fyrir dýru sólgleraugun sem ég eignast. Múm, mig langar í...

Svo fórum við inn í afgötu þar sem seldir voru áfengir drykkir úti, spiluð há tónlist og lyktaði af ilmvatni og sígarettum. Það var líka heitt og rakt, eins og venjulega. Ég fann bara fyllíris-rofann smella. Smá skrítið með barnið við hliðina á sér. Barnið var reyndar orðið frekar þyrst og þurfti á klósettið svo við fundum svona gammeldags "diner" og fengum okkur shake. Nammi! Þetta var sko ekta, með kirsuberi efst. En vatnið sem fylgdi var úr krananum og það tók aðeins á að skella því í sig.Sick 036

Þessi staður minnti mig á staðinn sem Monica þurfti að vinna á einhver tímann snemma í Vina serínum. Þjónustustúlkunar voru reynda bara í eðlilegum gamaldags búningum en viti menn! Þegar eitt lagið byrjaði (man ekki hvaða lag en það var held ég með The Surpremes) stukku þær út á gólf og  dönsuðu. Ekki vel æft og þær aðeins vandræðalegar en samt... Skemmtilegur staður með góðum shake.


4. júlí og heilsan

Það var þjóðhátíðardagur í gær. Jorrit spurði lokal flugkennarann hvaða skemmtilegu viðburði væri nú að sjá á svæðinu. Hann yppti öxlum og sagði að það væri jú einhver bátasigling einhverstaðar og svo flugeldasýningar um kvöldið. Ekkert voða upprifinn. Og ég hélt að allir BNA búar væru móðursýkislega uppteknir af föðurlandsást og hvernær er betra að sýna hana nema á 4ða júlí?

Nújæja, ein enn sönnunin á að þetta er bara venjulegt fólk.

Svo í staðinn fyrir að samgleðjast heimamönnum í skrúðgöngu héldum við upp á daginn í Ameríkasta fyrirbæri í heimi: Mollinu!

Conway 011Þar skoðaði ég föt, Jorrit leitaði af kennslutækjum (flugvél) og Magni reyndi að draga okkur að öllum skemmtitækjum á staðnum. Hann hafði svolítið erindi sem erfiði því að við splæstum 6 mínútum í teyju/trambolín hoppirólu. Það fannst gaurnum ágætt og ekki var verra þegar ókunnugt fólk klappaði fyrir honum er hann náði að fara kollhnís í loftinu.

Flugvélin fannst ekki í Mollinu svo að við keyrðum í Toys'r'us (flugvél og lego fannst þar) og svo aftur til baka í bíó. Við fórum á WALL E. Ég mæli með henni, fyndin mynd, vel gerð og með ágætum boðskap. Það voru auglýsingar í svona hálftíma á undan myndinni. Meðal annars var auglýst "Journey to the Center of the Earth" og þegar móbergstapinn og mosinn kom í ljós hlýnaði mér um hjartaræturnar. Önnur mynd sem er skylda fyrir mann að sjá.

Verð bara að muna að taka með mér úlpuna því að það er ekki smá sem opinberar byggingar eru loftkældar hérna. Það var sko ekki gráðu heitara en 18 gráður í bíóinu sem er ekki notalegt þegar það eru um 32 úti! Þetta er eins og allt væri kynnt heima upp í svona 30 gráður, of mikið af því góða. 

Í dag vökunuðum við hjónin með þetta fína kvef. Magni hefur verið að hósta seinustu daga, Jorrit hefur kvartað yfir hálsbólgu síðan í fyrradag og ég fann fyrir smá pirringi í gær. Svo núna er það bara atjú og hnerr. Magni er reyndar mun hressari en við og Jorrit er hreinlega veikur (meira að segja hann viðurkennir það). Ég er svona mitt á milli.

Conway 013En við fórum samt og lágum við sundlaugina í dag.  Magni fann 19 sent og eina engisprettu í lauginni. Það var rúmlega 30 stig og skýin hrönnuðust upp og endaði allt með þrumum og látum. Við vorum komin inn þá.

Eftir á að hyggja var það kannski ekki sniðugt því að heilsan batnaði ekki neitt við sullið. En það var samt notalegt. 

 


Ýmsar breytingar

Í tilefni af öllu hef ég breytt útliti og nafni bloggsins. Ég hef líka sett inn heimilisfangið okkar í upplýsingum um höfund, svona svo fólk þurfi ekki að stressa sig yfir því að týna því svona ef einhverjum langar til að senda póstkort eða eitthvað.Wink

017Seinustu dagar hafa verið rólegir. Fyrsti dagurinn var alveg suddalega heitur, 30 og eitthvað gráður og agalega rakt eftir þrumuveðrið daginn áður. Svo hefur veðrið verið þokkalega bærilegt fyrir okkur ísfólkið. Sem betur fer er sundlaug rétt hjá húsinu okkar og höfum við Magni verið dugleg að nýta okkur það. Vel smurð af sólarvörn höfum við sullast og synt til að kæla okkur niður. Jorrit fór með okkur í dag en þá fór að rigna. Ég veit ekki hvort þetta tvennt tengist en hvað veit maður.

Það er búið að keyra (maður þrammar ekki neitt hér heldur keyrir) í Walmart og græddi Magni sandala og töffaraleg sólgleraugu. En í staðinn dó hann næstum úr valkvíða þegar kom að því að velja morgunkornið. Ég meina: heill Smáralindar-Hagkaupsgangur af morgunkorni! Hvernig er hægt að leggja þetta á börn! En hann valdi Fruit Loops sem kom svo í ljós að bragðast alveg eins og Trix sem við systur fengum á sértökum últra tyllidögum í gamla daga.  Einnig kom í ljós að Magna finnst ávaxta-sykur bragð ekkert sérstakt svo það er bara mamman sem borðar dýrindin með lokuð augun og í nostralgíu-kasti.

Ég fékk rauðan kjól og sólhatt...

Jorrit er búinn að vera duglegur að fljúga sem er bara fínt. Þá get ég laumast til að húsmæðast aðeins því að hann er miklu eðlisduglegri en ég þegar kemur að húsverkum. Ég vona bara að hann verði ekki orðinn alveg ónýtur þegar ég get loksins farið að vinna aftur.

Annars erum við Magni búin að skoða allskonar pöddur sem búa hérna og á mánudaginn sýndi Jorrit okkur hreiður með nokkrum ungum. Foreldrarnir eru Suður Karólínsk útgáfa af þresti og höfðu komið hreiðrinu fyrir í kassa með afgangsolíubrúsa. Mjög hugað en fínt í sumarhitanum.


Flugtak

Við Magni erum núna á Kaffitár í Leifstöð. Einhverjir Ammríkanar eru að leggja saman krónurnar sínar því einum langar í eitthvað í gjafavöruverslunninni. Svona frekar rólegt og klassískt andrúmsloft.

Við gistum hjá Svani og Höllu í nótt og mig dreymdi að við Mamma værum á leiðinni til Danmörku því hún ætlaði að stofna þar leigubílastöð. Og af því að það var svo mikið vesen að borga fólki með ávísunum ætlað hún að gera þetta allt svart. Og ég hafði á tilfinningunni að hún ætlaði að níðast á starfsfólkinu. Hmm... hvernig má skilja þetta?

Annars skutluðu gamla settið okkur á flugvöllinn. Kveðjustundin var stutt, sem betur fer því að það er svo aulalegt að skæla svona á almannafæri. En ég verð að viðurkenna að ég sakna þeirra strax. Og Rögnu, og Valdís, Og Álfhildar, Og, og.... Það er eins gott að þú sért skemmtilegur Jorrit!! Heart

Jæja, ég vona bara að útverðir hins frjálsa heims haldi ekki að ég sé hættuleg fína landinu þeirra. En ég hef nógan tíma til að hafa áhyggjur af því í vélinni. Oh hvað gerði maður án áhyggja...Wink


Ekki nógu menntuð...

Ragna er núna á einhverju túrhesta-björgunar-námskeiði á Höfn fyrir Norðursiglingu. Hún ætlar víst að taka nokkra túra hjá þeim í sumar. Það vantar víst gæda. Vesen að ég skuli ekki hafa svona tbn því ég væri alveg til í að skuttlast aðeins með nokkra enskumælandi út á sjó á meðan ég bíð. En ég er ekki nógu menntuð...

Annars mjakast. Eftir samtal við konu hjá Þjóðskrá í dag fengust þær að útbúa vottorð um ektaskap okkar Jorrit. Magni leikur á alls oddi núna þegar M&P eru mætt til að skemmta honum. Hann er líka alveg til í að aðstoða þau við hitt og þetta eins og að fara með ruslið og hressa upp á spilakunnáttuna.

Fer til tannlæknis á  morgun, bakið er að lagast og þetta vottorðsmál í höfn (vonandi) svo allt er að komast á réttan kjöl. Er samt ennþá smá illt í ökklanum. Þessir móar eru stórhættulegir. 


Nokkrir stuttir dagar

Við Ragna og Magni höfum haft  það ágætt í góða veðrinu.  Emax hefur reyndar verið að stríða okkur svo við vorum netlaus í gær og á sunnudagskvöldið. Alltaf gaman að vera svona dreifbýlis.Angry

Ég skrapp uppeftir á sunnudagskvöldið, náði í dekk sem ég hafði gleymt í Lynghrauninu og hitti Þorgeir aðeins. Sveitin skartaði sínu fegursta, logn og 20 stiga hiti. Og flugur...

006Þegar ég kom niðureftir aftur fór ég út í garðinn og gerði aðra tilraun til að ljósmynda nýjustu nágrannanna okkar sem komu úr eggjunum einhvertíman um helgina. C. Ixus fannst nefnilega runninn miklu áhugaverðari en ungarnir í fyrri tilraun. Ljósmyndunin hafðist þrátt fyrir hávær mótmæli foreldranna.

Núna er komið svona venjulegt sumarveður; 10 stiga hiti og rigningaleg ský. Passar fínt því Ragna fór áðan og hengdi út þvott.

Þjóðskrá og Síminn eru stofnarnir vikunnar. Síminn fyrir að geta ómögulega lofað að lokað símanum á ákveðnum degi. "Hann lokast kannski á sunnudaginn en gæti bara lokast núna á eftir" var mér tjáð á föstudaginn. Það var ekkert skárra að panta lokun á mánudag nb. Ástæða: Þeir eru með svo stórt kerfi. Eiginmaðurinn datt næstum af stólnum af hlátri. Hollendingar ætti miðað við þetta að kallast á því kerfið væri löngu hrunið hjá þeim. Ég gat ekki hugsað mér að hlusta bara á itunes í þrifunum og niðurpökkuninni svo ég þakkaði bara pent fyrir og hringdi aftur í gær.

Þjóðskrá er bara lík sér og öðrum sniglastofnunum Ríkisins með það allt tekur heila eilífð. Svona standard meðferð. Allavega hafa konurnar á símanum verið ágætar. Stofnunin fær þó plús fyrir það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband